Ég er ennþá að hugsa um hana sem ætlar að elda fyrir bara 20.000 og nota max 30.000 á viku fyrir fjóra. Fyrst verð ég að taka fram að mér varð á tölulegur misskilningur á síðu velferðarráðuneytisins. Þ.e hún er að reikna með bara tölunni sem þar stendur sem á að fara í mat, þá passa tölurnar í síðasta pósti mínum ekki alveg. Breytir ekki miklu samt.

Afhverju gat ég ekki bara verið fagmanneskja í samgleði og bara fagnað þessari frábæru kynsystur minni þegar hún ætlaði að uppfylla drauma sína um að verða hagsýnni húsmóðir og elda meira, sem hún ku vera mjög áhugasöm um?

Afþví að þegar maður hefur ótta, vanmátt og önnur almenn óþægindi gagnvart einhverju þá á maður alveg pípandi erfitt með að samgleðjast. Sjáðu bara allt fólkið sem er að rífa sig í kommentakerfinu á DV og á fleiri stöðum, það hlýtur að vera með allskonar ótta, vanmátt og óþægindi.

Nú. Ég hef hinsvegar haft uppi drauma um það sama og þessi ágæta kona. Mér finnst reyndar ekkert gaman að elda og hef ekki heldur mikla ánægju af því að borða. Ég myndi, ef það biðist, taka pillu ef hún gerði mig vel nærða og sadda. En minn draumur hefur einmitt lengi verið að kaupa skipulega inn og gera einmitt bæði matseðil og innkaupalista.

Ég hef prufað þetta og alltaf gefist upp. Einusinni, þegar við vorum úti, gerði ég lista fyrir heilan mánuð og verslaði allt með lengri dagsetningu fyrir allan mánuðinn og það sem var með styttra geymsluþol fyrir eina viku í senn. Svo var planið að kaupa einusinni í viku allt sem vantaði sem hafði styttra geymsluþol. Ég get sagt þér að þetta virkaði alls ekki fyrir mig. Ég hafði lesið um einhverja snilldar konuna sem sagði að svona innkaup hefðu gert þvílík kraftaverk fyrir fjárhaginn, þá að fara eina hlussustóra búðarferð í byrjun mánaðar og láta það svo bara duga.

Ég held meira að segja að ég eigi ennþá stöff sem ég keypti í þessari ferð, eða í þeirri næstu, því ég var ekki alveg á því að gefast upp og prufaði aftur næsta mánuð þar á eftir. DON’T DO IT!

Þá ákvað ég að gera bara fyrir viku í senn. Það gefst mun betur. Þægindin við þetta er líka að það er alveg gjörsamlega búið að útrýma hausverknum sem dúkkar upp kl. 17 og allir að verða svangir en enginn búnn að versla inn né fá hugmynd um hvað gæti verið í matinn. Vandinn er alltaf að svo stoppa ég alltaf, einn daginn sem vantar að gera plan, þá nenni ég því ekki og þá er það búið.

Ég hlýt samt að geta gert þetta eins og aðrir. Og þá geri ég tilraun númer 7001. Ég ætla að gera eins og Eygló og halda blogg utan um hvað ég ætla að hafa í matinn og hvað ég kaupi inn.

Já, ég ætla í alvöru að gerast ein enn konan sem heldur úti matar einhverju. Ertu að átta þig hvað það eru margar konur komnar með einhverskonar síðu, blogg eða facebook síðu þar sem dúndrað er út uppskriftum af millimáli, morgunmat og hollu laugardagsnammi fyrir börnin. Ég er reyndar með slíkt og þvílíkt ofnæmi orðið fyrir öllu þessum þessum matarátroðningi að ég er í alvörunni hrædd um, þegar ég hef feitan hamborgara í matinn, sem er ekki gerður úr sojakjöti, speltbrauði og einhverri kasjúhnetudrullu í staðinn fyrir hamborgarsósu, að matareftirlitið og barnaverndarnefnd muni banka uppá  hjá mér og taka mig fasta fyrir heimilisofbeldi.

Við ræddum þetta við Eiginmaðurinn og ákváðum að þriðjudagar skyldu vera búðardagar og að við myndum hafa fisk 2 í viku, alvöru kjöt (hehe) einusinni í viku og súpu einusinni í viku. Annað ætti að vera grænmetis eða bara eitthvað. Við nennum ekki að eltast við allt lífrænt, beint frá býli eða allt íslenskt. Ég geri það þegar ég er orðin svo hátt launuð að ég borga ekki einusinni skatt. Ekki að mig langi ekki.. þú veist!

Fyrsta vikan eða þessi sem byrjar núna, nær hinsvegar frá í dag og þar til á þriðjudaginn eftir viku. Við ætlum ekki bara einusinni í búð. Það hefur aldrei gengið. Ísskápurinn okkar er ekki svo stór og við erum ekki ennþá komin með frystikistu (þá veistu það, mig vanar frystikistu/skáp) að það komist í hann allt sem þarf fyrir vikuna. NÚMM! Þannig við förum eina stóra og stökkvum svo eftir mjólk og þannig smotteríi.

(vá hvað þetta er að verða langur póstur..)

Ég ætla heldur ekki að gera mér markmið um að gera þetta út árið. Ég ætla að byrja á því að gera þetta fyrir þessa fyrstu viku. Ég er svo óregluleg að það eru góðar líkur á að ég verði í fýlu á næsta mánudag þegar þarf að gera matarplan og eða sé “of ólétt” á þriðjudaginn til að fara útí búð.

Ég ætla að setja matseðlana í sér póst og innkaupalistana líka.