Ég er afburða léleg saumakona. Ég hef gert tilraunir til þess að sauma bæði föt og líka sauma út. Mér gengur ekkert í þeim fræðum. Ég er að spá hvort það tengist vangetu minni til þess að sníða mér stakk eftir vexti.

Eins og alþjóð veit (því ég er þekkt og fræg) þá er ég framkvæmdasafnari. Þ.e ég safna að mér framkvæmdum til að framkvæma. Það er eiginlega ekki þannig að ég framkvæmi síðan ekkert af því eins og vill oft vera, nei, ég er eiginlega frekar framkvæmdaglöð og er fljótari til en Meðaljón.

Það sem er hinsvegar að gerast aftur og aftur í mínu lífi að ég tek mér of mikið í hendur. JÁ! Kúlitt fjölskylda og vinir, ég VEIT að þið vitið að ég er svona.  En þú veist.. þetta verður að teljast til einna af minna stærstu galla, þetta og kvartgirni mín (ég nenni ekkert að telja alla gallana upp, ef þú ert æst/ur í að telja þá alla upp, sendu mér þá tölvupóst bara).

Anyway.. þá gerðist það aftur. Oops I did it again. Fy fanden. Crap.

Ég er í fulltime skóla, parttime vinnu (í nýja fyrirtækinu mínu www.kristingudmunds.is og hjá öðrum sem framleiðir vefsíður), kenni yoga og læri að kenna yoga. Þar fyrir utan þarf ekkert að telja upp fjölskyldu og allan tíman sem það tekur að halda heimili. AFHVERJU getur fólk ekki verið á launum við að halda heimili, það er þvílík vinna, það vita það allir.

Nú veit ég ekki afhverju ég er alltaf svona bjartsýn á að allt sem ég ákveð að taka mér fyrir hendur áður en ég byrja á því muni ganga upp. Í flestum tilfellum reyndar gengur það alveg upp, þegar mér er sama um hvernig mér gengur og mér er sama hvort ég er úttauguð og þreytt allan sólarhringinn alla daga. Ef mér væri sama að vera alltaf að garga á Eiginmann og börn.

En mér er ekkert sama. Og þessvegna hef ég ákveðið að einfalda líf mitt með niðurskurði. Skera aðeins niður í náminu, get tekið áfangann síðar. Það er ekkert þægilegt fyrir mitt egó að skera niður, við  (ég og egóið) vorum jú búin að ákveða að massa þetta (ég held samt meira að egóið hafi ákveðið að massa).

Kannski er það bara staðreyndin að ég var að flytja sem er að trufla ferlið. Ég hef flutt trilljónsinnum og er hissa í hvert skipti hvað það er óþægilegt að hafa heimilisdótið í kössum og pokum. Það á eftir að mála slotið og það er megn kattahlandsfýla föst í teppi sem á að rífa af. Ekki samt láta þetta firra þig löngun í að koma í heimsókn, það eru allir velkomnir!  Ég er meira að segja búin að læra að hella uppá kaffi.

En í dag er ég alveg úrvinda og var líka í gær. Eins gott að ég er jafn heppin og ég er og á svona fagra foreldra og vini sem nenna að skutla mér og mínum hingað og þangað. Svona fyrst bíllinn er ennþá bilaður.  Hvað gerði ég eiginlega án þeirra?.. ég myndi auðvitað labba (það er langt frá því að vera í eðlimínu að deyja ráðalaus), en það er bara svo huggulegt og gott að geta fengið hjálp. Það er það sem ég kann að meta eftir að vera komin heim á Ísland aftur. Nálægð við fjölskylduna mína, hún er svo hlý, og við vini mína.