Ég hef aldrei verið fyrir merkjavöru og ég hef heldur ekki getað fylgt straumnum, var t.a.m hvorki djúran djúran né vamm aðdáandi. Ég gat ekki Mæköl Djakkson og strákabönd gáfu mér grænar bólur. Ekki þar með sagt að ég hafi verið að gera í því að fara á móti straumnum, þvert á móti eiginlega, ég var bara.

Ég man samt eftir því þegar ég var ca 11 eða 12 ára að mig BRÁÐVANTAÐI Levis buxur í týpu 501, svo ég gæti farið í þær, sett á mig belti með stórri sylgju og reyrt svo fast uppá mittið að buxurnar vissu ekki hvort þær væru buxur eða …. pípuhreinsari. Reyndar man ég líka eftir að hafa viljað fá Jees buxur, en ég man að þörfin fyrir þær var ekki eins brennandi og sú fyrir Levis buxunum.

Og þar með er upp talið þau merki sem ég hef bara ORÐIÐ að fá.

Ég hef síðan alltaf verið þannig að ég get ekki fundið mig í að vera í eða vera með það sem “allir” hinir eru með eða eru í. Ég er samt ekkert sérstök í fatavali, eiginlega frekar lummó, og nei, ég er ekki lummó á svalan máta, ég er bara lummó. Furðulegt er, að á sama tíma og ég vil ekki vera í eins fötum og allir, vil ég heldur alls ekki skera mig úr, ég er ekkert fyrir athygli á almannafæri og fer meðfram veggjum.

Og annað, ég get ekki haft að fólk haldi að ég sé að sveifla um mig merkjavöru til þess að upphefja sjálfa mig, en það er vegna þess að mér finnst hallærislegt þegar fólk uppar sig með rándýrum merkjavörum. Held bara að fólk þurfi ekki að staðsetja sig í lífinu með hlutum.

Ég vil bara vera í þægilegum fötum og flest sem ég kaupi er af praktískum ástæðum. Eins og taskan sem ég keypti um daginn. Mig vantaði frekar breiða tösku svo ég kæmi þverflautunni minni þar ofaní og jafnvel nótnastatívi saman brotnu. Einnig fínt ef ég gæti notað téða tösku í ræktinni, svo í hana þurftu að komast skór, handklæði og fatnaður.

Ég fór í einhverja töskubúð á þrammi mínu í tónskólann einhverntíma fyrr í vetur. Leitaði þar dyrum og dyngjum þangað til ég fann hina einu sönnu. Hún var nógu breið, nógu djúp, nógu venjuleg og nógu ódýr.

Þegar ég var búin að eiga töskuna í 3 eða 7 daga kemur Sprengjan fram, sem í dag á flottari föt en ég og flottara herbergi heldur en við höfum hér frammi, og með ýktum andköfum og á innfartinu segir “DAY taska???!!!????”

Ég hváði. Ha? Dei taska, hvað meinarðu? Þá hafði ég keypt tösku eins og “allir” eru með. Sveimér.

Núna, þegar ég labba úti með töskuna passa ég að ég snúi töskunni þannig að merkið sjáist ekki og ég hef alvarlega íhugað að taka það af eða föndra eitthvað yfir það.

Afhverju þetta fer svona í mig veit ég ekki, enda þarf ég ekki að vita allt, eða jú, ég þarf það en ég get alveg beðið eftir að það komi til mín afhverju þetta er svona.

En eins og sést á myndinni þá passar taskan líka eins og flís við bast í hjólakörfuna mína og í dag fór ég í búðina og keypti nokkrar vöru og þær komust allar ofaní hana, ásamt regnfötunum mínum og hinu og þessu smálegu.

Þannig var nú það í pottinn búið. Blessuð.