Veðrið! Í alvöru. Rosalega langt logn á undan storminum, svona ef maður á að sjá glasið hálftómt. Eiginmanninum var samt tjáð að svona væru oft haustin á þessu svæði. Það er VEL.

Bara svona sko. Þessi tekin fyrir nokkrum dögum þegar ég ákvað að setja “Run keeper” inná síman minn og reyna að hreifa meira á mér esið.

Við sama tækifæri. Þarna ættu að sjást rolluskjátur á beit í góða veðrinu.

Við annað tækifæri en líka fyrir nokkrum dögum hittum við þessar tvær frænkur niðri við sjó. Þær eru greinilega staðarhaldarar því þær bifuðust ekki þó svo að við værum þarna og nálguðumst óðfluga og heldur ekki þótt hvolpkvikindið væri með mannalæti sem aldrei fyrr.

Þær litu bara sísvona á hvora aðra og högguðust ekki. Ég held þær heiti Jarmfríður og Jórtra.

Þó svo að spottinn væri með mannalæti þá þorði hann nú eiginlega ekki nær. Hann þorir heldur ekki útí sjó, út í rigningu og þorir heldur ekki að sofa einn á nóttunni. Hann er líka bara 3 mánaða stakkels greyið, eins og Litli Herforinginn segir.

Talandi um Litla Herforingjann og hundspottið. Hún bjó til lest og hundurinn var farþegi. Hann fékk púða og peysuna mína til þess að sitja á. Merkilegt hvað hann sat og sat og sat í lestinni, greinilega alveg til í að taka þátt í þessum leik.

Við fórum bæði í kindaréttir og stóðréttir. Mínar fyrstu stóðréttir ef ég man rétt. Við komum svo seint að það var eiginlega allt búið, var bara eftir að sortera erfiðustu hrossin og hrossin sem enginn vissi hver átti. Á næsta ári ætla ég að fara þegar leikar standa sem hæst. Sjá hvernig það lítur út.

Í dag var ekkert öðruvísi veður en nánast síðan í júlí. Blanka logn og blíða. Ekki að það sé ekki kalt loftið, en það var alveg það heitt að Eiginmaðurinn stóð við mokstur á bolnum. Þarna erum við Fagri að setja niður pínulitlar birkihríslur sem ég keypti á hálfvirði í Blómaval, sem eiga að umbreytast í runna í staðinn fyrir þann sem var þarna fyrir. Þau tré voru dauð að mestu, nú eða grafin upp af þeim mannvitsbrekkum sem stóðu í því að setja ljósleiðarann inní húsið. Hann er s.s í gula rörinu sem er þarna fyrir miðri mynd. Allur garðurinn upptættur og hellulögnin í steik.

Fyrrnefndur Eiginmaður sem mundaði rekuna við að búa til garða í garðinn. Ég bíð bara spennt eftir febrúar þegar ég ætla að byrja að forrækta það sem ég ætla síðan að pota þarna niður. Planið er einnig að setja upp “gróðurhús” þarna við hliðina á held ég. Hinum megin við garðinn m.v hvar hann stendur. Gróðurhús í gæsalöppum vegna þess að við erum að tala um að strekkja plast yfir víra. Sé fyrir mér tómata, gúrkur og fleira gotterí þar inni.

Garðálfurinn hjálpar til við að raka og gera fínt. Fjögur beð. Það verða ekki kartöflur í þessu öllu. Kannski í einum áttunda. Eiginlega finnst mér kartöflur ekkert geggjað æði. Þarna má líka sjá glitta í rabbabaragarðinn fyrir aftan Fagra. Annað í órækt eins og sjá má. Vorum eitthvað að velta fyrir okur hvað væri hægt að gera við þessi tré og þó svo að óræktin sé ekki til prýði þannig lagað séð þá erum við eitthvað treg til þess að aflima trén og reita frá grasið, því þetta gefur allt svo fruntalega gott skjól fyrir norðanáttinni sem belgist þarna langsum yfir garðinn, þú veist, þegar allt lognið er farið.

Það er svo sjaldan að þau eru öll saman á mynd. Þarna sitja þau svo skemmtilega í aldursröð. Yngsta stýrið auðvitað bert. Eiginmaðurinn að halda ræðu yfir lýðnum.

Annars er bara allt við það sama, svosem. Nema auðvitað að ég varð móðursystir í fjórða skipti (NB að ég á bara eina systur) þann 12. október sl. Þvílík dásemd. Þannig nú eru barnabörn mömmu og pabba 8 talsins. Áttum við ekki að fá verðlaun fyrir að nenna að standa í því að fjölga mannkyninu svona? Núna er líka komin væn október hrúga. Úngpían ríður á vaðið 5. október, þá Bryn systir 7. október, svo pabbi 10. október og nýja manneskjan þann 12. okt. Allt vogir, allt eins ólíkar manneskjur og frekast gæti verið…hugsa ég, ég þekki þá nýju náttúrulega ekki ennþá, en fögur er hún.

