Bína litla.. sem ég er alveg að detta í að kalla Sprengju ((ó)sælla minninga um eldri systur hennar á þessum aldri) var svo stolt af sér um daginn þegar hún, alveg sjálf, reitti töluvert af klósettpappír utan af rúllunni (á myndinni má sjá bæði þurran og saman krullaðan og rennandi blautan litaðan wc-pappír) og náði í alla litina, vatn í glösin og málaði svo rúlluna.

Stoltara barn hef ég ekki áður séð. Ég samsteltist (nýyrði dagsins) auðvitað gasalega og geymi afraksturinn uppá hillu.

Þetta var um daginn. Það er ekki langt síðan ég lagði út mynd af henni þar sem hún var útötuð í málningu. Í þessum töluðu er hún útötuð í vatnslitamálningu. Syngur í sturtunni eitthvað á dönsku.

Hún hefur ekki tamið sér að tjá sig í gegnum list með því að skrifa á allt annað en blað eins og stóra systir, en ég, aftur, verð alvarlega vonsvikin ef Bína verður ekki einhverskonar kúnstner.

Allt er annars bara í vanaganginum hér. Ég hef átt erfitt með að tjá mig því ég vil tjá mig um svo leiðinlega hluti, eins og angist og almenna tilvistarkreppu nær fertugrar konu. Ég verð samt örugglega að gera það, annars get ég ábyggilega ekki skrifað neitt aftur. ALDREI.