Ég hef stundum þurft að taka erfingja krúnunnar (sem er úr gulli) með mér til vinnu. Oftast koma þau öll með og eru að gúffa nammi (vegna þess að ég hef samviskubit að draga eymingjans ungviðið inná atvinnusvæði) og horfa á mynd í tölvunni eða eitthvað slíkt.

Eitt skiptið kom bara Sprengjan með, ekki man ég hvar hinir fræknu strákar mínir voru staddir akkúrat þá, kannski bara heima með föður sínum. En hún kom með og vann sko fyrir kaupinu sínu, sem var kókómalt flaska.

Hún er indæl blessunin og á bara eftir að vera 7 ára í 3 daga í viðbót.. það liggur við að ég sé farin að fá fyrirvaraverkjaminningarnar strax..ojoj.

Við hjóluðum sko með hjólin í Metró en ákváðum að ganga smá meðan hún svolgraði kókómaltinu í sig. Mér finnst útbúnaðurinn dásamlegur..bleik í bak og fyrir og að sjálfsögðu með sólbrillurnar uppivið. Fyndið með hvernig hún hefur byrjað að klæða sig. Gallabuxur eru á bannlista.. svörtum bannlista. Allt sem er vítt og þægilegt og er ekki líklegt til að ýta undir sprengiefnið er í lagi að voga sér í. Helst er að hún vandrar hér út í leggings og í stuttbuxum yfir, með leggings eða hvaða brækur það eru sem hún er í, vandlega girt oní sokkana.

Haha, frú tannlaus.

Hún er bara eitthvað svo mikill snillingur. Það er gaman að tala við hana og hún syngur súper vel. Það er hinsvegar hundleiðinlegt að eiga við pirringinn í henni, alveg arfaleiðinlegt. Hún er alger tappi.

Eins og ég segi.. tappi.

Og það er þessi líka. Var ég búin að segja frá því að einn daginn hér í sumar ákvað ég að taka til í mínu lífi og einfalda það. Það er útaf fyrir sig ein besta ákvörðun sem ég hef tekið. Mér hefur hinsvegar ekki endilega tekist að koma hausnum á mér í skilning um að það sé svoleiðis núna að ég lifi einföldu lífi en ekki flóknu lífi þar sem óskin ein væri að ég gæti klónað mig svo ég gæti sinnt öllu sem ég tek mér fyrir hendur.

Sem dæmi um einfaldað líf þá hætti ég í skólanum (líka því mér fannst hann ekki alveg vera að gera sig) og fer bara í einn spilatíma á viku og þar með er það næstum upptalið.

Sem dæmi um hvað hausinn á mér er seinn til þá var ég alltí einu búin að skrá krakkana í tónlistatíma, karate og sundkennslu. Þannig að vikan leit þannig út að það var bara miðvikudagurinn sem enginn var að fara að gera neitt.. þá af krökkunum.

Það var reyndar tilfallandi að bæði tónlistin og sundið kom uppá, en því ætla þau að halda áfram en salta karate um tíma. Fjúkk segi ég nú bara, því það er kalt úti og rok og ég nenni alls ekki að vera að puða með þau alla daga vikunnar þvers og kruss um Kaupmannahöfn.

Allavega er það þá þannig núna að Frumburður lærir að berja húðir, Sprengjan lærir að strjúka strengi á fiðlu og svo stunda þau sund. Fiðlan hefur bæst í hóp þeirra hluta sem Sprengjan kýs að sofa með.. hún sefur mjög gjarnan á litunum sínum og umvafin blöðum og 20stk bækur er ekki óalgeng sjón á morgnana. Örverpið fær ekki að gera neitt og varð illa móðgaður þegar ég tilkynnti á föstudaginn að ég og hann værum ekkert að fara ofan í sundlaugina heldur bara krakkarnir. Ég þurfti að grípa til nammis, til að fá hann til að hætta kjökrinu.

Æ.. þú veist, ég er stundum ekki alveg viss, en hann taldi það óhæfu algera að fara ekki með tvo bangsa í búðina í morgun. Einn er þarna í kerrunni og hinum tróð hann samviskusamlega oní bakpokann sem hann er með.

Og því það er laugardagur eða með öðrum orðum nammidagur þá verslaði ég nammi handa þeim. Það er allt í góðu finnst mér svo lengi sem það er bara á nammidögum. Örverpið er rosalegur.. ROSAlegur þegar kemur að því að éta eitthvað gott. Hann stoppar bara ekki. Ég lagði til að hann myndi ekki éta allt nammið og hann mátti ekki byrja á því fyrr en eftir hádegismatinn. Hann skaust svo inní herbergi eftir mat en kom strax aftur fram því honum fannst ekki hann hafa fundið nógu góðan stað til að sitja og borða nammi. Hann henti sér í sófann og sat þar og japlaði. Ég spurði hvort hann ekki ætlaði að geyma smá þar til á eftir, hann umlaði eitthvað og ég gleymdi síðan öllu um það.

Svo vorum við úti og kominn kaffitími og ég spyr svona hvort hann sé ekki orðinn svangur og jú hann var það og það var því ÓVART borðaði hann allt nammið og fyrir einhverja galdra þá hurfu að minnstakosti 4 stykki af nammi..

Þau eru yfirhöfðu meirihátta dugleg mín börn. Og það voru þau í dag sem aðra daga. Ég tók til í geymslunni og henti því sem hafði fæðst þar inni síðan ég tók til þar síðast. Þau voru að gaufast á hjólaskautunum og ég sagði um það bil 100 sinnum að þau mættu ekki fara upp og niður tröppur á þeim. Þau gerðu það í svona 99 skipti og fóru síðan síðasta skiptið (bara því ég var of nálægt til að hægt væri að hætta á að óhlíðnast einusinni enn) á rassinum niður tröppurnar og það með hjól og hlaupahjól..

Það er greinilegt á Jóhannesi þarna efst í tröppunum að hann hafði fyrir algera slysni étið allt nammið..

Örverpi og Sprengja í haustinu. OK,.. það lítur kannski ekki mega mikið út fyrir að vera haust, alveg hágrænt gras og svona.. en það er þarna eitt tré með algerlega gulnuð lauf og það er þytur í laufi og lopavettlingarnir komnir uppúr skúffu. Búin að vera með þá í tvo daga meira að segja og tilgangur tiltektar í geymslunni var einmitt að sækja úlpurnar. Þetta fer allt að bresta á, vonandi verður þetta frábært haust og enn betri vetur því ef það verður það ekki og svona lítið sumar eins og var í sumar þá er ég flutt eitthvað annað og hananú.