Til annarra tengingatíðinda, fyrir utan að internetið er komið í sveitina þó það sé ekki besta internet í heimi, já, líka þó það sé yfir ljósleiðara (skandall að mínu mati) þá ákváðum við, þrátt fyrir að eiga ekki almennilega sjónvarp (okkar er 19tommur) að fá okkur sjónvarpsstöðvar og heimasíma. Það var fyrir alveg 2 vikum sem við ræddum við Símann um það og það er enn ekki komið í gagnið. Ég veit ekki almennilega einusinni hvort Síminn er að bíða eftir að við gerum eitthvað eða hvort við séum að bíða eftir að Síminn geri eitthvað.

Þá er mál að ræða pínulítið um ofnana hér í húsi. Það eru þrír í stofunni. Það kom gat á einn skömmu eftir að við fluttum inn. Það frussaðist alveg vatn úr honum. Ég fór að sjálfsögðu beint í björgunarsveitargírinn og reif mig úr fötunum og kastaði þeim í pollinn á gólfinu (í einhverri örvæntingarfullri tilraun til að stoppa flóðið), skipaði Úngpíunni fyrst í skápana að sækja handklæði og svo  útá snúru til að sækja Ö L L handklæðin sem þar hengu (þegar hér er komið við sögu er ég orðin mjög hávær og með galopin augu og augabrúnirnar lengst uppá enni), skipaði Fagra með handbendingum sem enginn hefði skilið nema hann að sækja skúringafötuna fagurbláu og grænu ruslatunnuna í eldhúsinu og dæmdi hann svo í stöðu þess sem tæmir fötu á eftir fötu meðan ég ligg á nærbuxunum að taka við vatninu úr ofninum til skiptis í þær.

Æsingurinn var svo mikill að ég tók ekkert eftir því að Eiginmaðurinn hafði hringt í píparann sem hann hafði sé að blessunarlega var við vinnu hér útí sveit. Þannig að þegar píparinn mætti í kofann var ástandið sirka svona:

16 handklæði á gólfinu, öll rennandi blaut, hvar ég var á brókinni, úfin að sjálfsögðu (meira útaf því að ég er alltaf úfin, hefur tæknilega séð ekkert með götóttan ofn að gera) að safna svona botnfylli af vatni í hverja fötu (gatið það neðarlega að annað var ekki hægt) og í algjörri geðshræringu að fleygja fötunni í fangið á barninu sem samæstist móðurinni og í sínum hraðasta gír rétti næstu fötu og skvetti dropunum úr hinni útum svalahurðina.

Égskaseiykkuþahh! Píparinn var allur hinn rólegasti og framkvæmdi aðgerð sem heitir “að tapp’ann” – tók s.s ofninn af veggnum og pantaði nýjan. Fór svo bara. Ég var hvað fegnust að hafa ekki verið í hvítum nærbuxum þegar ég horfði á eftir honum út, 7 mínútum eftir að hann kom inn.

Sagan ekki búin enn.

Fyrir svona viku sagði Litli Herforinginn, sennilega í tráma síðan síðast að það væri vatn á gólfinu við ofninn. Ég af stað aftur, byrjuð að rífa mig úr peysunni þegar ég sá að það var komið gat á næsta ofn, en að málningin á honum var ekki rofin, svo ekkert vatnsbað í þetta skiptið, en Herforinginn frekar nösk að grípa ofninn glóðvolgan.. skrúfuðum fyrir og hringdum í píparann aftur.

Svo heppilega vildi til að hinn ofninn sem pantaður hafði verið, var kominn og þessvegna komu pípararnir aftur og töppuðu göttótta ofninn og stilltu þeim nýja upp í staðinn.

Þetta allt saman er hið furðulegasta mál. Mjög erfitt að halda jöfnum hita inni og alltaf ef við látum kalda vatnið renna byrjar að koma alveg húrrandi brennandi heitt vatn í svona 5 mínútur og svo kalt. Og þá er það svo kalt að þegar ég gleymdi mér um daginn þá myndaðist geggjað stór ísklumpur í vaskinum..

Pældu íessu! Krakkarnir öll með bláar varir af kulda að drekka vatnið hér í sveitinni.

Ok.. ég er reyndar að ljúga með ísklumpinn í vaskinum. Þetta er djók sem Eiginmaðurinn var að gera í vinnunni.

Hann gerði reyndar annað djók, sem er mun meira í áttina að því hver hann í raunveruleikanum er. Það var bleikur dagur á föstudaginn og hann var ekki með neitt bleikt. Hann sagði eldhússtaffinu að hann gæti auðvitað brett uppá hann bara… veit ekki hvort ég mátti segja frá þessu.. kannski verður þú heppin/n að ná að lesa þetta áður en hann lætur mig fjarlægja þetta…

Svo er bara enn ein vikan á morgun.