Ég hef ekki skíringu á því afhverju við höfum flutt svona fram og til baka í gegnum tíðina. Við erum ekki eina fólkið í heiminum sem gerir þetta. Og ég get ekki sagt að ég viti að við komum ekki til með að flytja aftur. Mér persónulega er alveg sama hvort við flytjum aftur. Svona er þetta bara hjá okkur.

Hinsvegar eru einhver tímamót núna. Ég veit ekki almennilega hvað þau fela í sér en hef sterkt á tilfinningunni að Danmerkur ævintýrinu sé lokið, altsvo, það kæmi mér mjög á óvart að við myndum velja að flytja þangað aftur. Við fluttum þangað í júní 2007 og fluttum þaðan í júlí 2017. Vorum á Íslandi í 2 ár þarna á miðju tímabili.

Það er merkilegt til þess að hugsa að einhvernveginn hafa hlutirnir verið að fara í fullan hring og margt sem okkur þótti áhugavert og gaman að í Kóngsins Köben farið eða að hætta.

Sem dæmi tréleikplássið sem ég hef hundrað sinnum talað um og póstað myndum frá, er núna í niðurnýslu. Ísbúðin sem er besta ísbúð í heimi er flutt úr hverfinu sem við vorum í og allskonar fleiri smáatriði.

Ég átti mjög erfitt með að hætta í tónskólanum þegar við fórum til Íslands 2011. En núna er ég sátt. Við spiluðum sömu verk og þegar ég byrjaði þar fyrir 10 árum síðan. Fallegur máti að kveðja þennan part í mínu lífi.

Við erum almennt mjög spennt að vera komin til Íslands. Erum nýbúin að fá gáminn heim að Reykjaskóla og þar á “bara” eftir að leysa nokkur vandamál eins og að það sé hægt að baða sig þar og þvo þvott. Erum annars að týna dót úr kössum og reyna að láta þetta gerast.

Ég byrjaði að vinna í síðustu viku á nýja kontórnum mínum og Eiginmaðurinn heldur frí þar til í ágúst. Yngismærin er í Bardúsa að vinna og Geðmundur á lagernum í Pier. Fagri og Litli Herforinginn eru að dóta sér, hann með jafnaðargeði að vanda en hún ekki.

Hefst þá partur 1 af sögunni um þessi tímamót

Já þetta er sama mynd og ég setti inn þann 28.júní sl. Hún á að vera til marks um hversu vel við litum út áður en flutningsniðurpökkunargeðbilunin tók við. Þarna vorum við og ég sagði frá því, bara eitthvað að rolast í garði í Kaupmannahöfn. Bara svona eitthvað að njóta lífsins og ekki með neinar flutningsáhyggjur.

Við fórum líka til Malmö að slaka á… maður hefði geta haldið að það væri ekki gámur að koma 3 dögum síðar sem í ætti að fara aleigan – sem ennþá var bara á sínum stað í íbúðinni.

Reyndar voru þessir flutningar svo vel planaðir að það komu ekki upp neinar óvæntar uppákomur. Hvað um það. Efitr að hafa verið að dóla í Malmö hófust við handa að sjálfsögðu. Bara nett úfin og en frekar góð á því. Ég ennþá að vinna og Eiginmaðurinn sem var löngu kominn í sumarfrí sá um að pakka.

.. .fleiri kassar komnir = meira geggjaður Eiginmaður.. – ég enn föst við vinnu.

Glittir í fleiri kassa.

Úff. Nánast búið að pakka öllu og við ekki búin að fara í bað í fleiri daga. Von á gámnum daginn eftir. Við vorum tvö að þessu lengst framan af degi en svo fengum við ómetanlega hjálp frá systur minni og hennar manni og Kristjönu vinkonu. Ef þau hefðu ekki komið þá mætti ætla að við hefðum bugast og tekið vonda skyndiákvörðun um að henda bara öllu dótinu og ganga út.

En eftir að hafa spilað tetris með dótið okkar inní gáminn þá get ég hér með tilkynnt að allt, hvert einasta snytti, komst inní þennan 20 feta gám. Það þurfti að vísu að ýta því síðasta inn og loka hratt en það hafðist samt.

Og þá var allt tómt. Bara barnabílstóll og ferðatöskur eftir.

Þetta er sama dag og við skiluðum íbúðinni. Heimilislaust par í rigningu á leið í húsið sem sys og þau leigðu í Hvidovre. Það endaði nefnilega þannig að við þurftum að skila íbúðinni okkar kl. 11 og fengum ekki íbúðina sem við gistum í síðustu nóttina í Köben fyrr en kl 15. Ég get bara sagt að það var kærkomið að vera búin að þessu, fara í sturtu og láta líða yfir sig yfir nóttina.

Næsta dag fórum við nefnilega í ferðalag útá Jótland. Fórum þar í bústað. Við, sem erum 6 fyrir þá sem ekki vita, leigðum eldgamlan Fiat Doblo. Ég stóð fyrir því að velja bílinn og var handviss… sko, HANDVISS að í hann kæmust 6 manns OG 5 ferðatöskur. Og barnabílstóll og aukadót sem vill slæðast með þegar fólk ferðast. Og það komst líka. Að vísu er ekki farangurspláss í þessum bíl fyrir fimmaura. Þessvegna var Diddmundur í farþegasætinu sem var keyrt eins langt fram og það komst, Litli Herforinginn var í hásæti sínu þar fyrir aftan og með ferðatösku undir fótunum. Geðmundi var plantað í miðjuna, á milli hásætis Herforingjans og fjalls af ferðatöskum (sjá í glugganum á bílnum á myndinni hér fyrir neðan) og við Yngismær vorum aftast.

Ég veit ekki hvernig sá sem hannaði bílinn ætlaðist til að það sætu tveir í skottsætunum sem snéru að hvort öðru  með bara svona 10 cm bil á milli sín. Altsvo.. enginn er með það þunna fætur.

Ég sneri því að henni en hún sneri út að skotthurðinni. Fæturnar á mér voru uppí sætinu þar sem 5ta ferðataskan var undir því og fæturnar á henni voru ofaná einhverju skott drasli.

En ég hafði samt rétt fyrir mér, þetta komst allt í bílinn en ég viðurkenni að hafa fengið kunnulega tilfinningu um að nú hefði ég klúðrað enn einu sinni, tekið ákvörðun sem kom okkur í ekki annað en klandur.

Hefði mögulega verið meira töff ef við hefðum verið á þessum hvíta þarna fyrir aftan.

En þúst! 4 tíma keyrsla með fæturna uppí sætinu er bara eitthvað til að lifa af ekki njóta.

Playmokall í ferðalagi með ferðalagstösku með dóti í.

Við litum mun betur út á ferðalagi en í flutningum. Næsta stopp var sumarhús í Stauning þar sem við vorum í viku. Meira um það í parti 2.