Eiginmaðurinn er yfirkokkur á stað hér í borg þar sem borinn er fram svo hipp og kúl matur að gestirnir ráða sér varla. Allir að tala um þetta og veitingastaðir í sama flokki koma, óboðnir, og ræna matseðlinum og kópera allt frá rúgbrauðssúpunni sem borin er fram í handgerðri leirskál til myndanna sem settar eru á Fésbókarsíðu fyrirtækisins.

Fólk flykkist að úr öllum áttum. Er hipster fólk með skoðanir og strangar reglur um að all sem inn fyrir þeirra munn kemur, eða jafnvel innan kílómeters radíuss, skuli vera lífrænt ræktað og án eiturefna.

Fólkið ræðir heimsmálin, Trump vs Hillary, hvað Sigmundur Davíð sagði síðast og hvort stjórnarmyndun á Íslandi sé ekki að fara að hafast. Eða ekki, ræðir sennilega bara almenn heimsmál og hvernig á í alvörunni að ala upp börn.

Og á meðan er Eiginmaðurinn og hans félagar í eldhúsinu að þessu:

typpafyla

Ó já krakkar mínir. Það er bara typpafýla.

Þessa dagana hefur hinsvegar ekki verið nein typpafýla hér í Kóngins… HEHEHEHEHE.. þvílíkt orðaval. Ég roðna.

Ég byrja aftur.

Hér hafa verið áhugaverð veðurskipti undanfarna daga. Ég hef verið óvenju mikið á faraldsfæti síðustu vikurnar.

fullkomin-litasamsetning-modur-natturu

Þessi mynd er tekin á leið í spilatíma, ca. kl. 16, hvar eftir ég fór að skúra, og þar á eftir á fund í miðri borginni og þegar ég kom þaðan út um kl. 21 var byrjað að snjóa

kvold-snjor

Ég veit ekki hvað það er en fyrst það var svona svakalega gott veður í september, og svo kom október og var ömurlega grár með skítakulda og láréttri rigningu og það sem af er nóvember hefur líka verið eitthvað mis, eða bara, ég saknaði þess að fá ekki almennilegt og fallegt haust í ár. En einhvernveginn kom þetta heim og saman þegar það byrjaði að snjóa þarna á þriðjudaginn.

Allt féll í dúnalogn. Líka allur hávaðinn í hausnum á mér. Hann er svo mikill að það er algjörlega ærandi. En snjókoman einhvernveginn hægði á hjarta Kaupmannahafnar og lyktin einhvernvegin dásamleg. Og svo fannst mér þetta líka kunnugleg sjón sem ég hafði saknað. Þetta var nefnilega eitt af því sem ég naut áður en við fluttum heim á Ísland árið 2011, að hjóla um borgina í snjókomunni. En þetta er í fyrsta skipti síðan þá, að ég er úti að hjóla og það kemur snjór.

fallegt-morgun-utsyni

Það hefur síðan verið að kólna og kólna. Hiti við frostmark. Ég veit að miðað við Ísland er það nú sennilega ekkert til að væla yfir,… ég er heldur ekki að væla, en hér er þetta kuldi, skilurðu mig. Í samhengi við hvernig hitastigið er hér venjulega. Við vöknuðum við þessa sjón í morgun. Þetta er útsýnið út um stofugluggann til vinstri, þar sem “gamla” amagerbyggðin er og þetta er sambland af þoku og reik úr skorsteinum nokkurra húsa. Langaði til að segja að þetta væri dalalæða því þetta lítur þannig út, en ég veit ekki hvort það má segja dalalæða ef þokan er ekki í dal heldur í hverfi í stórborg.

Við Eiginmaðurinn æddum svo út úr húsi í morgun, yfir götuna, eða nokkrar götur og útí skóginn við hliðina á, eða sem umlykur golfvöllinn sem er hér rétt hjá og mér varð á að taka nokkrar myndir.  Svakalega fallegur dagur, eða alveg þangað til ég kom heim og sá þvottafjallið (snapchat aðdáendur mínir fengu live sýn á það (snapchat: skritin)) og svo eftir augnablik var dagurinn búinn og ég náði ekki að gera annað en að þvo þvott og vera með eindæmum pirruð. Held það hafi verið útaf því að einhverrahluta vegna, þegar það er kalt úti en það skín samt sól að þá verður svakalega heitt hérna inni og ef ég síðan opna út, þá verður svakalega kalt hérna inni. Nóg um það.

Hér eru þá nokkrar af myndunum sem ég tók.

berjatre
fallegt

frost-gonguferd

froststillan
natturan

Mér finnst eiginlega mjög gaman að taka nærmyndir.

prjona-bol

Er síðan að prjóna þetta. Þetta er upphafið á bol. Ég hef aldrei prjónað bol áður, er spennandi. Er reyndar komin hálfaleið niður bolinn á bolnum og ligg inni með einn sokk sem vantar bróður sinn og hálfa lopapeysu. Það nefnileg gerðist það að einhver (lesist: Bína) tók prjóna sem ég á, sem eru bæði númer 6 og 7, sokkaprjónar, og ég hreinlega veit ekki hvað hún gerði við þá, þeir eru gjörsamlega horfnir. Þannig að þangað til netbúðir verða komnar með þessa stærð af prjónum til sölu eða þar til næst þegar ég verð á ferðinni framhjá prjónabúð, þá verða þessir hlutir að bíða.

Annars var ég að setja nýtt stöff í Etsy búðina mína. Tvær lopapeysur og einn trefill. Lopapeysurnar eru flottar því ég hannaði munstrið sjálf og það er ekki hefðbundið lopapeysumunstur. Það er mjög óhefðbundið og einstakt fyrir hverja peysu. Ég meina að það er ekki hægt að fá aðra svona peysu með eins munstri. Besta hugmynd síðan ristað brauð.