Í dag er GLATAÐ … ég segi GLATAÐ! veður. Þessvegna hef ég verið að skoða myndir frá því að við vorum í Danmörku og væla pínulítið inní mér yfir því að ég sé ekki þar í hita og góðu veðri. Samt er ég ekki að væla neitt rosa mikið bara lítið, er meira fegin að hafa upplifað að búa í landi þar sem er ekki þessi endalausi andskotans kuldi, myrkur og bévítans bleyta.

Þessi mynd af Flóka í Hrútafirðinum er ekki tekin í dag.. veðrið í dag á ekki skilið að vera fest á filmu.

Eitt af því sem ég ylja mér við stundum eru hjólaferðir á hjólinu mínu, í kjól einum fata, í flipflops, með sólgleraugu, í hita, í Kaupmannahöfn.

Eitt af því sem má gera sér til dægrastyttingar er að klæða hundinn í fleiri föt. Hér var honum troðið í bol af Herforingjanum og í sokka. Hann verður alveg dásamelga luralegur.

Og fara á tónleika, við fórum bæði á Guns n Roses og Arcaid Fire. Reyndar erum við búin að vera duglegri að fara á tónleika og svoleiðis eitthvað eftir að við komum heim heldur en þegar við vorum úti – það er mögulega útaf því að við erum dottin að miklu leiti úr smábarnatímabilinu.

Þá er líka hægt að standa í því að halda afmælishátíð fyrir Húnaþing vestra. Það gerðum við í Menningarfélaginu núna í endann ágúst. Enduðum á því að kveikja lítið bál uppí Hvammi og gefa fólki heitt súkkulaði.

Þann dag var líka kaffiboð í félagsheimlinu. Þar með lærði ég á allar heimsins kaffikönnur og kann þá hér með líka að búa til 100 lítra af heitu súkkulaði. Alltaf lærir kona eitthvað nýtt.

Það var ágætis veður reyndar, oft logn á kvöldin hér, en samt orðið frekar kalt í endann og fólkið dró nær bálinu.  Hugguleg stund.

Sér til skemmtunar má líka kíkja á myndir af bræðrunum mínum. Annar (sá yngri) var þreyttur eftir tónleika kvöldið áður en hinn var þreyttur eftir ég veit ekki hvað.. bara að vera til. Kannski er það að vera heima hjá móður sinni svona róandi fyrir þá, þetta er mjög algeng sjón þegar við erum þar.

Herforinginn var búin að gera allt sem hún gat til að halda þeim yngri vakandi, talaði og talaði og masaði og masaði. “Já”, “mhm” og “já er það” heyrðist í honum af og til… eða þangað til hann lognaðist útaf. Hún ræður leiknum og það gildir einu hvort menn eru sofandi eða vakandi – með skulu þeir. Myndin er ekki æðislega góð en hún var búin að troða hesti í höndina á honum og er sjálf með póníhest. Hélt auðvitað áfram að tala og tala.

Í stólnum við hliðina á var sá eldri en ef þú ert með rosa góða sjón þá ættirðu að sjá að það var búið að koma bleikum fák fyrir í höndinni á honum.

Mér finnst þetta alveg glimrandi fyndið.

Gróðurhúsið er líka að gera mig hamingjusama þessa dagana. Það er gott að vera þar inni, svona líka friðsælt andrúmsloft, suðið í randaflugunum, öll berin, hlýjan sem getur verið þar og svo hef ég alltaf verið hrifin af því að fylgjast með stöffi vaxa.

MMMM!

Þessi mynd er tekin við gróðurhúsið út á túnið í átt að Miðfirðinum. Þetta er fallegasta óræktarhrúga sem ég hef séð. Á ég að segja þér eitt?

Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa því almennilega. Tilfinningin líkist þeirri sem ég hef stundum fundið þegar ég vil hvergi annarsstaðar vera. En þessi er meira í áttina að ég vil bara vera þarna, ekki annarsstaðar. Ég hef aldrei áður fundið fyrir ást á jörð. Ekki fundið fyrir því að ganga um áður óþekktan landskika og finnast ég vera heima hjá mér.

Hefurðu prufað?

Ég og hárið á mér í öllu sínu veldi á jörðinni minni.

Nóg um uppáhalds jörðina mína í bili. Þarna er bífluga í vinnunni.

Fórum í réttir eins og þægir Íslendingar. Var ekki skemmtilegasta ferð sem ég hef farið í, í stuttu máli alltof langur bíltúr og lýðurinn alveg orðinn galinn.

Mér fannst vera alltof margar kindur í almenningnum þegar hleypt var inn. Það var alveg stafa logn og þær alveg móðar og másandi. Ég var að hugsa um að senda þær allar til astmalæknis. Fá púst bara.

Svo var það þannig að Eiginmaðurinn bakaði pizzu og lagði á borð. Til að gera Herforingjanum til geðs átum við öll af bollastellinu hennar. Það var ekkert verra en annað og um mikið minna uppvaska að ræða.. og hér er ég auðvitað að tala um að ummál uppvasksins var minna en venjulega.

Flóki tekur húsvarðarhlutverki sínu alltof alvarlega. Hann er sjálfskipaður í þetta hlutverk. Það má ekki bærast strá hér fyrir utan þá er hann rokinn af stað. Skólabíll og póstbíll fá að finna fyrir því. Allir gestir. Eins og sjá má var ég að lita garn um daginn og vinur minn blessaður varði garnið fyrir kindunum sem voru í 7 km fjarlægð og auðvitað öllum bílunum uppá þjóðvegi. Tala nú ekki um alla hjólandi ferðamennina, þeir gætu nú verið að hugsa um að koma niður til okkar og ráðast á blauta marglita ullina. Blessaður hundurinn, hann elskar mig svo mikið. Það er nú ágætt útaf fyrir sig.