Tréleikplássið er eitt af mínum uppáhalds stöðum hér í Kaupmannahöfn. Reyndar er ég mjög hrifin af öllum leikplássunum hér. Það er sannarlega ýtt undir ímyndunaraflið. Mörg leikpláss hafa trampólín, það er með eindæmum gaman. Á tréleikplássinu, sem er hér rétt hjá, er svona renniróla. Ég veit náttúrulega ekkert almennilega hvað svona róla heitir en hjá mér heitir hún renniróla. Ekki bara fyrir börn..
2015-10-24 17.21.45

Á sama leiksvæði eru auðvitað rólur. Þessi mynd sýnir fullkomlega andstæðuna sem Fagri og systir hans eldri eru. Hún á fúllsvíng á hvolfi og hann að prufa að koma sér niður í gegnum róluna, sitja svo fastur en finnst það eiginlega bara betra.
2015-10-24 17.23.47

Þessi.2015-10-24 17.23.57

Og þessi.2015-10-24 17.26.33

Þú sérð afhvejru ég er svona hrifin. Þetta er ekki í einusinni í fyrstaskipti sem ég blogga myndum frá ferð á þetta leiksvæði. Mér finnst það ÆÐI! Og haustlitirnir eru dásemdin eina.


2015-10-24 17.27.22

Ég prufaði þetta apparat. Það gekk ekki eins vel og þeim gengur á þessari mynd. Þetta er heldur ekki eina ferði á tréleikplássið sem ég blogga í þessum pósti:

2015-10-31 14.40.40

Í þessari ferð vorum við með gest með oss og hittum hænu. Það er hænsnakofi þarna. Er ekki bara merkilegt að það geti verið 6 spikfeitar hænur í búri á miðju leiksvæði í miðri stórborg og þær eru alveg pollrólegar og enginn gerir þeim neitt. Þær voru að éta kartöflur þegar við komum, þá þær sem voru inní búrinu. Ein far hinsvegar fyrir utan búrið. Ég held reyndar að henni hafi verið hleypt út af einhverjum prakkara. Við sem ábyrgir borgarar gerðum auðvitað okkar skyldu og skiluðum bollunni í búrið. Þarna er Bjútíbína að gera sitt besta til þess að ná hænunni. Hvort hún ætlaði að setja hana inní búrið eða toga í fjaðrirnar á henni veit ég ekki.

2015-10-31 14.44.31

Við (ekki ég samt, ég mun ekki koma við neinn ókunnugan salmonelluhýsil nema ég fái ríkulega greitt fyrir) náðum henni og settum aftur inní búrið. Eltingarleikurinn var nánast enginn, hún var bara svo gasalega róleg blessuð hænan.

2015-10-31 14.49.40

Gesturinn var hann pabbi minn og þarna eru þeir strákarnir, eins og strákum ber, að dúdda eitthvað og skoða einn af trékofunum sem einmitt er trékofi, uppí tré.

2015-10-31 14.46.10

Á leiksvæðinu er líka risabekkur. Þar er búið að vefa bak á bekkin að hluta. Mér finnst það GEGGJAÐ! Mig langar í svona stóran bekk og vefað bak.

2015-10-31 15.14.12

Svona ferð endar fólk auðvitað bara með smá fíflagangi. Hvað er Únglíngurinn að gera svona á brókinni í sandinum? Það var ekki ég sem girti niður um hann en hann er líkari sínum yngri bróður heldur en systur sinni eldri og var líka að gera tilraunir til að komast í gegnum fjárans róludekkið.

Þetta fór einhvernveginn svona:

Ekki nóg með að hafa farið á uppáhalds leiksvæðið þá fórum við líka á uppáhalds matsölustaðinn minn.

2015-10-30 12.31.15

Sporvagninn góði. Gvakamóleborgari. Mmmmm! Bjútíbína úti að borða í annað skipti í sínu lífi, næstum því jafn oft og ég hef farið hehe.

2015-11-01 10.56.31

Svo þurfti líka að byggja svolítið með afa. Svo merkilegt að þó við sjáumst ekki oft þá tók hún hann alveg að sér. Spurði svo um hann í marga daga á eftir og þekkir á myndum. Hvar er afa? Góð spurning.

