Hér var náttúrulega Halloween eins og annarsstaðar í heiminum. Við erum ekki óvön að halda uppá þá hátíð og krakkalingarnir vita alveg hvað það er. Eldri tvö forðuðu sér inní herbergi og neituðu að taka þátt í hvorki einu né neinu en yngri tvö voru hæst ánægð með leika. Sérstaklega sá eldri af tveimur yngri, enda var partý í félagsmiðstöðinni og bekkjarpartý nokkrum dögum síðar.

Ræðum aðeins bekkjarpartýið, bara vegna þess að ég var eitt af foreldrunum sem sá um að skipuleggja það. Hugmyndin kom upp fyrir þónokkru síðan sem er ekki óeðlilegt en öll skipulagning um hver átti að koma með hvað og almennt bara hvað átti að gera gerðist bara í skilaboðum á Facebook daginn áður.. já og sama dag.

Þetta er kannski ekki furðulegt fyrir almennan Íslending sem ekki hefur búið í Danaveldi þar sem klukkan slær öðruvísi. Þar, þegar haldinn var hittingur var það náttúrulega ákveðið með 24 vikna fyrirvara, þú rekur augun í að ég tala um vikur en það er einmitt það sem Daninn gerir, talar og telur í vikum. Þegar búið hefði verið að ákveða dagsetningu hefði verið sent út boðskort og þar á eftir haldnir alveg nokkrir fundir til þess að skipuleggja atburðinn, allt skeggrætt í steik og jafnvel haldin lýðræðiskosning.

Ég var alveg að fíla þetta hér um daginn. Bara kviss bang búmm og komið partý. Allt þarf ekki að gerast hægt og flýtirinn sem býr innra með mér er að dansa af ánægju yfir því.

Herforinginn fékk leðurblökuálfa-búning. Hún spurði hvort hún ætti að vera sæt á myndinni…

Vetur.

Ég held hann sé kominn. Það var rok í gær, sem er nýlunda m.v síðustu nokkra mánuði. Náttúrulega er það í sjálfu sér nýlundan, að það hafi verið svona mikið og lengi logn hérna en þú veist.. ég var ekki hoppandi glöð yfir því. Í morgun var snjór og snjókoma í Hrútafirði en ekki í Miðfirði, Herforingjanum litla til mikilla vonbrigða. Hún vildi að það væri snjór.

Já sorry að ég tala svona mikið um veður. Ég get ekkert að því gert að ég sé dóttir föður míns. Við spáum í veður og erum með fruntalegt lyktarskyn.

Þau eru svo “kjú” eins og hún sjálf segir. Hundspottið er samt svo frekur við hana, veit greinilega að hún er minnst. Og já.. hann hefur fengið að vera í sófanum, hann var svo lítill þegar hann kom fyrst og svo sætur að það fór alveg með okkur.

 

Fyrir svona tveimur vikum fórum við uppí Hvamm í gönguferð. Þetta er auðvitað minnsti skógur á Íslandi en það er svo gott fyrir mig að hafa hann þarna. Ég virka mikið betur ef ég get komist útí skóg. Og bara ótrúlega fallegt í Hvamminum. Ég vil eiginlega búa þar.

Ég hugsa að það sé Hvammsá sem rennur í gegnum þennan dal.. dalur? er þetta dalur? Ég veit því miður þá ekki hvað hann heitir.

Eiginmaðurinn og börnin í miðri skógræktinni. SJáðu bara hvað þessi tré eru dugleg miðað við allt norðanrokið. Það eru svona barrtré inná Hvammstanga og þau eru bara með greinar og barr sunnan megin..

Fyndið til þess að hugsa hvað maður getur átt ólík börn. Úngmennið verður allur alveg trylltur þegar hann kemst í svona víðáttu og náttúru en bróðir hans dettur í alveg svakalega rólegan gír.

 Hundurinn að sjálfsögðu með.

Allt er annars bara gott að frétta. Jólin nálgast eins og óð fluga. Ég er búin að kaupa alveg nokkrar gjafir og verð því að gefa mér amk 2 prik í kladdann.

Hvað með prjónastassið mitt og allt sem var í hillunni sem ég ætlaði að gera eitthvað úr, kannt þú að vera að velta fyrir þér. Ég get hér með róað huga yðar með því að segja þér að prjónað hefur verið úr stassinu og skápadótið hefur verið notað, þ.e því sem ekki rann út á meðan verkefninu stóð. Ég hef meira að segja fyllt á skápadótið aftur, ætlaði náttúrulega ekki almennilega að gera það en er alltaf á leiðinni í átak og ef kona er í átaki þá verður hún að eiga allskonar svona skápadót.