Það kemur tími í lífi hverrar konu að hún verður að standa fyrir framan spegilinn og segja “nú er nóg komið”. Var ég búin að segja ykkur að ég hef kvíða? Ábyggilega. Var ég búin að tala um hvað mér finnst kvíði vera glatað orð? Var ég búin að nefna að íslenskan er eitthvað svo agnarsmátt tungumál og svo fáir tala hana og þjóðin sem talar hana er upp til hópa ekki til í að tala um hluti sem skipta máli, eins og andlega líðan (já, ég er ein af þeim, þú getur bara snáfað ef þér finnst svona hjal leiðinlegt). Þannig finnst mér mjög oft, sérlega eftir því sem ég les meira á ensku og dönsku, að það vanti svo mikið uppá íslenska tungu. Það eða þá að ég kann bara ekki mitt eigið móðurmál nógu vel. Eða! Það getur verið að það séu ekki til athyglisverðar bækur, svo ég taki til dæmis það sem ég hef verið að lesa undanfarið, um innverðar manneskjur (mín eigin flýtiþýðing á “introvert”), um venjur fólks, skömm, listrænt hugrekki og fleira, á íslensku.

Þannig finnst mér orðið kvíði ekki ná yfir það hvernig mér líður. Það minnir mig bara á orðið kviður, sem fær mig til að hugsa um maga og síðan vindhviður… gæti mjög auðveldlega farið að tala um purmpugang akkúrat núna. Angist er eitthvað annað, finnst þér það ekki? Finnst þér ekki eins og ef einhver er angistarfullur að þá líði honum öðruvísi heldur en þeim sem er kvíðinn?

Mér finnst angist vera betra orð yfir það hvernig mér líður. Ég er þjökuð af angist og hef alltaf verið. Svo þjökuð að ég er angistarfull yfir því að vera, eða mögulega verða angistarfull. Já, ég er svo óttaslegin og hef alltaf verið svo óttaslegin, alveg síðan ég man eftir mér, að allar mínar gjörðir stjórnast af því að ég er angistarfull og óttaslegin. Angistarslegin, er það eitthvað? Óttafull af angist.

Síðasta sumar leið mér hörmulega í fleiri vikur. Aldrei verið “þar” svona lengi. Og um sumar! Á þeim tíma sem mér finnst annars best að vera til á. Mér var ekki skemmt, Eiginmanninum var sannarlega ekki skemmt og krakkarnir urðu öll svaka úrill og súr og var heldur ekki skemmt. Á þeim tímum sem ég er fangi angistar (fangisti?) fer ég alltaf framhjá ákveðnum bautasteinum.

Þessi þar sem ég get ekki dregið andann: Um daginn, því ég varð aftur svona um jólin (ekki nýtt) þá meira að segja leið yfir mig í sturtunni. WHAT! Já, ég hafði beygt mig niður, eða sat á hækjum mér til að reyna að róa sjálfa mig og ná andanum að þegar ég stóð upp aftur þá heppnaðist það ekki betur en svo að ég datt út. Það var bara sennilega sekúnda eða tvær sem ég var úti, eða kannski vaknaði  ég meira að segja á leiðinni niður á gólf því ég rak mig auðvitað í sturtuklefahurðina… seisei.

Annar bautasteinn er þar sem ég er svakalega reið. Alveg urluð af pirringi. Pirringurinn og reiðin stafar af því að ég er að fríka út inní mér. Taugakerfið alveg útþanið og alveg að fara á límingunum.

Þá erða þessi þar sem ég kemst varla frammúr rúminu, en get samt heldur eiginlega ekki farið að sofa því ég hata nóttina, hún er svakalega lengi að líða stundum. Eina ástæðan fyrir því að ég yfir höfuð fer frammúr er sú að þessi börn þurfa að fá eitthvað í gogginn og svo vil ég ekki að Eiginmaðurinn þurfi að gera allt einn. Svo ætla má að móðurástin sé enn sem komið er sterkari en angistin. Það eða þá að ég er íslendingur og mun massa þetta og aldrei, aldrei, aldrei, sama hvað, sýna að ég er taugahrúga sem get ekki einusinni fengi sjálfri mér að borða almennilegan mat, get ekki munað það sem ég þarf að muna (halló pin númer á neyðarstundum) og man ekki það sem ég segi eða við mig er sagt…eða hvað ég ætlaði að gera.

