Um síðustu helgi var Bóndinn í fríi. Þær helgar eru töluvert öðruvísi en þegar ég er allsráðandi, ekki að ég sé ekki alltaf allsráðandi, en ég reyni nú að taka tillit til hans þegar hann er heima.

Ég datt í tiltekt, eða ölluheldur sorteringu, og má segja að það sé einskonar hugleiðslu ástand fyrir mig.

Á meðan var Sprengjan í sínum heimi. Með alla liti og blýanta sem hún komst yfir. Var ég búin að segja að hún er ennþá að krota á veggi og ekki bara það heldur líka á húsgögn. Ég skil alveg það að vilja skrifa og framkvæma listaverk á veggi, en mér fer nú bara að verða allri lokið. Eins og ég segi, ég verð alvarlega svekkt ef hún verður ekki að listamanni þegar hún verður stór.

Bóndinn var í sínum heimi…

Og Búnglingurinn í sínum..

Örverpið var þarna líka. En hann á engan svona heim ennþá. Honum finnst betra að droppa við hjá okkur hinum og tékka hvernig það er umhorfs hjá okkur. Og kannski líka hvort hann megi vera með. Hann má það nú yfirleitt blessaður.

Síðasta sunnudag hittumst við, ég og restin af búinu, niðri í bæ. Við gengum Strikið okkur til gamans og niður í Nyhavn. Á Strikinu er stærsti maður heims. Þeim fannst hann gargandi merkilegur.

Hugmynd okkar eldri var, í þessari gögnuferð á fallegum sunnudegi, að við myndum svona lulla áfram, haldast í hendur og þau myndu skottast svona í kring, þakklát fyrir að vera hleypt út úr húsagarðinum. Og í meiralagi glöð yfir að fá að ganga með okkur tveimur fræknu og það niðri í bæ og allt. Við vorum búin að ákveða að fá okkur heitar pönnukökur með súkkulaði og gef þeim líka.

Þessi rómantíska hugmynd vor, varð því miður aldrei að veruleika því eftir um það bil, hvað á ég að segja án þess að ljúga, hálfa mínútu, byrjaði lýðurinn að suða um að fá eitthvað. Skyndi hungur mikið hafði heltekið þau og andsetin af súkkulaði græðgi, þó það væri fallegur og sólríkur sunnudagur, byrjuðu þau að biðja (ætlast til) okkur um súkkulaðipönnuköku. Og þegar það var gengið framhjá þeim bási (því það stóð ekki til að fá eina slíka fyrr en í enda göngunnar), þá var það bakaríisstöff og þegar við tignarlega (það er ein mínúta liðin af göngunni) og ennþá glaðlega gengum fram hjá bakaríinu, komu þau auga á pulsuvagn.

Á annarri mínútu göngunnar vorum við komin niður frá Kaumángaragötu númer 19 niður að Striki. Heldur hafði þykknað í okkur eldri og þau héldu uppteknum hætti og nöldruðu og voru nær dauða en lífi af súkkulaðigræðgi.

Við beygðum til vinstri og gengum í áttina að Nýja torgi kóngsins. Við stoppuðum hjá fyrrnefndum stærsta manni þar sem allir í augnablik voru glaðir (guð blessi stærsta manninn). Eftir að við yfirgáfum hann mundu þau skyndilega eftir því að þau voru víst í rjúkandi fýlu. Hófust leikar aftur. Bústýru brást skap og orgaði ég nokkur vel valin orð að mínu ungviði á miðju Striki. Gott að það eru flestir kínverskir túristar á þessum tíma sólahrings og viku á Strikinu.

Við náðum að hlunkast niður að Nyhavn. Við Bóndi gerðum heiðarlega tilraun til að haldast í hendur og lulla í vetrar sólinni. Það er nú hægara sagt en gert þegar barnafjöldinn heldur ekki gangtakti og sá sem er í mestri fýlu gengur hægar en hægt og annar til hliðar og þriðji vill storka örlögunum og fara með fíflalæti of nálægt kanalnum.

