Þrálátar sögur um að mitt heittelskaða fyrrverandi eiginmannsefni hafi verið með píu í fyrsta skiptið eftir fráslitin ýttu mér til þess að spyrja hann hvort það væri satt.

Það var satt…

Þetta var það sem ég hafði hræðst mest. Getur vel verið að einhverjum finnist að ég hafi átt að hræðast eitthvað annað mest en svona var þetta nú.

Viðbrögð mín voru ótrúleg..vægast sagt ótrúleg. Fyrst fékk ég bara black out, vissi ekkert hvað var að gerast fyrir framan mig. Við erum að tala um mínútur hér, ekki neina daga. Og þá varð ég ótrúúúúlega reið..já og svo sár, og meðferðis því varð ég mega abbó. Og það versta var að rassinn á mér tók að stækka og verða siginn og þvottapokakenndur.. bæði í útliti og áferð.

Mér fannst ég neydd til að hringja í manninn í tíma og ótíma til að láta hann segja mér að ég væri ennþá númer eitt, tvö og sjöhundruð. Vinkonurnar fengu aldeilis að kenna á því og ég er næsta viss um að msn var um það bil að fara að rukka mig fyrir hvað ég pikkaði þar mikið af væli.

Ungpían er gullfalleg og líka ung… U N G. Afhverju fer þetta svona í taugarnar á mér að einhver sé ungur. Var ég ekki að segja að ég væri ekki gömul og þá hlýt ég bara að vera ung… Pían er það falleg að mig langaði líka að vera með henni og svo er hún U N G. Jább… alveg töluverðum fjölda ára yngri en hann. .. og ég.  Ekki með siginn afturenda, ekki með appelsínusúkkulaði læri, ekki með hár alllllstaðar, ekki með eina hrukku, ekki með eina bólu.

Ég var geðveik í svona viku yfir þessu. Mér stóð alls ekki á sama að stelpugreyið væri yfir höfuð til. Ég breyttist hreinlega í eitthvað annað við þessa uppákomu í mínu lífi.

Svo þegar vikan og mesta bilunin var liðin hjá tók ég eftir því að það var ekki hún eða hann sem ég var örg yfir það var ég sjálf og hvaða viðbrögð ég hafði við þessum súru fréttum. Það er skandall að ég hafi dottið oní að finnast ég vera eitthvað minna en dúndrandi frábær á alla kanta (líka afturkantinn) að ég hafi misst í götuna sjálfsálitið og ekki séð úr augunum fyrir tárum yfir óhamingju minni.

Það eina sem ég vill er auðvitað að bæði hann og hún séu 100% hamingjusöm … og ég líka.

Sem betur fer náði ég að skafa sjálfa mig af götunni, setja rassinn í aðhaldssokkabuxurnar og meika yfir hrukkurnar. Mér til sjálfsálitsbóta hef ég hafið aðgerð sem ég kýs að kalla Barþjónn einn, tveir þrír en í henni felst að ég mun vaða inn á alla skemmtistaði Kaupmannahafnar og heilla barþjóninn uppúr skónum. Þetta er alvöru challenge því ég er jú við glas meðan á árásinni stendur. Ég get ekki sagt að ég sé eins fögur í glasi og ekki glasi, þannig að ef mér tekst það í glasi þá hlýt ég að vera yfirnáttúrulega hot. Ég er þegar komin með tvo í safnið og hyggst taka af þeim öllum mynd að ofan … og neðan og hengja síðan upp einhverstaðar þar sem margir sjá.