Mér finnst ekki að blogg eigi að vera uppmáluð hamingjan. Eða sko, það er auðvitað æðislegt ef einhver er þannig bara en þú veist, við vitum það öll að lífið er ekki bara dans á rósum. Ef það væri þannig myndi enginn muna tímana tvenna, vera hokinn af reynslu eða hafa bætt gráu oní svart. Þá væri hin íslenska tunga bara eitthvað rugl, ef lífið væri bara dans á rósum.

Anywho. Ég fylgi fullt af bloggum og alltaf þegar ég les þau og sé að hver einasti póstur er um tóma hamingju og alla dásamlegu hlutina sem eru að gerast og hversdagsleikinn bara svoleiðis ljómar í endalausu sólskini, þá fæ ég alltaf leiðindi því hvorki lítur mitt blogg út fyrir að hér séu alltaf bestu sumardagarnir né er líf mitt þannig.

Þannig að mér finnst eiginlega, nú þegar ég veit að fólk á bak við nokkur blogg (ef ekki mörg) er bara að búa til fagra ímynd af sér, samt bara fyrir sjálfan sig, það er jú bara hending að þarna eru fullt af lesendum..?…mér finnst s.s að þau blogg séu orðin ferlega leiðinleg. Maður getur bara eitt smá tíma í að öfunda aðra af frábæru lífi í gegnum bloggið þeirra.

En hinsvegar hef ég tekið eftir því að nokkuð  margir bloggarar hafa farið í frí og koma aftur með færslur með innihald á borð við  ” þetta var orðið of persónulegt”, “við getum ekki deilt öllum pörtum af okkar lífi”, ” við vorum/erum á viðkvæmum stað”… þessu hef ég líka pælt í. Þú veist, hverju vil ég deila og hvað vill ég hafa fyrir mig og get ég haft eitthvað fyrir mig? Jás.. auðvitað get ég haft fullt fyrir mig. Eins gott líka að ég rugla stundum hér.

Það virðist vera að í lífi hvers bloggara (já við erum alþjóðfélagslegur hópur sem taka þarf tillit til), þá lífi hans á internetinu, að komi að því að hann verður að vera persónulegur í meiri dýpt heldur en kannski áður. Myndir af endalausum svalablómapottum eru yfirborðsskrif og það að klifa á því alltaf að dagurinn hafi verið meiriháttar og æðislegur er líka yfirborðs.

Þetta kemur bara svo heim og saman við það sem ég hef verið að hugsa um skömm og að vera viðkvæmur. Viðkvæmni er ekki ókostur. Er ekki að tala um að vera viðkvæmur þannig að það megi ekkert segja eða ekkert koma við mann þá bara er grátur og gnístan og svo marblettur. Nei ég er að tala um staðinn þar sem maður er maður sjálfur. Ekki í sófanum heldur í hjartanu, þann stað, í hjartastað. Þar erum við (að mínu viti) mest viðkvæm og án allrar brynju.

Minn dagur er yfirleitt bland af öllu mögulegu. Ég hef vaknað í rosa dúndri, komið fram og þar er eitthvað að gerast sem verður til þess að ég missi gargið á börnin mín, sem verður til þess að ég kenni Eiginmanninum um ófarir mínar í hitteðfyrra og er mega hissa að hann viti ekkert um hvað ég er að rausa. Þá fer ég í fýlu og tala ekki við nokkurn mann í óákveðinn tíma. Svo annað hvort lekur af mér fýlan og ég kemst í hið fínasta skap, næ að njóta mín og hafa það frábært en þá kannski dúkka upp allskonar áhyggjur af hinu og þessu og ég dett í að þrífa á ýktum hraða til að hrista þær af mér. Nú þá er kannski kominn tími á að fara út og þar er svona líka gullfallegt veður og ég fæ innblástur um æði margt og langar að drífa mig inn og framkvæma alla þá hluti. En þar eru aftur börnin fyrir og tjá mér jafnvel að ég sé leiðinleg, þau hati mig og enginn nennir að hjálpa Litlu Gulu hænunni.. sem er rosalega mikill sjálfsvorkunnarpúki. Það yrði nú kannski leiðinlegt ef ég bloggaði um allt sem dúkkar upp í hausnum á mér, en þú veist, ég er að meina að hlutirnir verða að vera ekta.

Svona getur þetta gengið. Við erum heppin að vera heilshraust og svona þannig að þegar á heildarmyndina er litið þá eigum við ekki erfitt. En enginn býr á bleika skýinu, það er bara gert til þess að leysast upp í rigningu. Bleik rigning.

Hallilúja.