Heitur maður og fagurt barn. Hvaða kona er ekki að fara að bráðna eins og smjör núna?

Sumarbústaðalandið sem við vorum í á Jótlandi var  eiginlega ekki svo frábrugðið íslensku landslagi. Það getur hver maður séð. Hefði þurft að skipta út þeim runnum sem þarna voru út fyrir birkitré og þá hefði þetta verið eins og snýtt úr nös.

Trampólín fylgdi bústaðnum og þar voru bara öll börnin 7. Allan daginn.

Á þriðja síðasta degi í Danmörku fórum við í Legoland. Ég persónulega hafði ekki komið þangað síðan ég var 9 ára og restin af fjöllunni hafði aldrei komið þangað. Þegar ég hugsa til baka hefði ég viljað nota meiri tíma í að bara horfa á allt sem er búið að búa til úr legókubbum. Það var bara töluvert af fólki og einhvernveginn ekki alveg hægt að stoppa bara og stara.

Playmokall og legókallar.

Er ekkert furðulegt að herforingi láti keyra sig í kerru? Verandi herforingi og allt. Eða er það kannski mjög eðlilegt að herforingi sé með þjón?

Við vorum eiginlega meira í að elta krakkalingana sem stukku úr einu tívolítækinu í annað. Við náttúrulega.. eða ég ætti mögulega ekki að tala fyrir hvorki mitt yngsta barn né Eiginmanninn.. segi því frekar: ég náttúrulega ekki adrenalínfíkill fyrir fimmaur. Bara alls ekki. Ég vil ekkert sem minnir á kvíðaviðbrögð.

Nei, ég er hvorki döll né leiðinleg. Það er alltí lagi að mér finnist ekki gaman að fara í tívolítæki.

Og þarna er ég og börnin öll. Geðmundur á leiðinni að vera höfðinu hærri en ég (ég er samt engin míníkona) og ekkert svo langt í að hin tvö sem ekki sitja í kerru séu búin að ná mér.

Eiginmaðurinn náttúrulega mjög svipaður mér í hæð þannig að alltí einu erum við öll alltí einu mjög svipað há.

Svo eiginlega er restin bara í móðu. Ég held ég hafi dottið út einhverntíma á fimmtudeginum, þegar mér varð ljóst að dagurinn þar sem ég þurfti að ferðast í fleiri, fleiri klukkutíma var alveg að fara renna upp.

Og tala nú ekki um að yfirgefa líf mitt eins og ég hef þekkt það síðustu árin.

Við keyrðum s.s í sömu uppröðun í hr. Fiat Doblo frá sautjánhundruð og súrkál í þá 4 tíma sem það tekur að keyra til Kaupmannahafnar. Þá tók við að skila bílnum uppá norðurbrú (sko lengst) og komast aftur í átt að Örestad. Yfir daginn þurftum við svo að bíða og finna eitthvað að gera, ákváðum að bíða í Fields og fá okkur að borða í leiðinni. Flugið var nefnilega ekki fyrr en klukkan 22:30!

Segi ég og skrifa.

Gekk allt glimrandi vel samt en ég var enn og aftur mest fegin að láta líða yfir mig, enda þá vorum við búin að vaka í nánast 24 tíma.

Daginn eftir að við lentum, keyrðum við svo norður í land. Ég held ég hafi ekki rankað við mér fyrr en við vorum komin í sveitina einhverntíma í vikunni á eftir og ég sá þessa forláta múavél innan um allar sóleyjarnar.

…ok, ég þurfti að spyrja hvað þessi gamla sveitavél heitir og til hvers hún var notuð. Ég þekki heldur ekki neina hestaliti og verð alltaf bara að giska í hvaða átt ég á að fara ef einhver segir mér að fara “í nyrsta básinn” – er að spekúlera hvort það muni duga að afsaka mig með að ég sé ennþá á dönskum tíma – en það flýgur kannski ekki þegar talað er um áttir.

Ég verð mögulega til skammar í sveitinni.

En hérmeð er þá hringnum lokað. Við fórum frá Hvammstanga árið 2006 og erum núna komin aftur í Húnaþing vestra, að vísu í öðru póstnúmeri en það er bara töff. Tíminn er bæði stuttur og langur. Stuttur þegar ég hugsa til baka en langur þegar ég hugsa um hversu mikið hefur gerst á þessum tíma. Stuttlangt. Langtstutt.