Það orðið ljóst að ég er ekki partýdýr, ekki hrókur alls fagnaðar og eiginlega frekar melankólísk mannvera sem finnst flest allt erfitt. Mér getur þótt erfitt að fara útí búð og fleiri aldeilis venjulegir hlutir. Ég held að einhverstaðar á leiðinni hafi ég týnt sálfri mér, ég held nefnilega að ég hafi ekki alltaf verið svona. Eða þetta er árstíðarbundið, hvernig ég er ekki búin að átta mig á því hvort akkúrat þetta hugarástand er að dúkka upp í hverjum desember er mér ofviða að skilja, ég hef verið með viti í fleiri áratugi!

Ég er ekkert pípandi hrifin af þessum árstíma. Fyrir því eru nokkrar ástæður.

  • Það er kalt, rok og rigning. Frost og bráðum snjór. Það gerir að húðin mín verður öll krumpuð og þurr og springur. Við höfum margrætt þetta krakkar mínir. Engar nýjar fréttir. Í þessum töluðu er ég með svona 1600 örsár á höndunum. Þau svíða.
  • Það er flensutíð. Flensutíð og almenn veikindatíð. Ég er ekkert fyrir veikindi. Mér finnst veikindi eitt það mest fráhrindandi í heiminum. Ég myndi sennilega fyrr vera fáanleg til að marséra um með byssu og vera hermaður í stríði í Fjarskanistan heldur en að hjúkra fólki með upp og niðurgangspest. Ég fer útúr mér af hræðslu.

    Bóndinn er búinn að vera veikur síðan á fimmtudag. Hann sem er aldrei veikur.. eða varða ég. Hann hefur hor og slen og heyrir takmarkað með öðru eyranu. Það er kannski gott fyrir hann því ég er versta hjúkka í heimi. Mín viðbrögð við því að stoð mín og stytta leggist í rúmið með hita eru að vera viðskotaill og fúl. Hann verður að gera allt fyrir sig sjálfur. Við erum ekki gift með “in sickness and in health, for better or worse” að leiðarljósi. Hann vissi reyndar að hverju hann gekk þegar hann sagði já, hann vissi að hann myndi þurfa að hjúkra mér ef hann sjálfur yrði veikur. Ég er að hugga mig við að hann sé þá sáttur við þetta hátterni mitt, svona í og með að vera með samviskubit yfir því.

  • Það eru að koma jól. Margir elska jólin. Hvort fólk er að elska jólin því það fær að skreita heima hjá sér, útaf því að það er samverutíð, það eru jólaseríur í myrkrinu,  það er frí í vinnunni, það má reikna með að fá pakka eða útaf því að það er opinbert leyfi fyrir því að éta yfir sig af öllu því sem gott þykir, gildir einu. Hvað sem það er þá er frábært að fólk elskar jólin. Ég er hinsvegar ekkert fyrir þessa hátíð. Ekki frekar en ég er fyrir börn yfir höfuð. Sem kann einmitt að hljóma furðulegt þar sem ég á fjögur. Ég er auðvitað fyrir mín börn fattarðu, en ég myndi sennilega dauð liggja áður en mér tækist að ráða mig á leikskóla, verða dagmamma eða kennari.

    En aftur að því að ég er ekki fyrir jólin. Í staðinn fyrir að fyllast gleði, kátínu og eftirvæntingu fyllist ég af söknuði, einhverskonar fleiri sorgar- og eftirsjártilfinningum og verð einmana. Kannski ekki mest töff að segjast ekki digga jólin og vera bara súr og einmana, en þannig er það nú samt bara hjá mér núna. Það þarf ekkert að vorkenna mér yfir því, ég veit að það eru fleiri þarna úti sem finnst jólin strembinn tími. Fyrir mér er þetta bara svona og mig hefur oft langað að tala um það, kannski hef ég meira að segja gert það, man það bara ekki.

    Ég hef grun um að skilnaður foreldra minna (fyrir hárri herrans tíð) hafi ennþá áhrif á hvernig mér líður á þessum árstíma. Já, líka þó ég sé hálf sjötug og eigi hlussustóra fjölskyldu sjálf og hafi í mörg horn að líta. Maður hættir bara aldrei að vera barn foreldra sinna. Þau eru alltaf fólkið sem ég myndi vilja hringja í þegar ég á bágt (ef ég vissi ekki að ég myndi byrja strax að hágrenja þá myndi ég sennilega alltaf hringja, en ég er með svo stórt egó að ég geri það ekki, ég verð ekki þekkt fyrir að grenja í símann, svo ég hringi bara ekkert). Ég er ekki bitur útí mömmu mína og pabba fyrir að hafa skilið, ég hef fullan skilning á því. Ég veit að allir eru að gera sitt besta á hverjum tímapunkti fyrir sig, ég líka, þau líka, þú líka. Og það er bara fínt fyrir alla að vita að allir gera allt fyrir einhverja ástæðu og ekki annarra að dæma.

    Við erum bara svo mörg skilnaðarbörnin að ég veit aldrei hvort ég hafi rétt á þessum tilfinningum, þú veist, þetta kemur fyrir svo marga og allir lifa þetta af. Þetta er pínulítið eins og að pissa á sig þegar maður er hættur að vera með bleiu, það kemur fyrir marga, er svaka leiðinlegt, en svo gleymist það, en svo man maður alltaf hversu ferleg tilfinning það var.

    Ég syrgi kannski þá hugmynd um að eiga mömmu og pabba sem ennþá búa saman og ég og mín fjölskylda gætum farið þangað í heimsókn og kannski eytt þar aðfangadagskvöldi eða eitthvað. Kannski svipað og ég man eftir í æsku þegar við flykktumst alveg í hópum (mamma á mörg systkini) á Breiða (Breiðabólstað), í sveitina til ömmu og afa og þar voru ALLIR.

  • Að upptalningunni: þetta er líka tíminn sem ég, eins og fleiri nota til þess að skoða árið sem er að líða og byrja að hugsa upp allar aðgerðirnar sem ég ætla að innleiða til þess að enda næsta ár ekki í volæði yfir því hve illa mér hefur tekist til við að uppfylla allar mínar kröfur um bætt líferni frá árinu áður. Yfirlitið er bara ekkert svo upplífgandi finnst mér núna. Ég held ég þurfi að fara til sjálfsálitslæknis. Eða til markmiðasettningakennara. Eða í frí á Krít.
  • Það er myrkur. Svo mikið myrkur að þó ég sé stödd í fyrirheitnalandinu þá er hér samt komið myrkur um klukkan 16. Það er hræðilega leiðinlegt. Kannski ER eins gott að það má setja allskonar aukaljós upp um þessar mundir. Annars myndi ég að öllum líkindum leggjast undir feld og koma ekki undan fyrr en ég fyndi lykt af fyrsta slætti.

Upptalningunni er þá lokið. Skemmtiefni sem vert er að gefa út ekki satt? Prenta í stórum stíl og dreifa.  En svona í alvöru þá er ekki alltaf allt frábært og æðislegt og písoffkeik. Lífið er ekki mataruppskrift á matarbloggi, …njótið!

Ég er nú orðin svo bitur útí tilveruna á þessum síðustu og verstu að ég get ekki einusinni tekið sönsum, breytt í hjarta og gert heiðarlega tilraun til að hafa það ágætt.

Bless.

Frú Grinch.