Þetta skrifaði ég í júní á þessu ári og var þá ekki viss hvort ég héldi að tilviljanir væru til.

“Oft er ég viss um að ég hafi vitað eitthvað sem myndi gerast. Eins og ég væri skyggn. Ég hafi fundið það á mér.

En núna, þegar mér er orðið ljóst að það er ég sem skapa allt það sem gerist í mínu lífi, þá er augljóst að ég vissi hvað myndi gerast.

Ekkert af því hefði átt að koma mér á óvart og ég er sannarlega ekki skyggn þó ég sé frekar næm. Það er eiginlega verra, ég væri ótrúlega sérstök og kúl ef ég væri skyggn.

Tilviljanir?.. ég veit það ekki. Ekki í samræmi við þá staðreynd að ég skapa allt í eigin lífi.

Hvernig allt sem kemur fyrir í mínu lífi, sem hefur líka með aðrar manneskjur, sem mér koma við, að gera… hvernig það  tvinnast svo saman við það sem aðrir eru að skapa og snerta mitt líf, er ég ekki búin að koma hugsun yfir ennþá.”

Ég hef nú komist að annarri niðurstöðu.

Í fullkomnu samhengi við það sem ég sagði í júní, þá get ég nú upplýst að tilviljanir eru til.

Ef við skoðum dæmið, sem hjá mér hljómar þannig að ég skapa allt sem gerist í mínu lífi og þessvegna er augljóst að ég viti hvað er að fara að gerast. Ég er semsagt ekki skyggn eða með yfirnáttúrulegakrafta (búhú).

Svo ef við skoðum þetta með að vilja til sín það sem maður vill að sé í kringum sig, svona sirka eins og eftir lögmálum The Secret sem er bara enn ein útskýringin á því hvernig þetta virkar í Alheiminum, það er bara af hinu góða að það séu margar útskýringar á því. Þá sjáum við að tilviljanir eru svo sannarlega til. Þær eru einmitt allt sem við viljum til okkar.. til-viljun, vilja-til.

Þannig að tilviljun er ekki eitthvað sem var eitthvað rosalegt súplæs, heldur eitthvað sem er akkúrat andstæðan, eða eitthvað sem við vissum og máttum búast við.

Tilviljun er þannig ekki bara eitthvað sem gerist óvart, heldur meðvitað framtíðarval þeirra sem búa á Jörðinni.

Ég mun hér eftir leggja til að orðið tilviljun verði útskýrt svona í orðabókinni:

Tilviljun: að vilja til sín.