Í tilefni af því að ég gerði stólpagrín að samborgurum mínum sem þeysa um götur Reykjavíkurborgar í neofrenhjólagalla, í  hágulu vesti frá vegagerðinni og hjóla eins og þeir séu í Tour De France, lenti ég í óþarfa í morgun.

Ég var á leiðinni frá morgunyogaæfingunni og í vinnuna og ákvað að mér til bæði tímasparnaðar og af forvitni að fara í 10 11 og kaupa mér smoothie á Ginger sem er svona boost og hollustumatarbar. Ég valdi mér ávaxtasmúþí sem ég beið í alveg heilar 15 mínútur eftir. Smúþþíinn kostaði ekki nema tæpar 800 krónur (andskotans verðlag) og þegar ég kom úr búðinni og smakkaði hann, vara hann, mér til mikilla vonbrigða, ekki með annað bragð en appelsínubrassa bragð. Það var auðvitað fullt af öðru stöffi í honum, engifertæjur og berjakorn.

Ég smellti slæma smúþðíinum í körfuna ásamt hinu sem ég keypti í 10 11 og brenndi af stað. Í töffaraskap mínum og mikilli yfirlætiskennd ákvað ég að stytta mér leið niður grasbrekku, sem ég gerði. Ekki vildi betur til en að lokið fór af herra smúþðí og hann lak yfir alla körfuna, framdekkið og buxurnar mínar.

Ég í einhverju örvæntingarkasti yfir að hafa misst kúlið á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar, þar sem umferð er gríðarleg á þessum tíma sólarhrings, bæði bílandi og hjólandi núna þar sem fyrsti dagur í átakinu Hjólað í vinnuna er í dag, reyndi ég að festa lokið aftur á, svona til að minnka skaðann.

Ég varð auðvitað öll útí smúðí og stoppaði til að reyna að eiga við þetta. Brá á það ráð að þurrka af höndunum í grasið, gleymdi því svo í sekúndu og sleikti á mér puttana.

Númm, með munninn fullan af sandi, klístraðar hendur og hjól útatað í bleikri ávaxtahræru skundaði ég á einu bensínstöðina í bænum sem ekki er með þvottaplan. Drengurinn þar var að vísu rosa vinalegur og lánaði mér vatn í flösku svo ég gat skolað af reiðskjótanum.

Svona kemur bara fyrir fólk sem gerir grín að öðrum.