Ég er ferlega upptekin af tímanum, einfölduðu líferni og skömm þessa dagana.

Tíminn, byrjum á því
Ég er að upplifa ótrúlega þægilega hluti varðandi að vera ekki í kapphlaupi við tímann. Heyrði ég ekki bara á TED ræðu um eitthvað sem kallast slow movement, ræða tileinkuð því að hægja á,  ég er ekki búin að kanna það neitt sérstaklega frekar, en af þessari ræðu að dæma þá fjallar það m.a um að lofa tímanum að líða, bara svona eins og hann er. Svo skemmtilegt þegar maður er svona með á nótunum að þegar eitthvað hefur breyst í lífinu eða viðhorfunum að þá byrjar maður allt í einu að heyra og sjá um akkúrat það. Það er svona heppilegt sönnunargagn á því að maður sé ekki skör (galinn).

Maðurinn sem heldur ræðuna sem ég linka í hér að ofan fer um víðan völl um það að fara sér hægar. En meðal þess sem hann nefnir er að t.d rækta, elda og borða mat á þeim tíma sem tekur að rækta, elda og borða mat. Ekki alltaf vera í leit að skyndilaus, skyndbita. Held að málið sé að lofa, eða leyfa, öllu að gerast á sínum tíma. Ó MEN! Ég er svo að fá uppljómun hérna!

Alltaf þegar ég fæ svona uppljómun og er bara alveg að eipa því mér finnst ég skilja svo vel, þá um leið fæ ég svona sorgartilfinningu, eða saknaðar tilfinningu yfir því að það hafi ekki alltaf verið þannig að ég hafi verið með allt á hreinu. Hverskonar manneskja er það eiginlega sem er ekki að fatta það fyrr en 30 og næstum 5 árum síðar að það er betra að láta tíman bara gera sig eins og hann kemur fyrir? Vera s.s ekki þessi sem er að bíða eftir einhverju á mjög óþreyjufullan máta, ekki þessi sem er alltaf að flýta sér og reka á eftir öðrum, ekki þessi sem gólar á börnin “drífðu þig, drífðu þig”… vera ekki þessi sem getur ekki skilið að það að gera ekkert er líka að gera eitthvað.

Nú, krakkar mínir…ég hef ekki verið þekkt fyrir að lofa tímanum að líða, hef bara meira verið í að pressa á hann og ýta á hann. En undanfarna mánuði hefur eitthvað breyst, það er erfitt fyrir mig að benda á nákvæmlega hvað hefur breyst, en ég er hér bara alveg að njóta þess að njóta tímans, svona eins og hann kemur fyrir hverju sinni. Auðvitað verð ég að hafa eitthvað að gera, þú veist, það er ekkert galli að vera framtakssamur og fylgja hugmyndum frá því að vera bara í loftinu og þangað þar sem þær eru orðnar eitthvað haldbært eða breyting á hugarfari eða aðstæðum. Ég er eiginlega bara leið á því að heyra útundan mér að það sé nú allt of mikill fartur á mér og svoleiðis, þetta hefur allt tilgang.  Það vita allir að það er leiðinlegt að hafa ekkert að gera og ég er hér sko ekki til að hafa það leiðinlegt, ég er hér til að hafa það skemmtilegt og með það sagt, þá er ekki til nein fyrirfram ákveðin leið til að hafa það skemmtilegt. Ég þarf ekkert að framkvæma allt eftir annarra manna kúnstarinnar reglum.

Að tímanum aftur. Maðurinn sem hélt ræðuna, heitir Carl Honoré, ég veit svosem ekkert meira um hann, en hann talaði líka um hve mikil snilld það væri að í mörgum löndum væri búið að leggja niður heimavinnu skólabarna. Hér er engin heimavinna, eða svo lítil að það er kannski eitt eða tvö verkefni í mánuði. Þau eru ekkert eftir á hér í landi.  S.s skólabörn nota tímann eftir skóla í að leika sér og gera og græja annað en bara enn meiri skólavinnu, sem apparentlí er ekki að skila betri niðurstöðum í prófum, heldur meira bara örþreyttum litlum börnum sem nenna ekki meir.

Hann fór líka í það hve mikilvægt það væri að fólk færi að átta sig á því að það væri betra að vinna færri vinnustundir í 100% vinnu á viku. Að þar sem það er gert, hefur komið í ljós að afköstin eru ekki minni, sumstaðar meiri.

Ég er persónulega á nýjum og betri stað hvað svo ótrúlega margt varðar akkúrat núna. Það er frábært! Ég er með eindæmum ánægð með það.

Mér finnst ég vera betri í að vera til og mér finnst ég vera rólegri og stór partur af því er að njóta tímans meðan hann líður. ..og sofa nóg og gera ekki of miklar sjálfskröfur og rækta huga og líkama og, og, og.