Fyrst ber mér að nefna að ég þoli ekki og þá meina ég  þ.o.l.i. e.k.k.i.  að vera kalt eða fá á mig eitthvað kalt. Eina sem ég vil sem er kalt er ís á heitum sumardögum.

Kalt vatn er helsta ástæðan fyrir að ég fer ekki svo títt í sund. Öll ástæðan fyrir því að ég fer alltaf bara í pottinn ef ég fer í sundlaug á Íslandi. Kuldi um vetur fer alveg með mig og tilhugsunin um að einhver helli ísköldu vatni á mig er eitthvað sem fær mig til að skjálfa.

Þetta er þá líka ástæðan fyrir að mér finnst bara gaman að horfa á vatnsslag, ekki vera með í honum. Restin af minni fjölskyldu hefur það ekki eins og ég og þótti með eindæmum gaman í vatnsslagnum sem braust út.
vatnsslagur-1

Eiginmaðurinn fór þarna í fararbroddi og var grófastur og frekastur.

vatnsslagur-2

Krakkarnir reyndu hvað þau gátu. Bína var meira að segja sett í sundbol. Allir voru alveg holdvotir. Eiginmaðurinn alveg í S-inu sínu að hella ofaní buxurnar hjá þeim, með stærsta stríðnisglott norðan hæðarinnar í Danmörku..
vatnsslagur-3

Elti meira að segja smábarnið uppi og sturtaði á hana. Hún auðvitað skríkti af einskærri kátínu.Heyrðist langar leiðir.

vatnsslagur-4

Diddmundur eltur uppi líka..

vatnsslagur-5

Hann reyndar snéri vörn í sókn og spreyjaði föður sinn niður í grasið.

vatnsslagur-6

Þetta var skemmtilegasti leikur ferðarinnar fannst þeim. Og þegar þau voru búin að vera að í dágóða stund, orðin alveg re-hennandi blaut heyrði ég þau pískra eitthvað við pabba sinn við vatnskranann þarna utaná húsinu.

Ég vissi strax hvað var í aðsigi. Ég gargaði á þau að ég heyrði sko alveg hvað þau væru að segja um leið og ég byrjaði að fara mjög ákveðnum skrefum inn í hús. Ég meina.. ég var að prjóna þarna á veröndinni og ætlaði sko hvorki að fá á mig ískalt vatn né að prjónaverkefnið mitt (sem er pöntun frá viðskiptavini) myndi lenda í að flækjast um allar þessar 50 tær sem voru svo mikið að fara að elta mig, það var svo greinilegt fyrir mér að ég fann jörðina skjálfa undan þeim á eftir mér.

Ég veinaði “neeeeei” og tætti inn í sumarhús. Fleygði prjónadótinu frá mér varlega (samt flaug það ábyggilega 2 metra) og brenndi inní eitt herbergið. Þú veist.. ég held á símanum á meðan, því ég var að taka myndir af þeim úti….

rett-adur-en-eg-var-tekin

…og smellti óvart af þessari á meðan ég lét mig falla til jarðar í fósturstellinguna, þú veist, eins og broddgöltur gerir og er síðan alveg grafkyrr í von um að ógnin láti sig hverfa.

Ertu að sjá hvað hann er geggjaður til augnanna ? Jesús minn. Það fer um mig ennþá. Úff.. og þarna sérðu líka að hann heldur á 2 lítra flösku í hendinni, MEÐ ÍSKÖLDU VATNI.

Þú verður síðan að átta þig á að við erum 6. Hann kom ekki bara einn, rennandi blautur, inní húsið á eftir mér. Nei, það komu alveg 8 fætur á eftir honum. Þrömmuðu og hlóu eins og tröllabörn og nutu þess að horfa á móður sína engjast. Ég er að spá hvort þau hafi fengið flashback frá því að þau fæddust og nutu þess líka þá að vita af móður sinni engjast. Mér er spurn.

Ok. Allir eru komnir inn á eftir mér og sumarhúsið allt rennandi blautt. Ég sé mér ekki annað fært en að reyna að flýja eitthvað annað í húsið heldur en þarna inní herbergi. Færi mig þessvegna fram á einhvern undraverðan máta, ég man ekki svo mikið annað en mynd-glefsur úr minni mínu þar sem ég síðan ligg, aftur eins og broddgöltur með félagsfælni, við svalahurðina. Hvað ætlaði ég að gera eiginlega.. flýja út undir bert loft þar sem það er ekkert að því að hella vatni á mann, þú veist, á móti því að það má ekki innandyra.

Það var aðeins eins og ég rankaði við mér þarna í broddgeltinum við svalahurðina og ég ákvað þessvegna, þegar þau virtust annaðhvort ekki vilja prufa að lyfta mér út eða kunnu hálfpartinn ekki við það, að meik a run for it inná bað þar sem ég sá fyrir mér að geta læst að mér.

Þannig að, þegar ég ákvarðaði að þau væru mögulega búin að gefast upp, spratt ég eins hratt og ég gat upp og fór eins og fætur toguðu, yfir alla bleytuna á húrrandi hálu gólfinu (þetta er þá eins og kona í pilsi í grindarhlaupi í slómósjon, nema það eru engar grindur) og stefndi í áttina að baðherberginu, sem er á sama gangi og útidyrahurðin.

Skemmst er frá að segja að ég náði því miður ekki alveg inná bað. Neyddist til að dúndra mér í broddgöltinn aftur, veinaði og veinaði, Bínu var ekki alveg sama. Ég háði þá þarna fyrir framan útidyrahurðina síðustu baráttu mína, sem var erfitt því ég var síðan að míga í mig af hlátri í leiðinni, ég ætlaði mér að komast inná baðherbergi.

Komst þá að því þarna á miðjum ganginum að sama hvað ég tauta og raula þá er Eiginmaðurinn líkamlega sterkari en ég, líka þó hann sé ekki hærri en ég, sem er að nokkru leiti svindl.

Þannig að, þrátt fyrir hetjulega baráttu með bæði höndum og fótum, þar sem ég bæði spyrnti við veggi og hurðakarma, greip í dauðans ofboði í gólfmottur og skóhillur var ég áður en ég vissi af, komin út á stétt þar sem 5 (eða 4 því Bína var ekki með neitt vatn) létu svoleiðis gossa yfir mig vatnið.

Ég mun hefna mín síðar.