Ef mér reiknast rétt til þá hef ég verið á leigumarkaðnum í 7-8 ár. Það er langur tími, en svosem aldrei verið vandamál (tala ekki um leiguverð) fyrr en við fluttumst á Ísland í apríl 2011. Við erum jafn mörg og þegar við fórum út en meðlimir eru orðnir plássfrekari. Einkarými erfingjanna fer ört stækkandi og erfitt að ætla þeim að vera öll saman í herbergi núna. Auk þess höfum við Eiginmaður (nú til heils árs) gildnað á alla kanta og eigum líka svo stóran skeiðvöll að það er ekki hægt að opna almennilega hurðina á herberginu sem við dveljum í, í augnablikinu.

Það var svo fyrir þremur og hálfri viku að við fengum þær fregnir að fjórða heimlisfang okkar síðan í apríl 2011 (þau á Þjóðskránni hljóta að vera komin með rugluna af hve oft við skiptum um lögheimili) yrði selt innan tíðar. Þá fór einhvern vegin allt í gang, samdægurs fann ég fallegt hús til kaups, kvöldið eftir fór ég að skoða (við hefðum farið sama kvöld ef mín plön hefðu gengið eftir.. frk. fljótfær (s.s fær um að vera fljót)) og sama kvöld tilkynntum við um tilboðsáhuga og daginn eftir á hádegi gerðum við tilboð og fengum jákvætt svar seljenda kl.14, nákvæmlega 2 dögum eftir að ég sá húsið á netinu. Viku síðar var allt orðið klappað og klárt og nákvæmlega tveim vikum eftir að ég límdist við þetta hús, var gerður kaupsamningur.  Við fáum afhent 1.ágúst.

SJITT hvað þetta tók fljótt af. Það er mín reynsla þegar hlutirnir bara ganga upp áreynslulaust, rétt eins og ef þeir lægju alls ekki (sem þeir gera einmitt alls ekki) einusinni í okkar höndum. Við verðum bara að treysta því að ákvörðunin um að flytja til KEFLAVÍKUR (þar sem húsið einmitt er ) sé rétt.

NÚ! Fyrst ég er þá orðin húseigandi á ný er vefurinn www.hugmyndirfyrirheimilid.is orðinn uppáhalds vefurinn minn. Facebook á ekkert í þessa áráttu mína. Fyrsta sem ég skoðaði á síðunni var skipulags flokkurinn [innskot 30.03.17 – apparently er þessi linkur og vefsíða hættuleg svo enginn likur hér lengur] og hvernig á að gera og græja í þvottahúsinu. Útaf því að ég er þvottakona.

Hversu  mikil snilld er þetta apparat!! Ég ætla pottþétt að fá mér svona. Ég sé fyrir mér börnin í hreinum fallegum fötum, með nýstrokið andlit og greitt hár, rjóð í kinnum valhoppandi með  handklæði í einn, dökkt í einn, ljóst í einn og ógeðslegar tuskur og annað blautt drasl í einn. Og svo er þetta strauborð að ofan, ég mun þá pottþétt byrja að strauja (vil ekki vera minni húsmóðir en hinar í Keflavík)

Þetta er líka alveg pípandi sniðugt, ég reikna samt með að hengja snúru frá vegg til vegg á lengdina, svo margir eru einstöku sokkarnir á mínu heimili. Sumir eru meira að segja búnir að hanga í single hrúgunni í fleiri ár.

Síðast en ekki síst í þessari þvottahúss yfirferð myndi ég vera með svona krukku. Síðast í dag fann ég einmitt tvo strætómiða. Hef fundið allskonar hárteygjur og spennur, nagla og skrúfur. Aldrei liggur samt peningur í vösum hjá okkur. Þyrfti að bæta úr því.

Svo af því að efri hæð hússins er undir súð þá finnst mér þessi hugmynd mjög góð fyrir rúm í barna herbergin. SNEÐUGT!