Þetta gullfallega barn átti afmæli fyrr í þessum mánuði. Hann varð 12 ára. Það er kominn pínu pungur í hann. Eitthvað byrjaður að ibba gogg og svona, æfa sig í að standa á sínu, sem er gott auðvitað. Er ekki pínu fyndið hvað maður hugsar um unglingsárin sem einhverja tifandi tímasprengju? Mun hún springa? Er inní henni konfettí eða mun kvikna í? Ef öll mín börn eru eins þá hef ég engar áhyggjur af þessu tímabili. Að ári mun ég eiga þrjá unglinga og eitt smábarn. Tvo í framhaldsskóla, einn í grunnskóla og smábarn á síðasta ári í leikskóla. Hvaða kona er ég eiginlega?

Allavegana. Mikið hefur á dagana drifið af venjulegu stöffi en aðallega snjó og kulda. Ég vil helst ekki vera kalt. Mér finnst það alveg svakalega óþægilegt. Þessvegna er ég yfirleitt alltaf mjög vel og jafnvel of vel búin. Alltaf í kuldaskónum langt fram á vor þegar allir eru komnir í sandalana. … sandalar.. Kaupmannahöfn.. heit sumur.. grrrrr.

Er í augnablikinu í flíspeysu innanundir lopapeysunni inná kontór, samt kalt. Og talandi um kuldaskó. Var ég búin að segja þér frá því þegar ég keypti 10 pör af skóm á sama pening og 2.33 pör af skóm? Mig langaði í svona Sorel kuldaskó, finnst þeir mega flottir og fann par í íslenskri netverslun. Þeir voru á rétt um 20 þúsund krónur. Mér fannst það vera katastrófa fyrir hið auma veski sérstaklega með í huga að ég þurfti að kaupa kuldaskó á fjóra, það hefði verið meira en dekk undir vora sjálfrennireið.

En þú sagðir 10 pör en ekki 4, kannt þú að vera að velta fyrir þér og það er rétt. Ég var búin að ákveða að í eina aðventugjöfina á aðventunni í fyrra (sem hljómar rosa langt síðan en var samt bara í síðasta mánuði) myndu vera inniskór á línuna. Það vegna þess að það er kalt gólfið heima og svo er bara gott að eiga og nota inniskó. Allir nema litli Herforinginn eru í fullorðinsstærðum af skóm svo það er ekkert lengur eitthvað að kaupa 3 pör af barnaskóm á verði eins fullorðinspars.. segi þetta bara til að ítreka sigur minn yfir þessum ótrúlega OSOM skóinnkaupum.

Höldum áfram með söguna. Ég keypti s.s nákvæmlega sömu skó OG 3 pör í viðbót (á alla krakka sem ekki eru í leikskóla) af sama merki og ég hafði fundið og ég áætla að líka hefðu kostað um 20 þúsund hér á landi OG 6 pör af adids inniskóm sem BAM!  – kosta um 5-6000 stykkið hér, allt fyrir 50.000 íslenskar fiskikrónur.

4 kuldaskó og 6 adidas inniskó á verði 2.33 pars af kuldaskóm. Ég get varla lýst því hvað ég var ánægð með eigið ágæti, útsjónarsemi og bara almenna snilld. Nei, þetta voru ekki eftirlíkingar og nei það átti ekki eftir að leggjast ofaná þetta sendingarkostnaður, tollur, virðisauki og eitthvað annað óútreiknanlegt bara vegna þess að þetta kom frá útlöndum.

Og allir skórnir pössuðu eins og sérsaumaðir hefðu verði.

SIGUR!

Ég er meira að segja búin að fjárfesta í 3 pörum af spariskóm á 6000 kall. Ekki endanlegt verð því þeir eru ekki komnir og ég veit ekki hver aukagjöldin eru ennþá. Sennilega verður það í kringum 8000 sem er líka þokkalega gott verð fyrir 3 pör af skóm OG HANANÚ.

Ég verð bara sveitt af æsingi að tala um þetta.

Eiginmaðurinn undirbjó bíókvöld, eða jemmebíogrgrgraffph (hjemmebiograf / heimabíó) eins og Herforinginn kallar það. Sjá bara þennan lura í miðjunni haha. Yngra miðjubarnið kann manna best að hafa það kósý, stökk beint í náttbrækur og sloppinn sem hann fékk í jólagjöf frá hundinum. Talandi um hundinn. Hann liggur þarna við fæturnar á Herforingjanum. Hann hafði verið að sniglast í kringum þau eins og fluga yfir mykjuskán í von um að það myndi detta eitthvað á gólfið af því sem hann hefur lært að er ókurteisi að hrifsa af borðinu og éta sjálfur.

Það var búið að skamma hann aðeins.

Hann missti sig einusinni og gobblaði eitt ritskex. Var skammaður duglega við það og sá sér ekki annað fært í stöðunni en að fela sig með eyrun aftur og skottið svo langt undir sig að hann hefði getað kitlað sjálfan sig undir hökuna með því. Kom svo alltaf millimeter fyrir millimeter aftur nær. Fyrst undir sófann, bara svona eins og enginn sæi hann því hann væri þar undir og endaði loksins við fæturnar á henni sem hann veit að missir mest niður. Þetta er ekki vitlaust má segja.

