Ég vissi það.. alvarleg munnræpa!

Nú um uppalenda hlutverkið.

Reyndar var það ekkert þannig í Planinu að þeir sem geta átt börn hafi átt að ala börnin upp einir og sjálfir. Það var í Planinu þannig að hinir eldri áttu að hjálpa til við að ala upp börnin. Skýringin er einföld, því við erum ennþá börn þegar við getum átt börn. Það er, líkaminn er nógu þroskaður til að ala börn en hugurinn ekki til þess að ala þau upp.

Þannig er nefnilega með manneskjuna að hún er barn þar til um 40 til 50 ára. Ef þú pælir aðeins í því þá meikar það fullkominn sens. Og þetta er fullkomin uppskrift af því að mannkynið ali af sér  þróaðara mannkyn. Nú er ég ekki að meina að þróaðara mannkyn sem “getur” meira, t.d í læknavísindum eða tækni eða neinu svoleiðis öðru.

Það er víst svoleiðis að fólk er betur búið að átta sig á sjálfu sér og tilgangi sínum hér á Jörðinni, þegar það er einmitt orðið eldra en 50 ára, plús mínus 10 ár kannski. Kannastu ekki við það? T.d þegar ég var tvítug þá, miðað við núna, vissi ég ekki rass í bala. Taldi náttúrulega að ég vissi allt en maður lifandi hvað ég hef komist að allt öðru. Núna þegar ég er þrítug ímynda ég mér bara, að ég verði búin að komast að einhverju mun viðameiru heldur en ég hef fengið að komast að núna, þegar ég er orðin fertug. Ég þekki sjálfa mig betur, ég nýt mín betur og Ég veit meira.

Spáðu aðeins í þessu reiknisdæmi:

Þeir sem eru eldri og eru búnir að “fatta” ýmsa hluti, t.d um hvað það er sem skiptir í raun og veru máli og hvað ekki og svona ýmislegt sem ég get ekkert sagt beint til um því ég er ekki orðin það gömul, s.s að þeir muni hjálpa börnum sínum að ala upp þeirra börn. Þá mun það fara þannig að hinir eldri munu deila með ungviðinu visku sinni. Ungviðið mun taka þeirra visku með sér inní sitt líf og byggja á henni. Úr þessu verður til þróaðri einstaklingur, sem síðan, þegar hans tími kemur getur gefið sínum barnabörnum margra ára þróaða visku. Ertu að skilja að þetta virkar þannig að fyrsti veit ekkert, en það sem hann kemst það, deilir hann með næsta og næsti byrjar þá með að vita það og bætir við það því sem hann kemst að og þriðji byggir á því og svo þar fram eftir götunum.

Það þarf ekki að vera þannig að allir byrji á reit eitt. Það gæti verið þannig að þegar við erum alin upp af þeim sem vita betur að við komum til með að byrja jafnvel á reit 10! Það er óþarfi að hjakka í sama hjólfarinu. Það gefur okkur ekkert, í heildina litið, ef allir þurfa alltaf að fara í gegnum það sama, þá komumst við aldrei neitt áfram- þá er kannski ekki furða að margt ferst okkur ekki vel, margt sem við gerum er óeðlilegt því við vitum aldrei betur. Þú veist, nú er ég að tala um “okkur” sem mannkyn.

Það sem ég er í raun og veru að velta fyrir mér líka er hvernig það varð þannig að við erum í flestum tilfellum bara sjálf og ein. Nánasta blóðfjölskyldan orðin fjarlæg og við látum okkur minna varða hvað er í gangi hjá öðru fólki. Ég er ekki að segja að ég sé alltaf að athuga hvað er í gangi allstaðar, ég er bara að velta fyrir mér hvenær það varð þannig að í staðinn fyrir að hafa það “allir fyrir einn og einn fyrir alla”,  þá er það “ég fyrir mig” í afar mörgum tilfellum, og í raun og veru er þetta eitt af hinum klikkuðu “normum” sem hafa verið sett á laggirnar af hræddum einstaklingum, að allir eigi að berjast bara fyrir sjálfan sig og ekki gefa neitt með sér, ekki hleypa neinum inn og ekki sýna neina veikleika (sem btw eru ábyggilega ekkert veikleikar heldur bara eðlilegar tilfinningar).

Hvaða FJANDANS norm er það að halda því fram að manneskjan, sem er tilfinningavera, sem t.d arfi er ekki (..svo ég viti, þó ég viti að plöntur og allt í rauninni bregst við kærleika), megi ekki hafa tilfinningar. Afhverju má tilfinningavera (mannvera) ekki hafa tilfninningar? Er það ekki tilverubrot? Það væri eins og að segja “blóm! EKKI blómstra”.

Mér er svo oft spurn.