Daginn í dag, daginn í dag gerði drottinn guð, gerði drottinn guð… það er alveg rétt, engum öðrum hefði dottið í hug að mannfólkið kynni að búa til lyftur í blokkunum sínum. Það bjargaði því að ég þurfti ekki að skúra niður tröppurnar frá fjórðu hæð og niður drullu og sand og sand og drullu.
Þau fóru út börnin og hringdu svo dyrasímanum og sögðust vera skítug. Ég sagði þeim að fara úr yfirhöfnunum úti og skilja þær eftir…SKILJA ÞÆR EFTIR. Þau hafa misheyrt eitthvað, þau drógu draslið inn, þvoðu í leiðinni rúðuna á útidyrahurðinni, inn í lyftuna þar sem allir takkarnir og spegillinn upp að því sem þau ná var útatað, ég þurfti að moka af lyftugólfinu.
Gólfið fyrir framan okkar hurð sem og hurðin og dyrabjallan voru líka brún. Ég sendi þau inn í sturtuna svo þau gætu farið úr sokkunum og því sem enn var í mold. Svo lét ég þau hafa tuskur og sendi þau út á gang að þvo. Þeim fannst það ekkert leiðinlegt, og sulluðu bara meira.
Hvers á ég að gjalda eiginlega? Númm, ég mátti að sjálfsögðu fara nokkrar ferðir upp og niður í lyftunni meðan liðið “þvoði” baðherbergið… það var alveg “tandurhreint” þegar ég var búin að skúra í blokkinni og vera skömmuð af einhverjum útlending sem nefndi eitthvað um að ég ætti næst að nota toilettið. Ég sendi honum fingurinn í laumi.
Ég hef ekki verið með fjölyrði um jólin en þau fóru mjög skemmtilega fram. Allir voru rólegir og enginn réðst á pakkana og tætti þá í sundur. Þau langaði örugglega en sáu trúlega fyrir sér að þau yrðu skömmuð rækilega.
 IMG_7780

Ég veit ekki hvert Sindri ætlaði , það hlítur að hafa verið langt, með tvær töskur og allt. Ég veit heldur ekki hvað Sunneva hafði í hyggju, mögulega að veita honum eftirför hvert sem það var sem hann ætlaði.

IMG_7785

Og svo byrjaði pakkakvöldið. Þau fengu Latabæjar húfur og svo margt fleira, lestir, skrímsli, bækur, föt, barbí, bratz, krókódíl, bíla og þetta var dásamlegt. Við höfum bara upplifað yfirgengið pakkaflóð þar sem aðeins sést í toppinn á trénu sem hefur alltaf verið hærra en ég (og ég er stærst á heimilinu). Í ár var þetta akkúrat passlegt, allir fengu sitt og allir voru glaðir og enginn fór yfir um.

IMG_7789

Bóndinn stjórnaði upptöku pakkanna og gerði það eins og hann hefði tekið kúrs í stjórnun. Hann eldaði líka jólamatinn sem var dásamlegur. Það er eins og hann kunni ekki að elda illa, annað en ég, óhúsmóðirin.

IMG_7797
Ég fékk (eða við Bóndi) púsl af evrópu og púsl af Íslandi. Mér fannst það gaman og er nú búin að púsla evrópu púslið tvisvar. Talandi um Ísland þá spurði Gummi á gamlársdag afhverju við ætluðum ekki að skjóta neinu upp. Rolurnar við keyptum engar ggrrraagettur. Ég sagði að ég vissi ekkert um það og Bóndinn sagði að það væri bara öðruvísi í Danmörku…bara að klóra sig útúr of erfiðum spurningum erfingjanna. Þá sagði Gummi ” en við erum Íslendingar, við getum gert hvað sem við viljum” er þetta ekki flott setning??

IMG_7877
Svona var ég hress á aðfangadagskvöld, alveg steindauð í sófanum af þreytu eftir alla geðveikina í búðinni. Sindri var líka hress, hann vildi ekki sofa í sínu rúmi og plantaði sér þarna.
IMG_7837
Þarna er Svali minn. Í úlpu með húfu og bíl sem hann fékk í jólagjöf. Hann er líka í jólfötunum sem samanstanda af skyrtu og buxum sem eru þröngar niður, er það ekki skemmtilegt. Þegar við fórum í jólafatainnkaupaleiðangu fyrir jólin fórum við í HM vini vors og blóma og skiptum þar liði. Við píkurnar fórum í stelpu deildina og Sunna valdi sér kjól og typpin fóru í strákadeildina og Bóndinn valdi töffaraföt á strákana. Mikið er gott að hann gerði það, ég hefði örugglega keypt á þá bangsimongalla.

