Sofa klukkan 2 og vakna klukkan 10 hefur verið reglan í þessu fríi. Dásamlegt að eiga frí. Þó svo að það séu  mörg spennandi verkefni framundan sem ég get illa beðið eftir að byrja á, þá gæti ég svosem alveg verið í fríi í alveg heila viku í viðbót.

Skólarnir byrja á mánudag, skólaviðtöl á morgun sem þýðir að við verðum að fara á fætur fyrir allar aldir, eða klukkan 7:30! Ó mæ god.. ég sé ekki (núna klukkan korter í eitt) hvernig það á að gerast yfir höfuð.

Stór dagur á morgun. Fagri breytist í táning og þá á ég þrjá táninga og eitt leikskólabarn. Fráningur.. Fagri + táningur, er það eitthvað?

Ég fæ alveg svakalega skipulagsþörf í enda árs. Mér finnst gamlársdagur hálf leiðinlegur. Ég er lítið fyrir rakettur og æi.. bara.. þúst, búin að éta á mig gat í marga daga þar á undan. Öðru gegnir um nýársdag. Það er dagur sem ég elska. Nýársdagur, nýjar byrjanir – ný tækifæri, hefur aldrei svo ég muni, ekki verið fallegur dagur. Alltaf rólegt veður (ég tek ekki við athugasemdum um að það hafi ekki verið þannig einhverntíma) og fallegt, mis kalt, en alltaf tilefni til þess að fara út og lofa daginn.

Oftast ekki verið vandamálið að búa til heljarinnar lista yfir hitt og þetta sem skal breyta og bæta og byrja oft af krafti strax þann 1.jan. Þegar ég byrjaði að prjóna úr garnstassinu mínu árið 2016 þá var það í fyrsta skipti sem ég hef sagst ætla að gera eitthvað og gert það – nú er ég að meina af svona “loforðum” um eitt eða annað eða áramótaheitum – auðvitað hef ég sagst ætla að gera fullt af hlutum og gert þá en það kannski takmarkast við að muna eftir að fara í búðina en ekki að ákveða að gera eitthvað með reglulegu millibili í ákveðinn tíma eða þar til eitthvað er búið. Að upplagi er ég hræðilega léleg í þessháttar.

Í fyrra stóð ég svo við annað loforð sem ég gaf sjálfri mér og er enn að. Ég byrjaði að spara pening í janúar 2018. Já, ég veit. Ég verð fertug í sumar og á í fyrstaskipti sparipening. Mér er slétt sama hvað alvitrir dómharkarar þarna úti hafa að segja um það að ég eigi í fyrsta skipti spari fé þegar vinnuævin er svogottsem hálfnuð. Ég er svo meðvituð um að það er þannig að það er sárt. En ég er aðessu. Það er eitthvað sem mér finnst skipta frekar miklu máli í mínu lífi. Ég get núna eitthvað sem ég gat ekki áður. Húrra fyrir því.

Í ár er eitthvað erfiðara fyrir mig að taka ákvarðanir um hvað skal bæta. Eða breyta. Eða ég veit reyndar alveg hvað það þarf að vera en ég get ekki fyrir mitt litla líf ákveðið hvaða aðferð ég á að nota. Ég get ekki setið með þessum pælingum, er svo stressuð um að það muni taka marga daga að finna útúr því, skipuleggja það og þar á eftir eru yfirgnæfandi líkur á að ég haldi ekki plani. Og nú er fríið að verða búið.

Mögulega neyðist ég til að setjast með þetta og finna útúr því.