Og líka eina kvef ársins. Að öllu venjulegu fæ ég ekki veikindi. Það er helst í desember, svona þegar líða fer á hann, að ég fái veikindi. 22.desember hefur verið vinsæll í gegnum árin. Eitthvað fyrr á ferðinni í ár. Ég á hræðilega bágt. Ég veit reyndar að samkvæmt venju verður þetta búið á morgun, ég legg ekki í vana minn að leggjast í langvarandi flensur eða annað ógeð. En í dag og síðastliðna nótt leið mér eins og það væri verið að toga andlitið á mér af og tennurnar líka. Ó mig auma! Eins gott að Friends voru framleiddir, svo ég geti horft mig í gegnum sársaukan.

Vælin?.. ehhh.. þú veist, þegar maður verður ekki oft veikur af þessu tagi, þá er þetta bara erfitt.

Og það eru margir veikir, ég sé hor leka úr öðruhvoru nefi. Enda kalt, dimmt og allir búnir á því. Gott að það er að koma jólafrí.

Þarf aðeins að þusa yfir því þegar fólk mætir veikt til vinnu. Mér finnst það sko aldeilis engin fjandans  hetjudáð (ég er ekki að meina þar sem fólk er neytt til að mæta til vinnu sama hvað ástandið er). Mér finnst það hinn argasti dónaskapur og ókurteisi og tillitsleysi við náungann. Fyrir utan tillitsleysið við eigin líkama. Hvaða andskoti er það að mæta spúandi hori og öðrum óbjóði yfir meðvinnara sína? Mér finnst svoleiðis bera merki um að fólk heldur að það sé ómissandi já og jafnvel hefur leynda þörf fyrir viðurkenningu fyrir duglegheit og fórnfýsi. Eins og það sé að vinna í því að á grafsteininn verði ritað: “Jón Jónsson, dó duglegur”.  Ég vil að það verði ritað á minn “Skrítin, elskaði sjálfa sig”.  Maður getur reyndar elskað bæði sjálfan sig og aðra, svo ég legg til að orðinu sjálfselska fái hreinlega breytta þýðingu í íslenskir tungu.

Ég púa á svona. Get ímyndað mér að flensur af flestu tagi myndu kannski ekki breiðast svona svakalega út ef fólk myndi bara vera heima hjá sér um stund, rétt á meðan þetta er sem verst.