Búnglingur og Sprengja.. ekki mikið annað að gera en klæða sig í töffaragallann og lita með systur sinni útí glugga, með útsýni yfir alla Amager(já.. ég sé að það sést ekki á þessari mynd.. það er þarna samt).

Þetta er búið að vera meira ferðalagið. Gengið aldeilis hratt fyrir sig. Við tókum ákvörðun um flutning heim til Íslands í kringum 25.febrúar og hér erum við mætt rétt rúmlega mánuði síðar. Ég er ótrúlega auðmjúk yfir þessum ferli. Þvílík snilld að fá að ferðast með í ákvörðunarferlinu í fullkomnu trausti á að þetta eigi að vera nákvæmlega eins og þetta er akkúrat núna. Fullkomin andartök, bæði á innöndun og útöndun.

Það var að sjálfsögðu úbber tómlegt orðið undir það síðasta og síðustu tvær næturnar voru bara asnalegar. Reyndar var síðasta vikan fáránleg. Örverpið heitur yfir meðallagi og svo fylgdi Búnglingurinn og átti sárlega erfitt í öllum þessum óþægindum sem flutningum milli landa fylgja, þó það sé ekki verið að bæta veikindum oná það. Fuss og svei. Hann er bara rétt að ná sér núna.

Skyndibitamatur og kassar eru eiginlega allt sem hægt er að segja um þetta.

Örverpið í hitakófinu. Hann er bara svo mikill ljómi að það var ekkert erfitt að standa í niðurpökkun þó hann væri lasinn. Ég henti honum bara í holuna mína og þar hvíldi hann.

Ljósin í Búnglingnum voru slökkt á úlfatímanum. Hann var samt bara frekar til í að vera í sinni eigins holu. Þetta næst síðasta nóttin, orðið frekar tómlegt, en samt ennþá rúmdýnur..

Enn tæmist. Ekki mikið hægt að gera, svo margir pappakassarnir eru skemmtilega skreyttir. Ég hélt heila ræðu, sem á eftir fylgdi fyrirlestur, yfir Sprengjunni að það væri stórlega harð rosa bannað að krota á neitt annað en kassana… ég hef ekki séð ummerki annars en að hún hafi tekið ræðufyrirlestrinum vel.

Krota á pappakassa og spila tölvuleiki og horfa á vídjó.

Og þarna inn tróðum við eigum Félagsbúsins. 20 feta gámur alveg smekk fullur. Ekki er það nú svo að við eigum sófasett og ekki ein einasta græja eins og ísskápur eða þvottavél er með.. samt alveg fullt. Bíst við að þurfa að standa fyrir neðan gáminn og grípa það sem kemur til með að rúlla út þegar við opnum hann.  Hann er alveg kominn til landsins.. vona að ég geti leyst út sem fyrst dótið. Aðallega hjólin.

Kristján Kanína fékk frábært heimili á síðustu stundu. Hann fór í stóran garð í Roskilde, þar sem hans beið frú sem honum býðst að fara uppá og eignast með börn.. við vorum vitanlega mjög hamingjusöm fyrir hans hönd. Hann er nú sætur! Sakna hans.

Og hamsturinn fékk líka gott heimili. En nýja heimilið hans er hjá bekkjarfélaga Búnglingsins. Skemmtilegt við þetta var að bæði dýrin og allar plöntur sem ég átti sem vert var að bjarga (þá allar sem ekki höfðu orðið sjálfdauðar á svölunum í vetur) fengu heimili. Mikið var ég fegin. Konan úr Roskilde kom bara á sínum bíl að sækja Kristján en hamsturinn fór með leigubíl í Norðvestur enda Kaupmannahafnar. Þar var tekið á móti honum síðan.

Síðasta máltíðin. Ég kynnti nýja eldhúsborðið okkar, sem er pappakassinn þarna á gólfinu. Og í annað skiptið var kínamatur sem ég pantaði, og lét færa mér þarna uppí himnaríki (upp allar 100 tröppurnar), frá stað sem er við Englandsvej líka. Og upp kom kínamaður, hávaxinn miðað við, alveg laf móður og rennandi sveittur. Svo sveittur að bogaði af.

