Var ekki verið að segja að það væri hollt fyrir fólk að drekka sitt eigið piss? Það er ég að prufa í dag, hér í morgunsárið. Það er volgt og örlítið beiskt á bragðið.

DJÓK! Ég færi aldrei að drekka mitt eigið piss, það er viðbjóður. Ég hef enga trú á því að það séu næringarefni í hlandi sem líkaminn verður að fá. Það segir sig sjálft, hland er afgangsvara, eitthvað sem líkaminn sá ástæðu til að losa sig við. Það hlýtur að teljast móðgun við sköpunarverkið að sturta því svo aftur í sig.

Ég er að byrgja brunninn eftir að barnið er dottið ofaní hann með því að drekka C-vítamín með appelsínubragði eftir að ég hef dottið ofaní veikindin. Já þú heyrðir rétt. Aumingja ég, sem aldrei verð veik er veik.

Ég kalla þetta manflu af verstu gerð. Ég fékk svona líka fyrir eiginlega nákvæmlega 2 árum síðan. Þ.e 19.apríl 2014, sé ég hér á blogginu mínu. Þá fékk ég heilar 3 kommur, núna er ég búin að hækka í hita frá því í gær, úr 36,5 í 36,8. Já, þið getið byrjað að semja samúðarkortin til mín. Ég mun taka við árnaðaróskum. Mér til málsbóta hef ég algjörlega misst röddina og er með svo mikið hor í andlitinu að ég get varla hreyft augun. Mér er bókstaflega illt allstaðar. Afhverju getur kona ekki bara fengið hita til að geta veifað því framan í lífið og þar með verið komin með afsökun til að slaka bara á?

En þar sem ég er tæknilega séð ekki með hita þá verð ég að skvetta í mig C-vítamín vatninu, einni heimabakaðri bollu (því þessi manflu byrjaði í fyrradag, en ég sem ekki get þolað að vera veik, var í afneitun bæði í gær og fyrradag og var öll á fullu að baka, fara útí búð, fara með og sæka barn, sjá um veikt barn, sauma áklæði á hyllu í ChinChilla búr(kem að því síðar)… ég ætlaði ekki að gefa mig) og svo skola niður verkjatöflum og sjá hvort ég geti ekki sest við vinnu.

arna-spilar-a-gitar

Bjútíbína datt líka í smá veikindi. Henni fannst lang eðlilegast að eyða því ástandi með gítarspili og söng.

vorid-er-komid-16

Síðan, þó það sé hráslagalegt og kalt úti (eða ég er að ímynda mér að það sé kalt, ég er ekki búin að fara út) akkúrat í dag þá er þetta samt að gerast. Fyrst blómstra trén með hvítu blómunum, svo bætast ljósbleiku blómin við, þá gulu blómin og síðan dökkbleiku blómin. Svo, áður en ég veit af er allt að springa út.

taka-til-a-svalagardinum

Þessvegna höfum við verið að eiga við svalagarðinn við yngri lýðurinn. Það þarf að vökva sítrónutréð sem ég held reyndar að sé steindautt. Svo þurfti að sópa og endurraða. Taka niður gróðurhúsið þar sem það skemmdist í vetur og svona, gera huggulegt.

vasasafn

Ég hef lengi haft gaman af vasasafni barnanna. Sérlega strákanna reyndar, því þeir eru svo miklir strákar og geyma svo marga hluti í vösum sínum. Allskonar steina, skrúfur, skinnur, orma, sand, snigla og hin og þessi plastbrot sem í ímyndunaraflinu gætu verið hvað sem er. Þetta er hinsvegar fyrsta vasasafnið hennar Bínu.  Nokkrir steinar í merkilega svipaðri stærð, sennilega sem passar vel inní litla lófan hennar og svo tvö stykki trjábútur.

Talandi um Bjútíbínu. Hún er 2 og hálfsárs og hefur breyst í algjöra sprengju. Hamagangurinn og tryllingurinn getur verið algjör. Hvaðan þekki ég svoleiðis aftur…jú! Auðvitað frá hinni dóttur minni. Hún hefur hinsvegar róast til muna þó það sé alltaf stutt í fíflaganginn, sú stutta hefur tekið við.