Það eru tveir hlutir sem ég bara get ekki gert. Hef oft reynt og það hefur aldrei farið vel.  Það er s.s að sauma út og bora í vegg.

Auðvitað vil ég alls ekki viðurkenna að þar sé eitthvað sem ég get ekki gert, en verksummerki eru sjáanleg.. ég get ekki annað en viðurkennt veikleika minn.

Ég er í brýnni þörf fyrir að fá boraða og neglda upp hluti. Auðvitað kann ég að negla en það er bara öðruvísi þegar veggirnir virðast vera úr gulli,  þannig að maður verður að vera með þykk öryggisgleraugu þegar maður neglir svo ekki verði hætta á því að fá naglafjandann í augað þegar hann síðan brotnar og spýtist úr veggnum.

Ég fór áðan kotroskin og með rokkstjörnustælana (eða voru það kannski..ég er að bugast og ætla að leggjast svo lágt að biðja um hjálp stælarnir) í Byko og bað um skrúfur, tappa og bor fyrir það sem ég ætla að hengja upp. Sem er vírsnúra til að getað dregið fyrir risastóra skeiðvöllinn okkar sem vegna plássleysis er í stofunni.

Ætla sem sagt að skipta stofunni í tvennt. Ekki misskilja, þetta er ekkert eins og frímerkið margumtalaða, en það er ótrúlega misjafnt hvernig raðast í íbúðir, það verður bara að segjast.

Nú, ég keypti hráefnið og gerði tvær tilraunir til að bora og verð núna að fara útí Byko aftur til að kaupa spartl og biðja pabba að hjálpa mér. Aldrei getur maður verið þrjátíu og eitthvað og bara kunnað hlutina. Fuss.

Hef sett stofuskiptingarferlið á hold þar til pabbi kemst að hjálpa mér , það er mér auðvitað þvert um geð, því ég vil þetta tjald upp ekki seinna en áðan.

Snéri mér að öðru. Ætla að hengja ljós upp í eldhúsinu. Ljósin keypti ég í Indiska (ein af mínum uppáhalds búðum) í Svíþjóð og maður hengir þau bara uppá króka í loftinu. Fór í gegnum óreiðuna sem verkfærataskan er og fann tvo króka.

Reyndi fyrst að skrúfa þá með berum höndum uppí loftið.

Reyndi næst að finna samsvarandi bor en hann var ekki finnanlegur.

Reyndi þá, og hér kemur ný aðferð, að negla fyrir krókunum. Já, s.s ég negldi nagla uppí loftið til að greiða veginn fyrir króknum. Það virkaði heldur ekki, eða ég gat skrúfað hann upp, en þá kom hann bara út aftur og með hálft loftið með sér.

Gafst þá upp.

Afhverju er ekki bara allt úr tré og málið er dautt?

Ég hef fyrir löngu lagt útsauminn á hilluna, hann liggur þar ennþá allur í flækju.