Skemmst er frá því að segja að Frumburðurinn er kominn heim.

Lengri saga er að ég var með hraði ættleidd af japönskum hjónum á flugvellinum hér í Kóngsins Köben. Það var þannig að ég fór að taka á móti minni fögru eiginkonu þegar hún kom frá hinu fagra Íslandi til hinnar fögru Kaupmannahafnar. Ég sat í mestu makindum á grjóthörðum og ótrúlega fáum stál sætum þarna við komufarþega hliðið og skrifaði tilfinningar mínar í skrautlega bók, gott ef ekki ég komst að einhverju rooosalegu rétt í þann mund að við hliðina á mér settist kona af japönsku bergi brotin. Hún var þarna með manni sínum. Hann fór að athuga eitthvað og þegar hann kom til baka kom í ljós að það var ekkert sæti handa honum við hliðina á henni því ég var jú þar og skipaði hún honum, svona með handabendingu snöggri til vinstri, að setjast bara við hliðna á mér hinum megin. Þarna sátum við.. hann, nýji faðir minn, svo ég og þá nýja móðir mín. Jebb, þetta var allls ekkert vandræðalegt að óþægilegt. Eftir ekkert svo langan tíma losnaði sætið við hliðina á henni og hún með sömu snöggu handabendingunni, nema núna í hina áttina, benti honum að hendast yfir.

Þau voru samt falleg. Það er að segja,  þau töluðu af virðingu hvert við annað. Þó ég hafi ekki skilið baun í bala hvað þau voru að babla, en það samt skein af þeim að þeim þótti vænt um hvert annað. Hún ræður í þeirra sambandi það er alveg ljóst, en hann er hennar stuðningur.

Skil ekki hvernig þau gátu samt bara yfirgefið mig orðalaust, nýju foreldrarnir.. en ég var frelsinu fegin auðvitað enda á ég bestu foreldra í heimi og þeyttist með eiginkonuna í einni og töskuna hennar í hinni heim á leið.

Og bara til að tæpa aðeins á ferðalagi Frumburðar. Hann fór s.s í skólaferðalag í þarsíðustu viku og var frá mánudegi til fimmtudags einhverstaðar í Danmörku… ég er hreint bara ekki með á hreinu hvar. Ég ætti kannski að tékka á því við tækifæri. Og um leið og hann kom heim var pakkað upp úr töskunni hans (mjög mis lyktin enda varla verið baðaður og legið í útlegð einhverstaðar í fleiri daga) og hent í þvottavél og þurrkara og strax næsta morgun þeyttumst við með hann á flugvöllinn því hann var jú að fara heim til Íslands. Og það í miðjum gosmekki. Eða ekki alveg, það var ekkert að fluginu hvorki heim né heim.  Hann var bara hinn sprækasti og sagði þetta ekkert mál, enda er hann jú, amk að því hann sjálfur segir og hver veit það betur en hann, bestur í öllu og veit allt.

Hér er vonsku veður… trúirðu því?? Rok og rigning. Eitthvað er samt þægilegt að sitja inni við í því veðri og í dag var fyrsti dagurinn í marga daga að ég ekki þurfti út að skúra. Ég kvartaði svo mikið hér fyrir stuttu að Vælubíllinn kom og laggði bara hér fyrir utan. Hann sá ekki tilganginn með að fara neitt annað, ég væri hvort eð er alltaf að hringja. En fjandakornið, mér var illt og tók þá ákvörðun að hringja í atvinnuveitandann góða og segja honum að ég gæti ekki tekið annað húsið mikið lengur (maður þarf sko að ganga annnnsi margar tröppur berandi þungar sápuvatnsfötur og Nilfisk iðnaðarryksugur, í 900fm húsi og engin er lyftan já og búúúhúúú..) og óskaði eftir öðru verkefni. Hann tók vel í það. Þar næst ákvað ég að taka því rólega og fara í Metró á leiðinni heim, í staðinn fyrir að taka sprettinn heim. Þannig hefur mér, með því að taka því ögn rólega, tekist að vera ekki að drepast allstaðar. Vælubíllinn er farinn.

Annars finnst mér kaldhæðnislegt að vera að óvervæja (overveje eða ígrunda) að í alvörunni að kaupa hér einhvern til að þrífa mína íbúð meðan ég fer að vinna.. betur þekkt sem “fer að skúra”. Í allri tilrauninni til að spara mér sporin og verkin til að auka tíma minn sem ku jú vera peningur og ég er algjörlega ástfangin af peningum að ég ákvað að byrja að nota uppþvottavélina sem hér stendur í eldhúsinnréttingunni og búin að standa í þessi tæpu tvö ár sem ég hef búið í þessari íbúð. Þannig er að ég hef bara notað hana sem geymslu. En um helgina tók ég það sem var í skúffu með óskilgreindu dótaríi í og setti í poka, setti dótið úr uppþvottavélinni í þá skúffu og henti pokanum í geymsluna. Og byrjaði svo að þvo. Þetta þýðir góðir hálsar að ég er kannski búin í eldhúsinu um klukkan 8 eða svo að kvöldi en ekki klukkan ég veit ekki hvað.. tíu. Ekki að það taki mig 2 tíma  að vaska upp, það er bara þægilegt að getað raðað öllu bara þarna í og svo ýtt á play og á meðan getur maður gengið frá öllum hinum óþverranum.

Mitt líf kemur bara til með að verða betra, innihaldsríkara og flottara. Allir sem ég þekki og allir sem vita hver ég er eru 100% dásamlegt fólk.

Aðra sögu er að segja af hjóli þess sem var og hét, sem ég fékk lánað síðasta sunnudag til að puðra milli vinna með Örverpið í eftirdragi. Því barnastólnum fyrir mitt hjól hefur verið stolið, þá fékk ég hans hjól lánað. Ég þusaði um sveittar hjólferðir fyrr í haust, um það má lesa hér, en þessi ferð sló út öll met.. ég get auðvitað ekki farið að segja það hér á alnetinu, fyrir allra augum að ég er ennþá að jafna mig í kl******m  eftir þessa salíbunur um alla Köben. Örverpið hafði það bara fínt í sætinu sínu og sofnaði meira að segja undir rest..

Hann er garðyrkjumaður upprennandi. Það var hann sem sáði karsa í leikskólanum og kom stoltur með heim og það var hann sem sáði í gróðrarstöð Félagsbúsins þetta árið og það er hann sem sér um að vökva með litlu stolnu grænu vatnskönnunni sinni. Ég tæpti á því hér hvernig kannan kom inn á vort heimili.

Ég er að hugsa um að gefa þetta blogg út á bók, einhver sem styður það?