Og talandi um Herforingjan. Nú er hún 4.5 ára og má segja að hún sé komin á það stig að tala íslensku eins og aðrir 4 ára krakkar sem ekki lærðu annað tungumál fyrst. Ég held að það sé þannig. Gengur allavegana mjög vel. Hún fór út í kynnisferð um svæðið með föður sínum í gær og komst m.a að því að heiti potturinn er frosinn. Aldeilis vel út búin..

Uppúr henni eru að ryðjast hver brandarinn á fætur öðrum og hún er öll að róast niður einhvernvegin. Dettur kannski í leik og leikur sér tímunum saman. Maður og kona vita þá ekkert af barninu og geta, öllum að óvörum, verið að gera eitt og annað án þess að vera með hana fasta í afturendanum á sér.

Í gær þegar hún var að fara að sofa bað hún föðurinn um nýtt vatn í glasið og hann sem hennar dyggasti þjónn og helsti stuðningsmaður bjóst til ferðar fram í eldhús og þá gall í minni: “Takk draumakallinn minn” – draumakall? Hver talar um draumakall?

Svo er fleira, ég man bara ekki hvað það var akkúrat núna.

Okkur var síðan boðið í skírn í höfuðborginni hjá nýjasta meðlimi ættarinnar, 8unda barnabarn foreldra minna. Mér finnst við eiga skilið einhverskonar viðurkenningu eða verðlaun (helst verðlaun) fyrir að vera svona dugleg að fjölga mannkyninu. Þetta sagði ég í skírnarveislunni í litlum hóp af fólki, meðan ég hélt á skírnargullinu, og ein vinaleg kona sagði þá við mig eitthvað á þá leið: “Jáhh.. til að bæta á offramboð af fólki” .. ok hún sagði þetta ekki orðrétt svona en ég er ekki með svo skarpt minni þegar ég er ekki með gleraugun á mér að ég man ekki nákvæmlega. Þetta dreif mig til umhugsunar.

Niðurstaðan er: víst eigum við skilið verðlaun, ef ekki fyrir að vera duglegar að eiganst svona flott börn þá geta þau verið bara fyrir að vera kona. Afhverju á ég sem kona meira skilið verðlaun heldur en t.d maður? Það er vegna þess að konan þarf að fara á túr (ég veit, ég hef klifað á þessu áður) einusinni í mánuði (það er mega leiðinlegt að vera á túr, bara svo því sé haldið til haga). Því tengjast allskonar hormónasveiflur svo enginn dagur er eins. Þá er meðgangan í 9 mánuði en afleiðingarnar af henni innan líkama og utan eru varanlegar. Svo, því nú færist aldur brátt yfir, þá þarf konan að hætt á túr og verða rosalega heitt í tíma og ótíma, þorna öll upp að innan og vera með leg eins og rúsína sem datt á bak við skápinn í eldhúsinu og þegar hún fannst velti fólkið fyrir sér hvað um eiginlega væri að ræða sem lægi þarna aleitt og yfirgefið, óétið af öllum heimsins skordýrum og mögulegum músum. Er þetta grjót ? Er þetta nammi sem einhver setti uppí sig á sjöunda áratugnum og vildi svo ekki ? Er þetta kúkur (viðurkenndu það, ef þú átt börn eða dýr þá er þetta eitthvað sem kemur mjög fljótt uppí hugsarann)? Og þegar maður stendur á gati og tekur það upp og kemst að því að það er mest þornaðasta rúsína á jörðinni, sem maður veit því maður kreisti það og það gerðist ekkert þá rennur rúsínuljósið upp fyrir manni.. nú eða konu.

Ok.. aðeins afvegaleidd.. og mögulega er ég bara hrósþurfi og svo langar mig bara svo mikið í verðlaun, þetta hef ég oft sagt.. eins furðulegt og er vegna þess að ég hef ekkert íþróttakeppnisskap. Auðvitað eiga karlmenn líka skilið verðlaun. Sérstaklega þegar þeir geta umborið konuna eins og hún er í eðli sínu.

Offramboð af fólki? Það kann að vera en það væri samt ekki betra ef þróunin yrði þannig að fólk hætti að eignast börn eða ættu kannski bara eitt barn og það ekki fyrr en um eða yfir fertugt. Nei bara svo það væri einhver hérna til þess að vinna fyrir landinu og ég geti átt sæmilega góð elliár.

Aftur að skírninni. Falleg athöfn og fruntalega góður matur sem allar mömmurnar skelltu í. Barnið fékk nafnið Silja Ísey. Þar með heita þau öll 6 eitthvað sem viðkemur vatni. Bryndís, Hinrik Þór, Ásdís Iða, Hugrún Elfur, Ágúst Ægir og Silja Ísey. AWWWWWW!

Þá að tíðindum af öllu handlitaða garninu mínu. Það eru komnir tveir endursöluaðilar sem ég er að lita fyrir núna og ég er að lita eins og vindurinn. Gerði ekki ráð fyrir að fyllast innblæstri fyrir nýjum litum í miðju kafi en það gerðist samt. Þetta er sýnishorn af því. Kann að vera að ég nái að koma þeim á vefinn vatnsnesyarn.is innan tíðar. Spennandi tímar finnst mér og ég er algerlega tilbúin, albúin, að taka þátt í þessu ævintýri.

Ást og friður!