LOKSINS! Fyrir ykkur öll, því ég veit að þetta skiptir ykkur rokkna máli, þá get ég loksins greint frá því að minnkun hefur orðið í garnstassinu sem ég átti síðan þarna í nam. Mannstu, ég einsetti mér að gera eitthvað úr því öllu. Mig minnir að það hafi verið í upphafi árs 2016 sem ég hófst handa, svona með því að skrá niður hve mikið ég væri búin með. Kona deyr ekki ráðalaus þegar hún kemst ekki svo mikið í að prjóna. Ég hef ekki getað mínusað nema einhver skitin 100 grömm úr stassinu síðan við fluttum á Ísland, það var fyrir að verða 10 mánuðum síðan.

En, ég er hér komin, ljósberi alls góðs í garnheimum! Ok.. ég hef róað mig niður. Ég þurfti skápapláss fyrir garnið sem ég hef verið að lita og ákvað að selja eitthvað af lopanum. Hvorki meira né minna en 14 kíló af lopa eru núna farin úr skápunum hjá mér. Maður lifandi og konur tifandi. Þvílíkur léttir. Þannig að hin upphaflegu 39 kíló og 650 grömm hafa minnkað um 21 kíló og 838 grömm og eftir eru því 17.812 grömm. Það er náttúrulega ekkert miðað við.. þetta var hin ágætasta vorhreingerning.

Stopult

Það er svo stopult á milli sögustunda hjá mér að hér hefur allur fjandinn verið í gangi síðan ég skreif síðast (jú, mikið rétt, ég er að þróa nýja Íslensku, hvernig líst þér á?). Þvottavélin nýja, með áherslu á nýja, hefur bæði verið biluð í nokkuð marga daga og fengið viðgerð. Ég hef sungið sem mikilvæg bakrödd á rokktónleikum, það var alveg húrrandi gaman. Mikilvægar ákvarðanir um framtíðina hafa verið teknar, þær snúast allar um jarðarber. Það er bjart allan daginn og sumartíminn í Danmörku er kominn. Ein tölvan mín er föst á dönskum tíma. Það er stundum alveg þokkalega þægilegt að líta uppfrá glápinu og súpa kveljur því klukkan er miðnætti, en fatta svo að hún er bara tíu.

Ungfrúin á bænum fór sem hvetjari og stuðningsmaður á Skólahreysti um daginn fyrir að mig minnir skóla á vesturlandi. Gerði Grunnskóli Húnaþings vestra sér ekki lítið fyrir og vann landshlutakeppnina og er kominn áfram í aðalkeppnina. Fruntalega fínir krakkar. Þau eru að síðan að fara í útskriftarferð, við erum með allan fjandan til sölu í því tilefni. Getur litið yfir það á Facebook.

Litli herforinginn er nánast alveg búin að skipta yfir á Íslensku, hefur meira að segja svarað mér á íslensku þegar ég hef talað við hana á dönsku. Hún er alveg mígandi fyndin þessa dagana. Hún telur okkur vera silfurlituð á litin, þá húðliturinn. Þá er hún mikið fyrir törfva og í aumingjans angist orgaði á mig um daginn að hún yrði bara alveg eyrnalaus útaf hávaðanum í blandaranum einn morguninn.

Eiginmaðurinn, hjúkkan

Það er með ólíkindum hversu ólík við Eiginmaður erum. Ef einhver meiðir sig eða verður veikur hér nú eða í 7000km radíus við mig er ég vís með að a) hverfa inní verndarbobbluna mína og koma aldrei út aftur eða b) verða bæði hortug og frek og með eindæmum ósamúðarfull og fráhrindandi. Hann, á hinn bóginn, breytist í Tóta hjúkku. Verður svo mikil hjúkka að það eina sem kemst að er sjúklingurinn og um daginn var það hundurinn.

Við vorum eitthvað að skoða gróðurhúsin sem við verðum með í sumar, um daginn og þar voru alveg dobía af glerbrotum, því það höfðu brotnað töluvert margar í óveðrunum í vetur. Glerbrot bæði innaní og utan við húsin. Við vorum þar s.s og Flóki. Honum var bannað að fara inní húsin útaf öllum glerbrotunum. Afhverju við kveiktum ekki á perunni og settum hann bara inní bíl eða slepptum því að taka hann með er mér óskiljanlegt með öllu. Sara hundurinn hans Jóa bró kom og þau hófu mikil hlaup og kútveltingar útum hvippinn og hvappinn. Það var bara fínt þangað til við tókum eftir að fóturinn á Flóka var alveg rauður. Það alveg fossblæddi úr stærðarinnar sári á því sem ég vil kalla úlnliðinn á honum, s.s ofan við liðamótin að framan á framlöpp. Myndin hér að ofan er tekin af honum í gær, ca 10 dögum eftir að hann skar sig, sárið sést þarna á öðrum framfætinum.

Þegar við tókum eftir þessu stökk Eiginmaðurinn af stað, tók hundinn í fangið, lagði hann niður, sussaði og bíaði hann og hér eftir og þangað til fyrir kannski 3 dögum þá höfum við hin í fjöllunni ekki verið til fyrir honum. Hann talaði við hundinn blíðlega, vafði öllum tiltækum tuskum um sárið, hringdi í dýralækna útum allt land (þeir voru allir of salírólegir.. enda kannski öllu vanir) og keyrði að lokum með hann.. já og okkur hin, heim. Eða fyrst fórum við inná Hvammstanga í von um að kaupa þar sjúkragögn fyrir hunda, þau voru auðvitað ekki til. Þegar heim var komið bar hann hunda inná gólf og lagði hann niður þar…”elsku kallinn minn..”  skipaði mér svo með harðri hendi og valdi að sækja öll tiltæk sárabindi, grisjur, heftiplástur, venjulegan plástur, risastóran glæran plástur, fingurhólk, fingurgrisju, blæðingarstoppara (ekki spyrja), hefti, nál og tvinna og höfuðverkjatöflur. Þær voru ekki fyrir hundinn heldur hann sjálfan, var orðinn svona stífur í öxlunum á því að vera svona mikil hjúkka.

Hann hafði uppi plön um að sauma hundinn sjálfur, fyrst enginn dýralæknir vildi skipta sér af þessu. Þá flaug í gegn að hann gæti kannski heftað sárið. Hér kemur sér vel að ég er kaldlynd og harðbrjósta kona. Þvertók fyrir þetta um leið og ég hélt fyrir augun á mér því mér er lífsins ómögulegt að horfa á svona gapandi sár, fossblæðandi og inn að beini. Hann bjó þá um sárið, fékk lánað joð á bænum fyrir ofan, spreyjaði því yfir hund og öll gólf og skipti svo reglulega um umbúðir. Svaf ekkert fyrstu nóttina af áhyggjum yfir þessu. Hundurinn svaf hinsvegar ágætlega.

Allavegana alla næstu viku leit hann eftir sárinu eins og líf okkar allra lægi við. Hundurinn var aumur og hægur um sig í nokkra daga en þetta er allt að koma núna og Eiginmaðurinn aftur farin að þráhyggjuhugsa hvernig hann getur ræktað svarta tómata í frosti, eins og hann sá í þætti einhverjum.

Þessi maður!