Nú erum við s.s búin að ganga í svona 15 mínútur og ætli það sé ekki rétt áætlað hjá mér að það sé þá um það bil heil klukkustund síðan ormarassgötin átu sig stútfull af hafragraut við eldhúsborðið heima hjá sér. Þrátt fyrir það, voru þau öll orðin að fanga í hræðilegu fangelsi og höfðu hvorki fengið vott né þurrt í fleiri daga.. að minnsta kosti voru magaverkjalýsingarnar þannig og uppgjöfin það mikil að það mætti ætla að það væri satt. Hvað gerir maður ekki til að fá súkkulaðipönnuköku eða pulsu…

Ef vel er  gáð má sjá Búnglinginn í alvöru búnglinga fýlu. Búnglingafýla er engu lík. Hún er svo mikil fýla að við vorum alvarlega að íhuga að annaðhvort skilja hann eftir eða stökkva sjálf í kanalinn.

Samúðardýrið lét ekki á sér standa og hélt bróður sínum félagsskap í ástandinu. Sprengjan var þarna ekki langt undan en hún hafði mestar áhyggjur af því að við myndum í alvörunni skilja þá eftir.

Það þurfti til fleiri vel valin orð frá mínum munni, ásamt hótun um að kalla hann rúsínubollu yfir allan bekkinn næst þegar ég væri þar, að hann gaufaðist af stað með okkur heim, þá Búnglingurinn.

Að þessu sinni var um það bil hálftími á milli hláturs og gráturs og fór allt Félagsbúið heim á leið í urgandi fýlu. Og enginn fékk súkkkulaðipönnuköku.  Það var ekki fyrr en á einum ljósunum að Bóndi lýsti yfir vonbrigðum sínum, því daginn áður höfðum við farið í búðina og leyft dekurdósunum þremur að kaupa sér leikföng. Ég er ekki frá því að það hafi náð til Búnglings, enda var hann, þegar heim var komið, einn sá hjálplegasti og glaðasti Búnglingur sem ég hef séð. Allt var skyndilega ekkert mál. Jebb, búnglingageðstirða..hvað getur maður sagt.

En Köbenhávnskt.

Eða þetta! Ég velti fyrir mér hvernig stiga þau nota til að komast uppá þessi hross.

Við komumst s.s öll heim, heil á húfi, þó að fýlan hafi setið mun lengur í mér heldur en öðrum ábúendum. Þessi mynd er tekin á öðrum degi. En ég setti Sprengjuna þarna bara til að sína hvað Örverpið er orðið stórt. Ég er orðin alveg ringluð þegar ég brýt saman þvott, hver á hvað. Þarna er hann í fötum frá afa Gumma og já, ég er sammála, þau eru  með alveg eins nef. Reyndar eru þau bara mjög lík á þessari mynd.

Sprengjan og nýja hjólið. Þá þetta í staðinn fyrir það sem var stolið. Hún er mjög töff á því.

Annars er ég að fara að spila á tónleikum á eftir. Fór að vinna rétt uppúr sjö í morgun (það er Sunnudagur og ég B manneskja.. þetta endar ekki vel) og er við það að detta út hér. Vonandi verður þetta ekki mjög langur dagur, en þar sem Bóndinn er að vinna þá koma krakkarnir með mér. Vonandi verða þau ekki með búnglingageðstirðu eða súkkulaðigræðgi á meðan. Ég sé fyrir mér að ég yrði að henda þeim öfugum út.

Annað er að ég ætla að safna öllum myndum sem ég hef tekið af þeim í fýlu, sem eru ófáar, þar sem mér finnst þau bæði fyndin og sæt þegar þau eru í fýlu, og setja í albúm sem þau munu fá þegar þau eru orðin foreldrar. Þetta verður sængurgjöfin frá mér til þeirra. Bara til að minna þau á. Hefnigjörn??? Nei.