Ég var svo þung á meðgöngunni að ég er með eftirköst í fæti. Ég hef reyndar alltaf bætt á mig 20-30 kg þegar ég hef gengið með börn. Þegar ég gekk með þennan rétt tæplega 13 ára varð ég einmitt yfir 100kg, alveg að springa af bjúg, með tótallí kringlótt andlit og tær eins og þrútnar rúsínur  fastar við vatnsblöðru.

Ég þyngdist líka með næstu tvö en ekki alveg eins mikið og var ekki að drepast úr bjúg.

En Bjútíbína. Maður lifandi. Ég var með bjúg, ójá. Og líka svo blóðlaus að ég gat varla andað þarna á tímabili, ég er eiginlega hissa að ég hafi ekki hlotið heilaskaða á súrefnisleysi.

Nooo krakkar mínir. En það er þá sagan af fætinum, þeim hægri, sko ekki öllum fætinum heldur bara fyrir neðan ökkla. Heldur betur er ég búin að vera að drepast í honum í ár núna. Ég var meira að segja svo að drepast að ég, frú Bústýra, fór til læknis til að væla yfir því hvað mér væri illt. Ég hélt ég væri bara komin með bráðagigt og var tilbúin að vera lögð inn fyrir lífstíð og að ég myndi aldrei ganga aftur.

Það var ekki svo. En ég sagði lækninum að ég hefði verið svona á meðgöngunni og svo hefði þetta bara ekkert hætt. Hann spurði hvort meðgangan hefði verið eðlileg og fæðingin, sem ég svaraði játandi. Hann spurði hvort ég hefði þyngst eitthvað, sem ég svaraði játandi. Hann missti síðan neðri kjálkann í kjölduna  á mér þegar ég sagði honum að ég hefði farið yfir 100 kg. Ég tók eftir því, þegar ég sá að hakan á honum var á lærunum á mér að hann var með fáránlega litlar neðri framtennur. Eiginlega eins og að framtennurnar fjórar niðri væru ennþá barnatennur. Mér líkar ekki við svoleiðs vírdness í munni. Oj.

Þegar hann náði að safna sér saman í andlitinu aftur var það eina sem hann hafði að segja að ég hefði gengið vel til baka.

En niðurstaðan er þessi. Ég hef orðið fyrir varanlegum skaða á fæti því ég var svo þung á síðustu meðgöngu. Lækningin er að fá mér nýja skó.

Og nýja skó fékk ég síðan í dag. Vává ví ví. Rándýrir Adidasskór. Mér var svo létt við að fara í þá að ég stundi í Intersport, búðamanninum til mikillar furðu. Þetta var eins og að fá sér vatn að drekka þegar maður er þyrstur.

Þegar ég kom síðan út, reif ég nýju skóna mína úr kassanum og fór beint í þá. Þvílíkur munur að ganga á góðum skóm. Held svei mér að ég hafi ekki átt góða skó síðan í Nam. Ég man að minnsta kosti ekki eftir því. Héðan í frá mun ég kaupa mér góða skó, eða bara sleppa að vera í skóm.

Hinum skónum henti ég í tunnu á leiðinni heim.