Drasl svo langt sem augað eygir

Drasl svo langt sem augað eygir

Hélduði kannski að hér væri alltaf allt spikk og span?? Hélduði að drottningin byggi hér við hiðina og að þjónustufólki hennar líkaði svo vel við okkur að það laumaðist yfir í rjáfur til að gera hreint? Nei, það er aldeilis ekkert þjónustu fólk hér, eins og sjá má á þessari mynd. Svona er þetta búið að vera síðan á mánudaginn. Síðan á mánudaginn hafa krakka greyin komið vælandi fram úr herberginu á morgnana..”ég á eeeengin fööÖÖÖÖÖÖööt”. Þar sem við erum jú alltaf á harða snúningi á morgnana þá er þeim skipað í hrúguna á stofugólfinu til að finna sér samstæða sokka. Þvílíkt uppeldi.

Þetta er tilkomið af mikilli geðveikis viku sem líkur vonandi um klukkan 9 í fyrramálið. Á mánudaginn var dagurinn svona: út úr húsi klukkan 7:30 og inn í það aftur klukkan 20:30. Ég var í skólanum og svo spilatíma um kvöldið, ég varð svo tjúnuð að ég gat ekkert sofnað, svo ég sofnaði ekki fyrr en 2 eða 3 og ef það gerist þá vitum við öll að allir yngri en 8 ára vakna með mjög reglulegu millibili til að pissa, drekka, klóra sér eða leita að snuðinu. Nú fyrst ég svaf svona lítið þá heyrði ég ekkert í vekjara klukkunni daginn eftir  og urðum við því sein út. Ég fór úr húsi um 8:30 og aftur inn um 22:00, það var því ég hjólaði í skólann og var þar til 13:30 (tímasetningar eru mikilvægar fyrir þessa sögu) og þá brunaði ég í tónlistaskólann og var þar frá 14:00 til 14:30 ca. og þaðan brunaði ég á Strikið til að skila í eina búð og svo klukkan 15:00 hitti ég Bóndann á Íslandsbryggju og klukkan 15:30 fórum við að sækja og ég fór með Sunnu í ballett kl. 16:00 og þar beið ég eftir henni til 17:00 og við vorum komnar heim um 17:45. Þá grillaði ég samloku (líka mjög mikilvægur þáttur) og var komin aftur í tónslistaksólann klukkan 18:30 og var þar til 19:30 og þá fór ég á fund kl 20:00 og hann var ekki búinn fyrr en að ganga 22:00. Miðvikudagurinn var líka í skólanum að sjálfsögðu og þar var ég til 16:00 og svo fór ég heim og sat við tölvuna til klukkan 01:00, já og þá gat ég heldur ekki sofnað fyrr en 2 og upp aftur klukkan 6:30….

Í dag er ég alveg ótrúlega þreytt, helling eftir að gera við tölvuna þó klukkan sé 22:00 núna …og ég að blogga..hehe. Ég var í skólanum til 14:00, fór þá í foreldraviðtal í bekkinn hennar Sunnevu. Það fyndna við það er að ég sótti Sindra fyrst því svo þurfti ég til læknis og þar sem Bóndinn fór út kl. 7:30 í morgun og er enn ekki kominn heim þá fór skríllinn með mér. Sindri skeit í bleiuna sekúndu áður en ég þurfti inn í viðtalið, ég brá á það snilldar ráð að taka bara af honum bleiuna svo kennararnir myndu ekki kafna úr fílu. Ég skeindi honum með grjóthörðum sparnaðar klósettpappír og svo fórum við inn…svo stóð hann bara við eitt borðið í stofunni og svo heyrði ég kunnuleg hljóð og þegar ég leit við sá ég, mér til mikillar skelfingar að hann var búinn að skíta og míga á sig í buxurnar, ég er ekkert með neinar auka bleiur á mér yfir daginn sko. Númm, það var ekki um annað að ræða en að færa barnið úr brókunum og sokkunum og svo skellti ég honum bara í vaskinn sem þarna er í krakka hæð. Þar stóð hann, í handlaug bekkjarfélaga systursinnar með kúk niður á hæla og fannst ekkert aððí.. hann mátti að vísu ganga ber að neðan yfir á frítíðshjem og í buxum af 7 ára bróður sínum það sem eftir lifði dags..hvað ætli fólk haldi eiginlega um mig hér í Kaupmannahöfn??