IMG_7862

Bryndís og co komu í heimsókn eins og ég hafði skrifað hér einhversstaðar. Þarna eru hún og Bóndinn að leika ég veit ekki hvað.

IMG_7864

Hinrik vissi ekkert hvað þau voru að gera. Við átum ekki allt nammið sem er á borðinu og í skápunum mínum og drukkum ekki allt gosið sem var á svölunum.

IMG_7869

Þarna er ég sjálf að leika einhver ósköp. Bóndinn sagðist aldrei hafa séð þennan svip á mér áður…ég veit ekki á hvað hann er alltaf að horfa en það er greinilega ekki ég. Ég set þennan svip upp á hverjum degi.. .

IMG_7870

Bryndís vissi alltaf hvað ég var að leika og ég vissi alltaf hvað hún var að leika. Strákarnir svindluðu hinsvegar og úrslit leika voru alltaf á þá leið að þeir unnu. Með naumindum þó.

Addi var hér og var að taka rúmið hans Sindra með sér. Við gerðum breytingar í herbergjum krakkanna og fengum fyrir þau hærri rúm heldur en þau voru með og nú sitja þau við sitthvort skrifborðið og dundasér. Sindri fékk þá annað rúmið þeirra og á núna smá herbergi undir því. Hann var súper glaður með það og beið ekki boðanna að pissa þar inni á mottuna til að merkja sér svæðið. Annars er hann að verða stór blessaður, 2 ára á hinn. Merkilegt hvað þetta líður hratt.

Fyrir tveimur árum þá sat ég bambólétt í Tommelilla sófanum mínum á efri hæð Háagerðis á Hvammstanga. Ég var svo feit að ég horfði á sjónvarp allan sólarhringinn. Ég var of kringlótt til að fara niður stigann nema bara þegar náttúran kallaði og ég var of mikil blaðra til að leggjast útaf til að sofa. Þannig að ég horfði á sjónvarpið og prjónaði. Ég var á seinni sokknum, átti bara tána eftir þegar Svali barði að dyrum og ég hef ekki snert prjóna síðan.

Margt hefur gerst og ef það er ekki tími til að líta yfir farinn veg akkúrat á áramótum þá veit ég ekki hvað. Við höfum í gegnum okkar tíð, átt 3 börn, átt Þinghúsið, átt Háagerði, átt hvort annað, átt glaða daga og átt súra daga, selt Þinghúsið, selt Háagerði og flutt til Reykjavíkur aftur, borgað svívirðilega háa leigu og selt allt steini léttara og flutt búferlum til Danaveldis.

Ég hef á þessum árum tekið um 35 einingar í fjarnámi (alltaf á leiðinni að fá mér hvíta húfu…) lært skrifstofutækni, farið í framhaldsskóla, sótt um hönnunar háskóla, æft mig og æft á flautuna og farið með Sindra á brjóstinu í próf í Reykjavík og samt fékk ég 9, sem ku vera ágætt. Ég hef gert mistök og Bóndinn hefur gert mistök, þau hafa verið leiðrétt og saman erum við einstök.

Eftir að við fluttum til Kaupmannahafnar höfum við eignast góða vini og enn betra samband við vora fjölskyldu, þá datt ég í lukkupottinn í tónlistaskólanum, ég klárað með sóma nám mitt við Iðnskólann í vetur og fékk fínar umsagnir, afhverju þeir láta mig ekki bara hafa stúdentsprófið veit ég ekki… við höfum öll stigið svo oft út fyrir þæginda hringinn á þessum síðustu árum að það liggur við að óþægindin séu orðin þægileg, how about that!! Fleira dúndur skemmtilegt er í farvatninu og kemur það í ljós seinna (nei við erum ekki að fara að gifta okkur né að eiga fleiri börn).

Maður verður stundum svo meir.