Ég fékk áhugaverða spurningu um daginn. Hún var skrifuð á pappír og ég hef kosið að kalla þetta að ég hafi fengið lesenda bréf. Ég er náttúrulega meistari í lífinu sjálfu og ekkert furðulegt að þetta hafi verið fyrsta lesenda bréfið mitt.. væntanlega af svakalega mörgum.

Eða kannski var þetta meira vangavelta en spurning. Reyndar var þetta vangavelta sem ég velti sjálf vöngum yfir oft á tíðum. Sennilega oft á dag. En þetta er einmitt vangaveltan um það hvenær erum við nógu góð? Hverju þarf ég að breyta til að verða betri ? Hvenær verð ég sátt?

Þroski er óumflýgjanlegur (ég skrifaði óumflíanlegur fyrst.. er ég að þroskast afturá bak?? jesús) og ég er þeirrar skoðunar að þegar ég þroskast þá hætta hinar og þessar aðferðir sem ég hef notað að virka. Aðferðir í samskiptum, aðferðir í hugsun og aðferðir til þess gerðar að lifa af. Þannig að þegar ég er kannski á milljón í að framkvæma einhverjar gamlar og (mis)góðar gloríur sem eru algjörlega hættar að virka í mínu lífi, þá myndast í mér þessi þörf fyrir að breyta hvernig ég haga mér. En veit ég hvað það er sem þarf að breyta? Nei. Aldeilis ekki og reynslan (ó þú mikli kennari) segir mér að ég eiginlega fatta ekki eða skil ekki hvaða hegðunarmynstur ég þurfti að uppræta fyrr en það hefur verið upprætt fyrir mig af lífinu sjálfu eða æðri mætti (þú ræður hvernig þú lítur á það).

En hvað það er sem gerir akkúrat mig að minni útgáfu af betri manneskju er hinsvegar ekki endilega það sama og gerir bestu útgáfuna af þér. Hvar mínir brestir liggja veit ég svosum alveg sjálf og ef þú veist ekki hvar þínir liggja þá þarftu aldeilis að fara að pilla laukinn! Það er inn að skoða sjálfan sig í dag, ekki vera leim!

En að efni póstsins sem er sú staðreynd að ég, hæstsett Bústýra, fékk lesendabréf! ..djók.

Í bréfinu var samt vangavelta um hversu óþægilegt það er að vera að gera endalausar tilraunir, alltaf í fullum vilja, til þess að breyta einhverju í sér eða hjá sér til hins betra og vera hreint alltaf að mistakast. Ég get eiginlega ekki skrifað það þannig að það skiljist nógu vel hvað ég skil vel hvað það getur verið niðurdrepandi og svona..ehh, eins og maður hafi verið rændur að innan, að vera að gera endalausar tilraunir til betrunar og virðist eins og ekkert gangi.

En hver á að dæma hvort um mistök er að ræða? Hver dæmir hvort um velgengni er að ræða eða ekki? Það hlýtur að vera ég sem er dómarinn í því máli, þetta er jú mitt mál. Þarna koma hinir ný-lærðu eiginleikar mínir inn, en það er einmitt að hugsa hvað markmiðin eru. Svona í alvöru, hvað er markmiðið? Hver vil ég vera? Hverju vil ég hafa áorkað þegar ég leggst á koddann minn…leimmér að umorða þessa síðustu setningu: Hvað þarf ég að gera til þess að vera ekki með hamrandi samviskubit,þegar ég leggst á koddann minn?

Uppá síðkastið, eða síðan í janúar á þessu ári hef ég verið að hugsa mikið um markmið og að setja mér markmið. Taktu eftir að ég segi “hugsa”. Ég hef ekki beinlínis framkvæmt neitt, annað en að hugsa um þetta. Kannski tekur svaka tíma að hugsa fyrst upp hvað á að vera markmiðið, hvað veit ég, ég hef ekki verið að þessu áður. Og útaf því að ég veit það ekki þá hef ég farið í gegnum svona sirka 10 (einn í mánuði) niðurtúra yfir því hversu dúndrandi mislukkuð ég er að geta ekki einusinni grafið upp eitt skíta markmið yfir það hvernig ég vil vera. En kannski einmitt tekur það bara svona langan tíma. Kannski þarf ég að láta svona gerjast svaka lengi og kannski ætti ég bara að cool it og leyfa þessu að koma til mín.

En planið er að skrifa hver markmiðin eru. Svo, undir hvert markmið ætla ég að gera lista yfir það hvað mun verða til þess að ég nái markmiðum mínum og undir hvert atriði á hverjum lista undir hverju markmiði ætla ég að gera annan lista yfir hvað ég þarf að gera til þess að láta hvert atriði verða að veruleika… og ef með þarf, mun ég gera enn einn lista þar undir.

Ég ætla líka að ákveða hvenær, þ.e við hvaða aðstæður ég á velgengni að fagna og hvenær ég ætti að segja mér að girða mig í brók, bretta upp ermarnar, spýta í lófana og taka mig saman í andlitinu. Það er krúsjal að setja sér síðan þannig markmið að það sé hægt að ná þeim. Markmiðalistinn minn er sveigjanlegur og ég má breyta honum, ég á hann.

Mér finnst sko ekki að maður eigi bara að leyfa sér allt því maður  ætlar svakalega mikið ekki að vera að berja sig í hausinn fyrir að gera mistök, ég held að maður eigi að fyrirgefa sér og síðan gera áætlunarmarkmiðalista yfir hvernig maður ætlar að forðast sömu mistökin aftur.

Hljómar þvingað og ónáttúrulegt að vera að gera svona mikið plan? Ætti þetta að vera svona skrambi erfitt og flókið? Afhverju kemur þetta ekki bara til manns án átaka?

Á þessum tímum þar sem vinna, stofnanir og metorðastiginn hefur hertekið fjölskyldulífið og frítímann er bara nauðsynlegt að plana svona. Ekkert (nánast) kemur án átaka og já það er skrambi erfitt og flókið að breyta áratugagömlu hegðunarmynstri. Það gerist bara ekki á einni mínútu. Ég veit ekki afhverju ekkert kemur til manneskjunnar án átaka, ég veit heldur ekki afhverju það virðist vera auðveldara að framkvæma ekki en að framkvæma, þó svo að manni líði betur við að framkvæma.

Þannig að ég held að lausnin við því að finnast maður alltaf vera lúser sé að plana velgengni sína og auðvitað vera til staðar fyrir sjálfan sig.

Hallilúja.