Búin að taka til í tölvunni og þvílíkt magn af digitölsku drasli. Þvílík mengun. Annaðhvort seinbúin jólahreingerning eða mjög svo snemmbúin vorhreingerning.

Um daginn var ég að versla og tók eftir því að veskið sem ég hef notað síðustu 4 árin fyrir formúu mína og persónuleg plastkort var að molna niður á afgreiðsluborðið.

Veskið alveg að detta í sundur

Allt í köku. Þetta fína leður (not) að molna af.

Ekki úr vegi að þessi peningapúngur fái andlitslyftingu.

taka veskið í sundur

Ég hélt upphaflega að ég væri að fara að taka bara allt veskið af rennilásnum og búa til nýtt við lásinn. Þarf varla að taka fram að ég heklaði nýja andlitið á veskið. Kom í ljós, sem ég hafði ekki áttað mig á, þegar ég var búin að spretta ysta laginu af að innan í veskinu var alveg stráheilt fóður áfast rennilásnum.

Ég ákvað þá að hekla bara utanum það.

Sauma lítil spor í kring

Þá saumaði ég lítil spor, með litlu millibili hringinn í kringum rennilásinn.

Hekla keðjulykkjur hringinn

Tók svo upp keðjulykkur allan hringinn. Þurfti að byrja nokkrum sinnum og get staðfest að með svona bómullargarn sem teygist akkúrat ekkert, verður maður að gera mjög laust, s.s stórar lykkjur.

Hófst þá barningurinn við að hekla niður.. já eða erða upp eftir veskinu. Fyrst heklaði ég nú bara þannig að rangan snéri út, svo ég rakti upp.

Ætlaði síðan upphaflega að hekla bara fastapinna allan tímann, hafa það frekar þétt bara.

Fastapinnar allan hringinn.. gekk ekki svo vel

Kom þá í ljós, útaf því hvernig rennilásinn liggur að ég hefði verið komin niður að botni á hliðunum löngu áður en ég hefði verið komin niður í miðjunni. Fór þá útí að gera tilraunir á því hvaða aðferð ég gæti notað til að fá þetta beint sem fyrst.

  • Fyrst prufaði ég að snúa við og hafa stuttar umferðir innanum. Það kom ekki vel út.
  • Þá prufaði ég að hekla hálfa stuðla í miðjunni báðum megin. Það var heldur ekki flott.
  • Átti eitthvað erfitt með að fjarlægjast upphaflegu hugmyndina um að hafa bara fastapinna og prufaði að auka út í miðjunni og taka úr í hliðunum í von um að kraftaverk myndi gerast. Ekkert kraftaverk enn.
  • Gafst þá upp og neyddist til að opna hugann aðeins. Fór þá leið að hekla eina eða tvær umferðir fastapinna og byrjaði svo að setja stuðla í miðjuna og fastapinna á hliðunum.

Næstum tilbúið

Það gekk vel að hafa stuðlana til að ná hæð þannig að ég setti t.d eina stuðlaumferð, svo kannski eina hálfstuðla umferð. Þá gerði ég líka stuðla í kross og endaði með því að hafa botninn bara með fastapinnum.

Hélt að þetta yrði verkefni sem tæki eitt kvöld en ég held að ég hafi setið yfir þessu í 4 daga, enda rakti ég upp held ég 6 sinnum. Hvað maður gerir ekki fyrir veskið sitt.

tilbúið veski

Þá endaði þetta sirka svona. Mér fannst ekki fallegur kanturinn við rennilásinn svo ég heklaði annan ofaná í öðrum lit. Bleika bandið þarna er að mig minnir vinaband sem eitthvert barnanna gerði handa mér. Það var auðvitað alltof lítið á mig og ég festi það einhverntíma við veskið. Tími ekki að taka það af :)

Á meðan ég var að hamra þennan póst inn situr sá Fagri og heklar. Hann lærði að gera loftlykkjukeðju í gær og er núna að vinna að því að gera lengstu loftlykkjukeðju jarðar. Hann verður 8 ára á morgun og ekki verra fyrir hann að kunna að hekla til að róa sig niður á milli þess sem hann hlakkar til jóla, áramóta og svo afmælisdagsins.