Herforinginn er búin að vera óvenju pirruð. Orgar og gargar. Sennilega þreytt greyið.

Vorum þá eitthvað að eiga stund í sófanum. Hún rak þá augun í illa hirta handakrika mína og spurði hvað þetta eiginlega væri. Ég sagði henni eins og raunar er að fólk fái hár í handakrikann þegar það verður fullorðið.

“Er Sunneva með svona?” – sagði Herforinginn með galopin, saklaus og blá augun. Já, sagði ég.

“Er Gummi með svona?” – já, sagði ég.

… “En Sindri ?” – nei, sagði ég. “Pabbi?” – já, heldur betur.

Hún hugsaði sig um í smá stund og spurði svo afhverju þetta væri svona. Ég sagðist náttúrulega ekki vita það, vegna þess að ég veit ekki afhverju mannfólkið er með hár í handakrikanum.. nema skýrningin sé sú að það bara vaxi hár á dimmum, aflokuðum og rökum stöðum… en ég sagði það auðvitað ekki við hana. Ég sagði að þetta væri bara svona þegar maður yrði fullorðinn.

Þá hugsaði hún enn fastar og sagði “Setur maður þá baunir þangað?”

Setur maður baunir þangað…

Þar sem ég var þá núna komin með galopin, saklaus og reyndar græn augu af undran yfir fyrirspurninni, flýtti hún sér að bæta við, “..og svo vex svona” -meðan hún benti í handakrikann á mér.

Góða helgi gott fólk!