Hann rétti okkur poka, eins og þann sem ég hafði pantað tveimur kvöldum áður, sem ég svo opnaði og sá mér til mikillar lukku (sem var í stíl við daginn sem allt hafði gengið svona fallega upp, bæði dýrin og plönturnar líka í vist, leigjandi kominn í íbúðina alveg okkur að óvörum og bara allt að klárast og brottför daginn eftir)  að það var mikið meira í pokanum heldur en þegar ég pantaði síðast. Við krakkarnir, í fjarveru Bóndans, hrópuðum húrra fyrir þessu og röðuðum á nýja eldhúsborðið góssinu.

Ekki leið mínúta að dinglað var bjöllunni. Upp þeyttist, eða get varla sagt þeyttist.. upp drattaðist, kínamaður sá hinn sami og hafði puðað upp í himnaríki skömmu áður. Greyið náði varla andanum.  Ég var nú eins og stórt spurningamerki þegar ég opnaði og hann svona.. másaði útúr sér “for mæet.. for mæet” . Að því búnu skveraði hann sér innfyrir, vatt sér að nýja eldhúsborðinu, tók þrennt af því sem við höfðum tekið uppúr pokanum, fnæsti aftur “for mæet”, leitaði uppi poka í íbúðinni, bisaði við að setja í hann og tuðraðist svo niður aftur… okkur var spurn.

Síðasta nóttin var okkur eins og við værum heimilislausir rónar. Þarna sváfum við, bæði (þið sjáið plássið sem ég hafði..) með engan kodda og enga sæng, en voru fullklædd með einhver teppi og úlpuna mína. Einhverntíma, þegar ég hef greinilega náð að dotta, sem ég hélt að myndi bara ekki gerast þessa  nóttina, vaknaði ég sem sagt með hausinn fastan á milli dýnunnar og gluggakistunnar. Spes.

Og þá er ævintýrinu á Englandsvej lokið við lokaða hurð. Sakna þess mikið. Þetta er búinn að vera æðislegt og ég elska þennan tíma.

Amen og farangurinn kominn út. Ekki ófáar töskurnar. Þarna er bara ein stór ferðataska og önnur aðeins minni og svo þrjúhundruð litlar töskur. Ástæðan er einföld.. þetta eru töskurnar sem við eigum. Það er ryksuga í einni. Svo komum við á völlinn og ætlðum að tékka allar töskurnar inní flugvél og vera bara með pínulítinn handfarangur. Gera þetta eins auðvelt og mögulegt er. Þá er okkur tjáð að nýjar reglur Iceland Express hljóði uppá eina ferðatösku að þyngd 20kg á mann og svo ein handfarangurstaska að þyngd 10kg á mann.

Hvað gera danir með 13 töskur á 5 manneskjur?

Panika.. eða það gerði ég að minnstakosti. Bóndinn reyndi með löngu augnhárunum sínum að fá konuna, sem samt vorkenndi okkur, til að hleypa einni enn tösku í gegn. Það var ekki að ræða það. En hún sá í gegnum fingur sér og rétti okkur miða á handfarangurinn og við lofuðum að pakka 8 (mind you.. úttroðnum) töskum í 5 töskur.

Mér féllust hendur en þá kom eiginmanns efnið og kíldi (bókstaflega) úr 3 töskum yfir í hinar 5. Þannig að við ferðuðumst með einn lasinn Búngling (hann má eiga karlmennsku sína í því ástandi) og fáránlega mikinn handfarangur. Fylltum alveg hólfin fyrir ofan okkur…. báðum megin.

Ísland, elsku Ísland. Við brenndum beint í fangið á ömmu L. Við Bóndinn skutumst Vatnsneshringinn. Þetta er Ísland krakkar mínir. Fallegt.

Þetta er líka Ísland, stórt í allri sinni smæð og kraftmikið. Gott.

Vissir þú að þessi þúfa lyktar guðdómlega? Ég er í vímu.

Annað gengur vel. Krakkar ennþá í faðmi Ömmu L og við hér fyrir sunnan. Fyrstu tveir dagarnir búnir í vinnunum, þar gengur allt vel og okkur líst mjög vel á báða staði. Búin að fara fyrsta hjólatúrinn.. fékk lánað hjólið pabba. Það var góður túr, en algjörlega öðruvísi að hjóla á Íslandi en Dk.

Elsku Alheimur, ég elska þig og beygi mig fyrir sannleikanum innra með þér. Er líka stórlega þakklát.