2015-11-06 15.05.27

Við fórum síðan í búðaleiðangur þar sem ég keypti mér þennan frábæra jakka, sem er eiginlega peysa, peysujakki. Veit ekki alveg hvaða andlit er á okkur samt. Veit ekki hvort það er síminn sem er að taka sjálfkrafa lélegar myndir eða hvort ómyndarlegheit mín eru bara aldrei að eldast af mér.

2015-11-07 16.21.56

Ferð á annað leikpláss. Þar er róla í formi hengirúms.

2015-11-10 19.01.58

Eiginlega hafa síðustu 2 vikur verið hálf undirlagðar af einhverjum óværum og endaði þriðjudagurinn uppá spítala með Bjútíbínu. Hún var bæði með sýkingu í augum og svo var hún grunuð um að hafa nælt sér í blöðrubólgu. Það sem við þurftum að gera til að athuga það var að vera inná spítalaherbergi með hana bera að neðan og elta hana með pissuprufuglas. Tvisvar. Jámm. Þeir vilja vera alveg vissir hér. Taka tvær pissuprufur. Þetta allt tók 5-6 klukkutíma. Hún lék á alls oddi þarna. Hafði alla vora athygli. Á myndinni eru þau að borða mat úr pappakassa. Egg, tvær rúgbrauðsneiðar með nútella og jógúrt.

2015-11-11 10.06.36

Hún er orðin hress í dag. Engin blöðrubólga þó allt hafi bent til þess. Og augnsýkingin farin.
2015-11-11 13.54.07

Daginn eftir spítalaferðina gátum við ekki annað en bakað. Á einhverjum tímapunkti fattaði hún sína eigin spegilmynd í hrærivélarskálinni og varð svona líka fúl. Gargaði á sig “nei, nei, nei” og lamdi í skálina. Ég var auðvitað að pissa í mig af hlátri.2015-11-11 14.33.56

Svo fengu þær sér kakó systurnar. Stóra fékk sér heitt úr kaffivélinni og litla fékk bara kalt hálft glas. Hverskonar sanngirni.

2015-11-13 10.24.41

Í dag hinsvegar fórum við í klippingu. Hún í fyrstaskiptið á æfinni. Ég gleymdi að taka mynd af klipptu hárinu. Geri það á morgun.

Af hinum meðlimum Félagsbúsins er þetta að frétta:

Únglíngurinn er eiginlega að gera okkur mjög stolt, bara svona með tilveru sinni. Það er Sprengjan líka að gera. Merkilega nokk þá er þeirra eina vandamál að þau eru alltaf að missa augun í hringi í augnatóftunum og eru hálf löt. En þau eru klár, dugleg í skólanum og alveg á fleygiferð að stækka.

Fagri er líka dásamlegur. Hann er að gera stöff sem 9 ára gera. Klifra og gera gat á brækurnar sínar, spila MineCraft í tölvunni, vera með litlusystur sinni í herbergi og reka tærnar í.

Eiginmaðurinn hefur skipt um vinnu. Það er reyndar langt síðan og ég man ekki hvort ég var búin að segja frá því. Hann er að vinna á Wulff & Konstali, er þar yfirkokkur og vinnur ekki á kvöldin. Það er meira geggjað en tréleikplássið mitt ástkæra.

Ég er bara við sama heygarðshornið. Það er reyndar alveg húrrandi mikið að gera í fyrirtækinu mínu, sem ég vinn ein í og það við hliðina á uppþvottavélinni, hehe, merkilegt að segja fyrirtæki, en það er það samt og ég vinn í því. Flautan mín aldrei langt undan, æfing á mán og þri.

Það er af öllu gott að segja, nema að það er ótrúúúúlega mikið myrkur og apparentlí er ég ekki að taka því vel. Hvernig erða að manneskja alin upp á Íslandi verður bara verri og verri með aldrinum í skammdeginu.. svona á móti því að venjast því og verða betri?

Við höfum því ákveðið að sækja jólaljósin sem fyrst og lýsa upp tilveruna!

Góðar stundir :)