Mér til málsbóta, enn og aftur, er hýfandi mikið að gera í vinnunni. Kristín Guðmunds vefhönnuður er sannarlega á flugi og síðasti mánuður hefur verið brjálaður, eins og menn segja.

Ég læri eitthvað nýtt á hverjum degi við að reka eigið fyrirtæki og síðast og nýjast er: hvernig fer kona í frí frá eigin starfssemi? Á þessum tímapunkti gerir hún það náttúrulega eiginlega ekki en það er mér auðvita til auðveldis að ég vinn í gegnum interfretið og get þessvegna tekið vinnuna með mér hvert sem er.

Ég s.s tók tveggja daga frí þegar pabbi kom og heiðraði oss með nærveru sinni hér fyrr í júní og svo aftur núna, í heila viku!, þar sem ég sit á Lollandi, Falster, í Marielyst í sumarhúsi.

Vegna þess að það er langt síðan ég sagði sögur, þá er hér smá samansafn (áráttuþráhyggjan í mér getur ekki haft að ég hoppi yfir þessar myndir) af því sem á dagana dreif síðan síðast og þar til nú.

Annað: af því að nú þekki ég sjálfa mig svo ótrúlega vel að ég veit að ég ætti ekki að segja það, en löngunin er svo sterk svo ég læt það vaða: Ég ætla að blogga á hverjum degi héðan í frá, að því er nemur 90 – 100%. Þ.e ég gef mér smá séns með að það kunni að detta út nokkrir dagar. Það verður að hvetja mig áfram eins og íslenska landsliðið í fótbolta, húh, húh.

Nú er að sjá hvort ég er hér til að duga ellegar drepast. Hvort ég sé kona eða mús. Nú girði ég mig í brók, bretti upp ermarnar og ..blogga.

arna-i-badi-1

Fyrst er hér smá syrpa með Bjútíbínu í baði. Við notuðum fyrst bláan bala úr Tiger sem var eiginlega frekar svona þvottakarfa, var úr svona mjúku plasti. Það kom gat á hann og eftir það er búið að gróður setja í hann rifsberjarunna.

Einhverntíma varð mér á, og já, ég segi varð mér á að bjóða henni þá að koma í bað í kubbakassanum. Hann hefur verið uppspretta mikillar sápukúlu-kátínu síðan þá og kubbarnir bara á gólfinu.

arna-i-badi-5

Ég á svona myndir af krökkunum einhversstaðar hér á blogginu. En hér er hún svo sakleysisleg í framan. Risa stór augu og fegurðin ein.

arna-i-badi-4

Brýst þá fram hin sanna Bjútíbína. Glottið sem við þekkjum orðið svo vel læðist fram á andlitið. Ég veit auðvitað ekki hvað hún er að hugsa eða undirbúaþarna undir allri sápunni.


arna-i-badi-3

…en ég var samt nokkuð viss um að það var eitthvað… Sjáiði! Haha! Svipurinn er ótrúlegur. 

arna-i-badi-2

Mögulega endaði þetta þannig að hún svketti duglega yfir móður sína og yfir allt baðherbergið og fékk svo nokkrar skammir í hattinn fyrir. Hehe.

Númm, eins og ég nefndi þá kom pabbi minn í heimsókn um daginn. Við fórum víða í góða veðrinu. Til dæmis smelltum við okkur í dýragarðinn. Það er alltaf jafn gaman að koma þangað, langt síðan við höfðum farið, og alltaf jafn gott að komast uppá Frederiksberg. Við elskum Frederiksberg.

arna-i-kenguru

Bína fann sér nýja móður. Ég bað hana vel að lifa.
thorvi-i-bellabyhave

Þarna er Eiginmaðurinn góði í Bellaby have. Við skondruðumst yfir til að vökva garðinn sem við erum með þar og komumst að því að á þessum hól er verið að koma fyrir allskonar leiktækjum úr tré. Rólur í trjánum og svona hitt og þetta. Ég bókstaflega e l s k a hvað daninn er ótrúlega manneskjulegur. Allt fyrir manneskjurnar í bænum gert.

uppskera-ur-bellebyhave

Þetta er uppskera úr Bella-garði. Þokkalega mikið af grænkáli og mísúna salati.

uppskera-ur-svalagardinum-1

Og hér smá uppskera af svalagarðinum. Rifsberin er ég bara að frysta meðan ég safna í svosem eins og eina hlaupkrukku. Basilíkunni breyttum við í pestó og dillið fór á að mig minnir fiskinn.

uppskera-ur-svalagardinum-2

Fallegt!

hand-prjonad-til-solu

Missjónið sem ég er á, sem er að klára allt garnið sem ég á, er alveg að drattast áfram. Þessar flíkur fóru í sölu í Gallerí Bardúsa nú fyrir helgi síðustu.

Ég hef leynt og ljóst ákveðið að vera meira stolt af því sem ég er að gera og geri vel. Ég hef nefnilega verið haldin ákveðinni hugsanavillu þegar kemur að því að segja frá því sem ég geri vel, hef verið meira dugleg í að draga fram í ljóskastarana alla gallana sjáðu til.

Partur af því er að segja þér, þó ég sé svakalega stressó um að kasta álögum á það með því að segja upphátt, að það er mjög mikið að gera í fyrirtækinu mínu (ég er vefhönnuður fyrir þá sem ekki vita) og núna um daginn seldi ég mína fyrstu pjötlu í Etsy búðinni minni. Það var græna sjalið. Mér fannst það mega upplífgandi! Nú held ég ótrauð áfram og býð spennt eftir næstu sölu :)