Við fórum í búðina sem aldrei fyrr við Örverpi. Hann er leynilegur útsendari Peningaeyðslupúkans og notar lúmskustu ráð sem ég hef heyrt sögur fara af til að þóknast þessum púka. Hann á auðvitað takmarkað fé sjálfur svo hann verður að toga í hvaða spotta sem hann nær í, þeir heldur ekkert það margir, enda er hann ekki það hár í loftinu, til að hann verði ekki rekinn úr starfi sínu hjá púkanum. Ég veit ekki hvað það er ætlast til að hann skili miklu inn á mánuði en mig grunar að það geti verið alveg dágóð upphæð.

Að  minnstakosti fórum við  inní búðina og komum út með allt annað en til stóð. Þið þekkið þetta kannski og ættuð að athuga ykkar eigin börn eða ykkur sjálf hvort þið séuð nokkuð með útsendara jafnvel inná ykkar eigins heimili eins og við erum hér.

Það er reyndar erfitt að trúa því að hann sé einhver útsendari sem bara vill komast í veskið hjá manni. Sjáiði bara hvað hann er sætur og blæs svona margar flottar sápukúlur OG svo sakleysislega. En það er samt satt! Hann er útsendari og beitti öllum sínum ráðum í búðinni í gær. Fyrst vildi hann fá bara að skoða dótið. Þá vildi hann endilega fá svona dómaraflautu. Ég sagði nei. Þá setti hann upp hundaaugun og ég sagði nei. Þá setti hann á sig fýlusvipinn og sagðist ÆTLA að fá svona, ég sagði nei. Þá sagði hann að allir hinir ættu svona, ég sagði nei. Þá sagðist hann aldrei hafa prófað svona dýrindis flautu, ég sagði nei. Þá fór hann að frekjast og tók bara eitt stykki og henti í körfuna. Ég sagði nei.. en nú var svo komið að ég vissi í rauninni ekki alveg hvað ég vildi vera lengur að segja nei í búðinni og vildi fara að koma mér af stað heim, enda alveg að kúka í buxurnar.

Ekki fékkst dýrið til að koma með.

Ég sagði að hann gæti næst (meinti einhverntíma á næstu 15 árum) þegar við færum í búðina tekið sinn pening með og þá mætti hann kaupa svona, hann sagði nei. Ég sagði að hann gæti kannski fengið þetta í jólagjöf, hann sagði nei. Ég sagði að NÚ væri ég að fara heim og hann yrði að koma með, hann sagði nei. Ég sagði, OK, þá er ég bara farin og lullaði af stað til að sýna honum að mér væri alvara, hann sagði nei og lét sig hverfa á bak við dótið, til að sýna að honum væri líka alvara!

Leiðast tók mér þófið og ég gerði síðustu tilraun (nota bene orðin frekar pirruð og ekki alveg í standi til rökhugsunar með rökstuðningi) til að fá hann heim og sagði (mér til mikillar undrunar) OK Örverpi (já.. glætan að ég segji það bara við hann í búðinni, ég sagði auðvitað nafnið hans) þú mátt fá hérna sápukúlur (AFHVERJU??.. ekki eins og það séu ekki til kabilljón sápukúluglös hér) og svo komum við heim (þetta sagt með það mikilli festu að minnstu munaði að stíflan við syðri endann brysti). Mér til augnabliks léttis sagði hann allt í lagi og kom með ólund nær mér. Það sem ég sá ekki þegar hann kom nær og ég búin að láta sápukúluglasið í körfuna, að hann hélt ennþá á fjandans flautunni og hófst þá leikur aftur. Mér er oft spurn hvor er þrjóskari ég eða hann..

Endaði samt þannig að ég gafst upp  og sagðist vera farin og fór alla leið að kexinu og faldi mig þar. Hann skilaði flautunni og við röltum heim með heitan pott á svalirnar… satt.

Það eru bara höfðingjar sem vilja fá að fara alsberir í heitapottinn og sitja í þessari stellingu á meðan þeir gera hverja tilraunina á fætur annarri við að gera stærri og stærri sápukúlur.

Bauð systur sinni í pottinn og blésu þau kúlur saman. Það var stuð, eða það held ég, en ég leið útaf blá í framan eftir uppblástur pottsins.

Við urðum sammála um það að ekkert barnanna sem komin eru heim hafi orðið hugurmorða á Íslandi. Þau eru alveg vel í holdum eftir þessa frábæru ferð. Við urðum líka sammála um að upplitið á þessari hafi aðeins breyst, hvort það eru risastóru tennurnar sem hún er komin með eða hvort hún bara þroskaðist og stækkaði svona mikið í þennan mánuð sem við ekkert sáum hana veit ég ekki.

Hún er sumsé komin með sérherbergi. Sindri var svakalega fúll þegar hann komst að því að hann ætti að vera með hinum elsta í herbergi og spurði afhverju herra frumburður gæti ekki bara verið frammi á svæðinu milli herbergja og klósetts, það er um það bil 1 fermeter.

Þeir verða samt saman þeir bræður og hófst ég handa þegar Yfir-Pabbi hafði yfirgefið landið á föstudaginn í síðustu viku. Ég er annáluð öfgamanneskja í öllu sem ég tek mér fyrir hendur, hvort það er of eða van ræðst á stundinni. Í þetta skiptið var það of og réðst ég á alla íbúðina og breytti og bætti og henti rusli í tonnatali.

Á einhverjum tímapunkti leit þetta svona út.

Þetta er þá allt næstum komið í gagnið, erum aðeins að bíða eftir rúmi fyrir Hitt Fíbblið og svona eitthvað en aðal tiltektin og breytingarnar tóku hvorki meira né minna en 3 daga. Ég henti án gríns 6 ruslapokum af óþarfa dóti héðan. Aðallega í formi pappírs og þannig hluta að hingað til hef ég ekki hent þeim heldur vandlega troðið þeim í einhverja kassa (já ég fór um ALLT) eða inní einhverja skápa og þar hefur það kannski legið síðan ég flutti hingað inn, en það var fyrir rétt tæplega nákvæmlega 2 árum síðan.