Við vorum á Jótlandi síðustu dagana í Danmörku.

Það er nú engu lagi líkt hve langt fyrir áætlaða brottför þessi sumarbústaðaferð var plönuð. Við bókuðum bústaðinn í nóvember 2016 og fórum ekki í hann fyrr en 1.júlí 2017. Það er nú eitthvað sem enginn hvorki frá ættinni sem einusinni átti heima í Otradal né úr Villingaholtshreppnum hefur gert.

Það var síðan líka ákveðið að vera ekkert að ákveða neitt sérstaklega hvað við værum að fara að gera, nema það átti ekki að keyra neitt svaka alla dagana. Þannig að úr varð að við keyrðum til Hlíf frænku, sem býr inní skógi í Varde á afmælisdegi hennar þann 3.júlí og svo í Legoland þann 5.júlí. Hitt allt voru bara dandalast dagar og ekkert.

Hjá Hlíf og Claus

Við komum þangað rétt um hádegið. Þau eru að byggja við rétt rúmlega 40 fermetra stórt hús sem er gamall vagthús.. s.s að ég held örugglega hús sem vagtmenn (urg.. veit ekki) bjuggu í eða dvöldu í. Nú er ég eiginlega bara að giska. En það eru svona hús á 500 metra fresti með fram lestarteinunum sem liggja þarna hjá.

Myndin er tekin inní komandi svefnherbergi þeirra hjóna. Það verður líka byggð hæð ofaná húsið. Inni í húsinu er náttúrulega mega flott og ég er ekki að skilja afhverju Hús og híbýli og Bo bedre eru ekki búin að koma þarna í heimsókn.

Upp var slegið pulsuveislu fyrir okkur. Annað eins meðlætishlaðborð fyrir grillaðar pulsur hef ég aldrei séð. Ég fer aldrei aftur í pulsugrillpartý með bara tómatsósu, sinnepi og steiktum. Aldrei.

Við sátum undir þaki á því sem ég kýs að kalla veröndina þeirra (en er í raun fyrrnefnt óbyggt svefnherbergi) því, eins og Hlíf hefur uppfærtt okkur um, þá rignir alltaf á afmælisdaginn hennar. Engin rigning engin blóm.

Eftir pulsupartýið voru dregnir fram sykurpúðar (eða skumfiduser – sætasta orð í allri dönskunni) og grillaðir á þessu samfélagsborði, sem er hægt að rúlla hvert sem er á lóðinni, því það er á hjólum og sitja við það og grilla á litlu báli í miðjunni.

Þessar myndir gera dásemdinni náttúrulega ekki almennilega skil. Þau eru bókstaflega að lifa okkar draum. S.s að vera í húsi á lítilli jörð þar sem er hægt að vera með nokkur dýr og rækta stöff en aðallega til að hafa pláss til að vera sniðug, smíða eitthvað og sleppa taumnum af ímyndunaraflinu.

Sérðu allan brenniviðinn? Hann er undir yfirbyggingu til vinstri á myndinni, bæði ljósviðarlitur og grár og svo umhverfis öll grenitrén til hægri á myndinni. Mér er sagt að nóg sé til að hita húsið þeirra upp næstu 7 árin. Og já, húsið þeirra er bara kynt með brennivið.

Þarna á myndinni sést burstabústaður þar sem gestir geta gist. Þar inni er tvíbreitt svefnpláss og svo tveir sófar til að sitja í og hygge sig. Claus segir að þetta sé rafmagnsfrítt svæði – mér finnst það ÆÐISLEGT!

Besta er að húsið er að miklu leiti byggt úr endurnýttu efni.

Grasið á þakinu þolir ekki að þorna upp, þessvegna er búið að setja vökvunarsístem upp sem vökvar með ekki vatni úr krananum heldur vatni sem kemur annarsstaðar frá, man ekki hvort það var bara regnvatn eða hvort það hefur eitthvað að gera með vatnið í heitapottinum sem er við hlið hússins.

Já ég sagði heitapottur.

Það stendur nefnilega lítill ótrúlega krúttlegur heitapottur þarna við hliðina á burstabústaðnum. Það eru síðan jólaseríur yfir honum og eitt lítið fuglahús þar sem fugl hefur amk nýtt sér tvisvar til að koma ungviðinu á legg. Ég er svo hrifin.

Ekki minnkaði hrifningin þegar ég áttaði mig á því að gróðurinn sem er umhverfis pottinn er jarðaberjaplöntur! Svo þegar maður er í pottinum þá teygir maður sig bara útfyrir kanntinn og nær sér í jarðaber.

Potturinn er síðan hitaður með brennivið.

Bryndís systir mín og bústýra félagsbúsins á Reyðarfirði, ófrísk af sínu 4ða barni og hennar frumburður Ásdís, sem er ári eldri (eða 3 mánuðum) en Diddmundur.

Hlíf frænka mín, ein yndislegasta manneskja á jörðinni með hundinn sinn Punto. Punto er ítalskt orð yfir “blettur” – passar einstaklega vel.

Punto inni að orna sér á gæru við kamínuna. Altsvo, það var ekki kalt á þessum degi samt, síður en svo. Uppáhalds staður hundsins. Litli herforinginn var svo stressaður um að hundurinn myndi brenna að hún var varla að ná sér.

Geðmundur og Pjás – hinn hundurinn þeirra.

Við fórum í hundagöngutúr öll saman, 13 manns og 2 hundar. Þetta er inní skóginum sem húsið þeirra er í.

Diddmundur fann maurabú.

Og þessi brú er byggð árið 1915.

Aftur að garðinum hennar Hlíf. Þarna var Claus búinn að byggja flottustu útisturtu á jörðinni (já, ég er ekki að spara stóryrðin í dag). Þarna er mér tjáð að Árni Sigvaldason sturti sig á hverjum morgni meðan hann og Sigga frænka eru í heimsókn hjá Hlíf. Þá búa þau í burstabústaðnum.

Meira að segja sjampó og allt í boði.

Og þarna er útieldhús sem ef ég hef tekið rétt eftir er komið til af giftingarveislu þeirra hjóna í ágúst 2013. Þá vorum við heima á Íslandi og Litli Herforinginn nýkominn í heiminn svo við vorum þar ekki.

Útieldhús og eldstæði hér og þar, jarðaberja pottaferðir og kósý burstabústaður, sætasta vagthús í bænum og innilegasta fólkið á jörðinni.

Þetta var hápunktur ferðarinnar.

Komumst reyndar að því að Litli Herforinginn var kominn með hlaupabólu.. en hún tók því bara eins og herforingi myndi gera. Bara pínu sturluð á nóttunni en svo bara eins og ekkert væri á daginn. Samt ennþá hálf flekkótt blessað barnið.

Jájá, bara halelúja á þetta allt saman.