Ég er svo heppin að fá að fara eins oft og ég vil að æfa yoga, í rými með öðrum sem æfa líka yoga. Í yogasalnum er enginn dómari hvorki innra með mér né í öðrum. Og engir speglar. Ekki að mér finnist eins og ég vilji ekki sjá mig í spegli, ég er ýkt hot, ég meina svo ekki sé ýtt undir útlitsdýrkun.

Í yogasalnum má Ég vera. Ertu að ná þessari setningu? Ég má vera. Ég, með stórum staf, í þeirri mynd sem ég birtist, hef leyfi til að “vera”. Ekki eins og ég megi vera þarna inni, heldur ég í minni tilvist get verið… þarna inni.

Og það trylltasta við þetta er að í salnum eru aðrir líka, bara að vera í sinni eigin birtingarmynd, í sinni tilvist..- á hreyfingu.

Mér finnst þetta vera eins og ég hafi fundið gull og sé núna rík útaf því að það er bara ekki svo auðfundið í dag að geta verið saman með öðrum, algjörlega maður sjálfur. Strípaður af öllum höftum, sitt sanna sjálf. Hið sanna sjálf!! Eruði búin að finna það? Það er tilfinning sem er engu lík.

Sannarlega frelsandi.