Það er nú bara dauðaþögn hérna inni alla daga. Þvílíkt drep. Á myndinni er Bína að fara með sinn eigins dúkkuvagn með dúkkunni sinni í, sem í daglegu tali er kölluð Beibí, út í búð. Hún nennti auðvitað ekki að labba alla leiðina með bévítans dúkkuvagninn (heyra mátti, ef hlustað var mjög vel að við bæði, þá ég og Eiginmaðurinn, blótuðum duglega í huganum) og urðum við þessvegna að halda á honum.

En þú veist, barnið biður og barnið fær.

Ef ég á að vera hreinskilin, þá fer það bara svo í taugarnar á mér að engin myndavél sem ég á tekur góðar myndir lengur. Nema stóra, en ég er kannski ekki alltaf í stuði til þess að draga hana með mér. Sérðu það ekki fyrir þér? ég með barn í kerru, klárir vita að kona þarf að nota báðar hendur til að keyra kerru. Svo ásamt því að keyra kerruna yrði ég að halda á dúkkuvagningum og um leið passa að Beibí muni ekki detta úr honum (annars myndi heimurinn hrynja og við myndum aldrei heyra endan á því) og um leið og ég keyrði kerru, héldi á dúkkuvagni og passaði að dúkkan myndi ekki detta úr, væri ég með stóra myndavél um hálsinn. Þetta er reiknings dæmi sem fyrir mér gengur ekki upp.

Þannig ég vil að síminn minn, sem hvílir bara í veskinu mínu (já dúkkuvagn, dúkka, myndavél OG veski ásamt því að keyra kerruna) eða vasanum, svo ótrúlega handhægur að grípa, vippa upp og smella af, virki eðlilega og taki kristaltærar myndir.

Annars gengur allt bara vel hérna megin. Haustið kom með látum og ég fékk samstundis vetrarþunglyndi og svakalegan þurrk á ennið. Það var eiginlega það slæmt að kona sem ég hitti, sem er læknir, hélt jafnvel að ég væri með Psoriasis. Já takk fyrir nei.

Ég rauk í Matas (einskonar snyrtivöru apótek). Það er nú bara svo merkilegt að ég get tjáð mig hér á blogginu alveg reiprennandi og við Eiginmanninn og þá sem ég þekki best – og farið mikinn, en um leið og það á að fara og tala t.d við konu í snyrtivörubúð kikkar inn eitthvað ótrúlegt óöryggi.

Það er nefnilega þannig, að þó ég sé orðin 37 ára þá hef ég aldrei verið eins óörugg með sjálfa mig – eða það er reyndar lygi, þetta er eitthvað bara svo ótrúlega hávært núna. ER ÞAÐ EKKI BARA  FO***** ÓTRÚLEGT!!??! Já, menn og konur. Hér fer ég bara úr fötunum og opinbera eigið óöryggi. Ég (eða Egóið sem ég er andsetin af) er haldin afmynduðum hugsunum um eigið útlit. Þessar hugsanir eru boðflennu hugsanir af verstu gerð.

Ég er að vakna upp (á daginn samt) við að Egóið er alveg bara “djöööööö ertu ógeðslega ólöguleg og með rass eins og á svíni”, “dísEEEEEsss! hvaða vömb er þetta eiginlega, lafandi yfir buxnastrenginn og ef þú situr upp við skrifborðið þá liggur vömbin þar.. og talandi um að vömb liggi þá liggur hún við hliðina á þér þegar þú sefur.. eða reynir að vera eitthvað á skeiðvellinum”, “hver heldurðu að þú sért? .. þú getur ekki farið út um hússins dyr verandi eins og þú ert, messið þitt, og farðu svo í ræktina, auminginn þinn!”.

Þetta er ekki fallegt krakkar mínir. Mér finnst þetta ekkert í alvöru sko, alls ekki. Ég er með og hef alltaf verið með öfundsverðan rass. Rass sem hefur verið flautað á, rass sem Eiginmaðurinn elskar og rass sem er það góður að ég get setið á honum daglangt án þess að fá illt í hann.

