Annríki allskonar í gangi. Ég hef ákveðið að fara í miðpróf í flautuleik. Ég fór í hið svokallaða grunnpróf fyrir að verða 12 árum síðan. Þá var Diddmundur nýfæddur, ég flautaði því óheyrilega mikið ofaná hann á meðgöngunni. Hann var bara 3 mánaða eða eitthvað, pínu lítill. Hann kom bara með og ég fékk næst hæstu einkunn. Sem býr til ákveðna pressu, hvað ef ég geri ekki jafntefli við sjálfa mig eða, sem verra er, toppa mig ekki? Hvað þá?

Það skiptir ekki alveg öllu veit ég alveg, ég er að þessu bara fyrir sjálfa mig – betra að hafa eitthvað að stefna að, frekar en ekki. Þá er hætt við að maður leggi rörið bara á hilluna. En eins ómetnaðarfull og ég lít út fyrir að vera þá verð ég alveg sturluð ef ég er ekki best, fyrst eða með meðfædda náðargáfu. Það er náttúrulega löngu vitað að ég er ekki með neina meðfædda náðargáfu og er of sveimhuga til að geta lag það mikið á mig á einu sviði að nokkuð verði úr sem kallast getur besti árangurinn.

Þessu tónlistarnámi fylgir ákveðinn fjandi og hann ber nafnið tónfræði. Tónfræði er eins og stærðfræði þar sem rökhugsun og regluverk gildir. Ég bara get ekki þannig. Mér finnst það bara óskiljanlegt. Þannig þetta verður puð, en það er líka í lagi. Býst við að það sé hægt að hafa gott af því að kveikja aðeins í heilabúinu.

Hér var auðvitað hríðarverður í síðustu viku þar síðustu viku (löngu búin að skrifa þetta en þurfti að geyma og komst svo ekki til). Það svo langt síðan að við lentum í svoleiðis nokkru að þetta var alveg upplifun. Verandi strjálbýlistútta á venjulegum bíl komst ég hvorki lönd né strönd og heldur ekki inná Hvammstanga. Þangað komust heldur ekki krakkarnir á fimmtudag og föstudag svo hér var haldin aldeilis löng helgi.. eða var það mið og fim.. ég man það ekki.

Veðurhamurinn skildi eftir dulítinn snjó og með eindæmum fallegt útsýni.

Fyrst var auðvitað bara smá forsmekkur á því sem koma skyldi.

Þarna er Flóki að reyna að þefa uppi hve hríðin sem enginn vissi af yrði löng… eða hann var að þefa af kindunum sem voru á næsta túni.

Þær hafa nefnilega verið að dúdda sér yfir á túnið hjá okkur. Mikið svakalega finnst mér það dásamlega skemmtilegt. Bara 60 frænkur í heimsókn. Forystugellan hefur verið alveg bara “shhhhsteeplur! komum á næsta grlass” – og hinar 59 einróma jörmuðu “JÁ!” og fannst þetta besta hugmynd í heimi.. aftur.

Flóki var náttúrulega hinn áhugasamasti. Urraði dulítið í honum, enda er hann hundur.

Okkur fannst þetta strax vera rokkna vetur og fórum alveg í ferð til að skoða málið.

Sáum síðan seli og stukkum af stað til að ljósmynda þá. Þarna er úngpían fagra með myndavélina á lofti.

Á dögunum var síðan Eiginmaðurinn kallaður til hestasmalamennsku á ættaróðalinu. Þessi með svolítinn snjó á nesinu. Ég er eiginlega fegin að hrossin eru með allt þetta hár, það var nefnilega töluvert kalt.

Og hér eftir fara þá nokkrar myndir af snjónum og veðrinu. Snævi þakinn Hvammstangi. Þegar maður hefur ekki verið í svona miklum snjó og ekki upplifað þessa ótrúlegu birtu sem myndast á veturnar lengi, þá verður maður bara pínu meir.

Er þetta ekki bara ótrúleg birta?

Þessi er tekin í gær miðvikudag í síðustu viku, niðri við höfn á Hvammstanga. Það rýkur úr sjónum.

Og þessa tók Eiginmaðurinn af afleggjaranum heim að húsi.

Síðan þegar ég var að sækja Litla Herforingjann um daginn á leikskólann rak ég augun í þetta á milli húsanna, lengst í fjarska, gyllt ský. Fegurðin rak mig í rogastans.

Það sem er meira merkilegt er að á sama tímapunkti tók Eiginmaðurinn þessa mynd, af sömu náttúrufegurð en í öðrum firði.       

Við erum um margt lík þó við séum það eiginlega ekki. Ég tek myndir af garni í potti.

Hann tekur myndir af mat, hér súkkulaði, í potti.

Ég raða garni saman í svona pulsu…

..og hann saumar mat saman, í svipaða lögun. Þetta reyndar lítur út fyrir að hann hafi flett forhúðinni af stóru, stóru typpi og reirt það niður, náttúrulega svo það myndi ekki sleppa í burtu, en svo hafi typpið byrjað að bólgna og roðna og vera eitthvað vansælt.

En í alvöru er þetta auðvitað rúllupylsa í bígerð.

Stund milli stríða þar sem Fagri les heima, Herforinginn nærir búið á póníhesta teiknimynd.. aftur, og Flókmundur sefur.

Síðan en ekki síst er hér sjal sem ég prjónaði uppúr títtnefndu garn-stassi. Ég er ekki búin að vigta það, geri það bráðum.