Skap mitt í dag líkist veðrinu í dag. Fyrir því eru margar ástæður, alvöru og líka bara eitthvað drasl. Maður verður að vera í fúluskapi suma daga, annað gengur nú ekki. Og ekki ætla ég að ætlast til þess af sjálfri mér að vera organdi hress alla daga.. held ég myndi bara fæla fólk frá mér.

En að allt öðru. Ég er lifandi sönnun þess að peningar gera fólk ekki hamingjusamt. Tilefnið þessarar yfirlýsingar er að ég er hamingjusöm þó ég eigi ekki bót fyrir boruna í fé talið. Ef ég ætti alvöru fé, gæti ég allavega fengið lánaða spotta af því og prjónað bót fyrir gatið.. en þú veist, það er ekki 1812 heldur 2012.

Af því tilefni, að það er 2012 ætla ég aðeins að fussa, já eða bara frussa á eina frétt um ákveðinn mann tengdan ákveðnum trúarsöfnuði, sem titlar sig grunnskólakennara. Greinin er hér.. þó það sé tótal tíma og heilasellutortíming að lesa hana. Greinin fjallar um að þessi maður er að dreifa því í börnin á Akureyri að samkynhneigð sé synd. Og ekki bara það heldur telur hann að samkynhneigðir eigi að vera settir bak við lás og slá, eins og ef einn væri bankaræningi.

Þvílík firra og forheimska (ég er að ímynda mér að það þýði einhver sem er alveg útúrruglaður í heila), ég veit ekki betur en Guð vilji algeran, gjörvallan, alltumlykjandi kærleik, fyrir alla. Og það er lærdómurinn, að elska alla, dæma engann (ekki heldur fyrr en maður hefur gengið í þess sporum sem á að dæma.. ENGINN hefur rétt á að dæma neinn, bara er ótrúlega pirruð á svona “statusum”). Manneskjur elska bara aðrar manneskjur. Téður maður þarf að fara heim og æfa sig í að elska alla, hann hefur svosannarlega ekki neitt (ándskotans, því ég er brjáluð núna) dómaravald. F R U S S.

Ég er eiginlega ekkert í því að lesa blöð, netmiðla eða horfa á sjónvarpsfréttir. Rek náttúrulega augun í eitt og annað á ferð minni yfir daginn. Það er alltí lagi. Ég vel hvort það truflar mig eður ei. Önnur frétt sem ég rakst á núna um daginn og hefur ábyggilega nú þegar verið tekin í rassgatið á netmiðlum, þó dagsetnin blaðsins sem hún er í sé ekki fyrr en á morgun. Það er s.s í Fréttatímanum forsíðufrétt um að Jóhanna Sigurðardóttir fái nú 235.000 kr hærri heildargreiðslur frá því í fyrra eða eitthvað svoleiðis.

Aftur vil ég þakka Jóhönnu fyrir að vinna vinnuna sína, fara framúr á morgnana (þegar það er eflaust girnilegra fyrir þreyttan og að verða gamlan kropp að kúra uppí hjá elskuhuganum og bara.. ræða daginn og veginn eða gróðursetja blóm), tannbursta sig fyrir okkur og klæðast forkunnarfögrum fötum fyrir framan augun á okkur. Þó að ég hafi allavegana 235.000 krónum minna í kaup á mánuði en Jóhanna myndi ég ekki vilja skipta við hana. Ég myndi sko ekki vilja vera hún, eða eiga peningana sem hún fær í sínu lífi. OJ. Mér finnst hún ekki bera það með sér að vera hamingjusöm. Skilja svona fáir að það er mikilvægara og meira áríðandi að vera hamingjusamur en eiga pening?