Hvað varðar vömbina þá er hún svona því ég hef átt FJÖGUR börn. Þarf ekki að útskýra það neitt nánar. Hef hinsvegar þessa spurningu: Afhverju er Egóið svona truflað yfir því að á líkama mínum séu ummerki þess að hafa bætt í heiminn börnum? Hvaðan kemur þetta eiginlega?

Aftur að ferðinni í Matas, þar sem ég fór inn reyndar bara venjuleg en kom út vitandi ekkert í minn haus. Þetta var ekki einusinni rosalegt.

Ég fór þarna inn og spurði á ensku, því ég mundi ekki orðin á dönsku, hvort hún ætti krem á mig því það væri hreinlega eitthvað að gerast á andlitinu á mér. Ég var ómáluð, þá lít ég alltaf svolítið út fyrir að vera vofa.

Hún hélt kannski að ég væri í alvörunni vofa, öll svona grá en samt ógeðslega sveitt því ég var að hjóla, því það kom fát á hana og hún einhvernveginn setti puttann upp að munnvikinu (svona eins og í teiknimyndum þegar karakter hugsar og svo stuttu síðar kveinkar á ljósaperu) og sneri sér svo við og vildi endilega bjóða mér krem frá Lancome sem kostaði 750 danskar (15000 isk). Ó hana auma. Hún vissi ekki að ég er ekki snyrtivörudesperate og hef í raun og veru ekki trú á kremum eða mjókkunarpillum eða neinu öðru “heimasölu-heilsu-læknandi” nema ilmkjarnaolíum, alóvera beint af plöntunni og vatni.

Ég bað hana vinsamlega að beina mér eitthvað annað því ég hafði ekki hugsað mér að greiða 75% af þúsundkalli í eina litla kremdós. Og svo er ég á móti öllu sem heitir frægt snyrtivörumerki. Eftir smá þóf lagði ég til að hún myndi benda mér á vörur sem ég hafði keypt áður. Hún silaðist þangað og ég endaði með að velja mér krem og rakamaska sem á að sofa með.

Glöggir sjá að það gerðist ekkert merkilegt inní búðinni annað en að ég vissi hvað ég vildi ekki og keypti síðan það sem ég vissi að virkar, en samt, á einhvern undraverðan máta náði samtalið við stelpugreyið að láta mér líða eins og ég væri svo ótrúlega ljót og asnaleg.

Ég þarf ábyggilega að fá teina, beysli (ósælla minninga) og góm fyrir hausinn á mér. Hugarréttingar. Egóréttingar.

Meira þvaðrið.

kremada-kerlingin

Þarna er ég búin að setja á mig maskann sem síðan kom í ljós að lagaði á mér andlitið. Lekkert. Og þetta á að sofa með. Engan skal undra að Eiginmaðurinn hleypti út litlum píkuskræk (af kurteisi við mig, annars hefði hann sennilega hoppað í buxurnar og skóna og hlaupið út) af hræðslu þegar hann rétt opnaði augun. Hryllileg sjón.. hehe, myrkur, eiginkonan gráhvít í framan en samt glansandi.. kannski búin að slefa, liggur pottþétt á hliðinni þannig að andlitið er allt krumpað. Aldrei með fléttu á nóttunni þannig að hárið steig trylltan dans á koddanum í kringum alltof stóran hausinn..

Hefði verið betra ef ég hefði haft bara áfram þögn? Voru þetta ekki góðar pælingar? Er ekki samt allt betra heldur en kosningaþvaðrið og uppþotið yfir launahækkunum stjórnmálamanna? Ef þú vilt í alvörunni losna við það allt úr hausnum á þér þá er kannski gott að lesa nokkra pósta hér inni eða byrja að syngja lagið Pósturinn Páll, því það yfirskrifar allt sem fyrir var í hugsanakeðjunni…og kötturinn Njaaaaáll.