Garnóhólistar eins og ég kannast sennilega vel við uppsafnaðan haug af afgangsgarni sem passa ekki beinlínis í neitt verkefni..eða hvað? Hvað er hægt að gera við alla þessa garnafganga?  Ég fann nokkrar hugmyndir og ákvað að deila þeim með þér á þessum ljúfa sunnudegi.

sailawayRoses

Lítill veggórói, sem ber nafnið Sail Away, frá henni Jaquie á Bunny Mummy (frí uppskrift) og rósir frá Lucy á Attic 24 (frí uppskrift). Lucy er snillingur í hekli og hjá henni er margar uppskriftir að finna.

kaninur

Þessar súpersætu litu kanínur  (frí uppskrift) eru prjónaðar í einu lagi á tvo prjóna, með smá saumaskap við eyrun. Þær eru upphaflega gerðar sem kattaleikfang með kattanammi sem fyllingu, en þar sem ég á engan kött sæi ég alveg fyrir mér að fylla þær bara með tróði, maísbaunum eða jafnvel hrísgrjónum og hafa hér mér til ánægju eða fyrir krakka að leika sér með. Ég myndi jafnvel búa til pínulítinn dúsk í staðinn fyrir að hafa dúsk úr filt efni.

minimysogsnjokallar

Fleiri míní hlutir. Pínulitlar kanínur (frí uppskrift) og pínulitlir snjókarlar. Hvað erða eiginlega með þetta pínulitla snúllerí sem er svona sætt??

jolatreogkulur

Aðeins fyrir jólin, fyrst þau eru á næsta leiti. Jólatré (frí uppskrift) til þess að hengja upp, hvort það er á jólatréð eða mörg saman á veggóróa, og prjónaðar “ljósakrónur” á seríu. Ég er að sjá fyrir mér að prjóna svona ljósakrónur með hvítu eða ljósu garni einhverju, finnst vera svo hátíðleg birtan af svoleiðis.

odruvisimedgarni

Þú þarft enga prjóna eða heklu nál til þess að búa til fallega pakkaskrautið til vinstri á myndinni, hugmyndin er úr bókinni More Last Minute knitted gifts eftir Joelle Hoverson. Joelle er konan á bak við Purl Soho, garnbúð á Manhattan í New York, og bloggið The Purl Bee.

Þú getur líka búið til stimpil með því að vefja garni utan um trékubb, svamp eða plað sem búið er að brjóta sama, eins og sýnt er á myndinni til hægri. Myndin er úr bókinni Print Workshop eftir Christine Schmidt, bókin er reyndar sneisafull af verkefnum, eða hugmyndum að handprenti, svona ef þú ert fyrir það.

Það væri hægt að skreyta gjafakort eða jafnvel gjafapappír með svona garnstimpli og það væri hægt að gera fleiri en einn í mismunandi litum.

furniturefeet

Síðast en aldeilis ekki síst er uppskrift að húsgangafótum. Þetta finnst mér svo mikið frábæri að ég er varla að ná mér. Ég stend í þeirri meiningu að það sé gott að endurvinna, svona yfir höfuð, og keypti mér þessvegna “nýja” eldhússtóla (ekki þennan á myndinni samt) um daginn. Þeir eru vel notaðir og þurfa á málningu og smá andlitslyftingu að halda. Undir fótunum á þeim er einhverskonar málmhnappur sem býr til mikinn hávaða  þegar við setjumst og stöndum upp frá borðinu.  Þessvegna hef ég í hyggju að prjóna þessa fádæma flottu húsgagna fætur en uppskriftin er eftir konu sem heitir Harpa og ef ég skil vefsíðuna hennar rétt þá er hún rithöfundur.

Enn og aftur eru allar þessar uppskriftir á ensku, en til þess að komast í gegnum þær gætirðu nýtt þér hekl og prjóna þýðingarnar hér á síðunni.

*Myndir í þessari færslu koma frá höfundum uppskriftanna.