Síðar í ferlinu lendi ég þar sem ég sé ekki tilganginn með þessu og á erfitt með að finna lífslöngun og gleðin er eins og fjarlægur draumur.

Og þá er það botninn á hverju ferli, eða á ég að tala um toppinn fyrst ég er komin með bautasteina?.. Eru þeir ekki alltaf uppá fjöllum? Það er þegar ég fer síðan bara að gráta. Sit kannski við vinnu, já eða er í búðinni, að hjóla, í skúringakompunni, inná baði, í rúminu mínu, að elda matinn eða hvar sem er really, og grenja síðan bara risastórum heitum tárum. Mér er allri lokið. Og það var þá, í sumar þ.e, að ég fór til læknis. Sagði henni að ég gæti sennilega ekki meira.

Hún vísaði mér á sálfræðing. Sálfræðingurinn kostar milljón per tíma en vegna þess að ég kann ekki ennþá að fara með peninga þá þurfti ég að fara á biðlista fyrir þá sem var vísað af lækni og þurfti að bíða í 3-4 mánuði.

Biðtímanum lauk um daginn og ég fór í annan tíma minn hjá þerapista núna í morgun. Ég er hef sterka meðvitund um hve margt af því sem ég geri er tengt angist minni og ótta þegar ég tala við hana. Ég hef óútskýrðan, óraunverulegan og óstjórnlegan ótta (m.ö.o fóbíu) við uppköst og allt sem því fylgir og getur fylgt. Þetta hefur meira að segja nafn. Emetophobia. Og, það sem meira er, það eru fleiri sem eru svona. Í öll þessi ár hélt ég að ég væri ein. En viti menn og konur, fyrirbrigðið hefur nafn og allt. Að dangla um í lífinu með eitthvað sem kona heldur að bókstaflega enginn skilji er erfitt og svakalega þreytandi.

Sálfræðingurinn er kona sem er sennilega jafngömul mér, gæti alveg eins verið nett yngri. Hún vill að ég aftengi pælingar mínar um að ef ég geri eitthvað eða segi að þá muni eitthvað annað, alvarlegt, gerast. M.ö.o hún vill byrja á því að vinna með þráhyggjuhugsanir mínar.

Hún vildi fyrst að ég myndi segja upphátt einusinni á dag þetta: ” Ég vil endilega kasta upp í dag”. Ég get bara ekki fyrir mitt litla líf óskað sjálfri mér að lenda í þeirri aðstöðu í lífinu sem ég (eða hausinn á mér) held að muni ganga að mér dauðri, og það mjög óþægilegum og slæmum dauðdaga, fullum af gubbi og andateppu. (ég veit þú skilur þetta ekki, það er allt í lagi).

Þá fannst henni sniðugra ef ég myndi skrifa einusinni á dag þar til að við hittumst næst að hún myndi kasta upp um helgina. Svona “Kia kaster op om weekenden”. Strax þar á eftir á ég að finna upp einhverja aðferð þar sem ég færi minn ytri fókus frá uppkastskasettunni sem rúllar none stop í hausnum á mér, þessi sem inniheldur allar myndir og hljóð af öllum uppkast senum sem ég hef lent í um ævina,  á eitthvað annað. T.d mælti hún með því að telja frá 100 og niður.

Hér höfum við það þá fyrir daginn í dag: Kia kaster op om weekenden.

Til að vera ekki að telja upp allt það sem mér er ábótavant, þá klárað ég peysu númer tvö um daginn. Þú veist, í tilraun minni til að standa við áramótaheitið sem heitir að prjóna úr öllum þeim kílóum af garni sem hér eru útum alla íbúð. Ég er byrjuð á peysu þrjú.

einrum1

Þessi er gerð úr garni sem heitir einrum. Það er íslensk ull og taílenskt silki blandað saman. Ég þekki hana sem framleiðir garnið, er að gera vef fyrir hana. Og þessi peysa er líka komin í búðina mína á Etsy!