Er að lesa bækur eftir einn af mínum uppáhalds rithöfundum, Brené Brown. Hva! Hélstu að ég myndi aldrei lesa neitt? Ég reyndar er ekkert að lesa  heldur kaupi ég bækur í gegnum app í símanum sem heitir Audible og svo smelli ég bara á play meðan ég er að skúra eða hjóla. Tæknin í dag getur alveg verið frábær.

Í einum hluta nýjustu bókar sinnar spyr hún rannsóknarviðfangsefni sín hvort þau haldi að fólk almennt sé að gera sitt besta, miðað við þau tól og tæki sem það hefur.

Mín fyrstu viðbrögð eru já. En svo eiginlega nei. En svo já. Almennt held ég að fólk sé að gera sitt besta á því mómenti sem það framkvæmir. Nú erum við ekki að tala um teikningu barns eða þannig heldur kannski frekar tilfinningaleg viðbrögð við hinu og þessu.

Suma daga getur verið að það besta sem ég get gert er að taka flóttamann/konu/barn frá Sýrlandi upp á mína arma (nei, bara því það hefur verið mikið í umræðunni) aðra daga gæti mitt besta verið hortugheit og frekja við bankastarfsmannsstaulann.

Mér finnst þetta vera gild spurning við allt sem ég er að gera. Er þetta mitt besta?