Mér líður rosalega undarlega með allan þennan snjó. Bíllinn vart keyrsluhæfur svo ég fór í göngu, mér til heilsubætis í dag. Lagði leið mína niður í bæ. Fyrst var bara svona veður og ég var einmitt að hugsa hvað það er gasalega langt síðan ég hef gengið um jörðina þegar hún er bara alþakin snjó, sko svona, auðvitað kemur snjór í Kaupmannahöfn, en það er bara öðruvísi.

Nú, ekkert brjálæðislega viðburðaríkur dagur, slaka á, taka til í mínímynd þess gernaðar, hugsa og stara á facebook, elda mat, sem var góður. Gerði guacamole og salsasósu frá grunni. Gvakað gott, salsasósan of kóríanderuð (smakkast eins og sápa).

Útaf því að Sprengjan bauð fjölskyldunni á tónleika í stofunni á þriðjudaginn, þar sem hún spelaði á hornið öll lögin fimm sem hún kann, sem voru reyndar æðislegir tónleikar, þá bauð Búnglingurinn okkur í spurningakeppni nú í kvöld. Stelpur á móti strákum. Spurningakeppnin var góð og skemmtileg, 3 spurningar, mjög erfiðar og við unnum stelpurnar. Sömu sögu er ekki að segja um eplakökuna sem ég bakaði að þessu tilefni.

Það var nefnilega þannig að ég hef bakað spelt, sykurlausa eplaköku, sem er svínslega góð, en get ekki fundið uppskriftina af henni aftur. Þannig ég prufaði aðra í dag, sem á netinu stóð að væri það sem allir á viðkomandi heimili lofuðu í hástert.

Ég get ekki verið sammála, en kannski finnst heimilismeðlimum þess heimilis sem kakan kom frá, vera gott að éta gubb. En hún smakkaðist einmitt þannig. Oj bara. Næstum því jafn vond og tómatsúpan sem ég gerði hér um árið, ég get varla eldað uppúr þeirri bók aftur, fyrir því hvað sú súpa var viðbjóðsleg.

Það er ekki á allt kosið.

Örverpið kom fram í sjónvarpinu með Mugison í gær. Hægt að sjá það á ruv.is, kastljósið 30.nóvember, er síðasta atriðið. Hann er þessi með tvílitahárið.

Svo eftir spurningarkeppnina lentum við nýji eiginmaður í hárgreiðsluleik. Mér var ekki greitt, en í víravirkið var troðið teygju og allskyns hársmellum. Nýja Eiginmanninum var greitt af Örverpinu og áður en hann fékk blikkað auga eða í raun og veru fattað hvað var í þann mund að gerast var Örverpið búið að sleikja með blautri tungunni á sér lófana og smella því í hárið á Eiginmanninum. … við aðeins fórum að spyrjast fyrir um hvar í ósköpunum hann hefði séð þetta.. enginn hér sleikir á sér hendurnar og klínir í hárið á sér.

Svarið var: “í Tomma og Jenna” !