Hvað ber að nefna fyrst ég hef ekki skrifað um venjulegar hugsanir síðan í Nam. Áðan var mér boðið á leikrit þar sem aðal leikonan var Sprengjan. Það var algert æði. Þarna er hún ásamt parti af bekkjarfélögum sínum að leika í leikritinu sem var um að ferðast um tímann, s.s til ársins 1900 og svo til ársins 3000 í “tidsmaskine”. Klikkað flott! Það var stomp, þar sem stjarnarn mín spilaði á gamaldags ketil-lok. Svo var sungið og auðvitað leikið. Hún var eitt af nútíðarbörnunum, en svo voru hinir fortíðar og framtíðarbörn.

Búnglingurinn fallegi sem er varla búinn að opna annað augað á morgnana fyrr en hann hefur spurt hvenær hann megi kaupa sér eitt eða annað. Síðast sagði hann, að næst þegar við færum að kaupa húsgögn þá ættum við að kaupa handa honum svona stóran Fat Boy grjónapúða. Númm.. hann er greinilega haldinn einhverri blindu blessaður því við kaupum aldrei nein húsgögn. Ástandið er meira að segja orðið þannig að við eigum hvorki matar né djúpa diska fyrir okkur öll að borða saman. Ha,ha, tveir verða alltaf að éta af plastbarnadiskum eða úr djúpum disk, séum við að snæða af flötum diskum.

Og hann er sniðugur líka búnglingurinn. Ekki nóg með að hann sjálfur sé ekki búinn að opna augun þegar hann fer af stað í hausnum með viðskipti dagsins, heldur hefur hann tekið uppá því að búa til “samning” við hálfsofandi (eða sko…ég er náttúrulega bara alveg sofandi) móður sína. Í morgun hljóðaði hann svona: “ef ég tek til í herberginu í svona tvær vikur (ég elska hvað hann er skemmtilega óraunsær en samt snjall, hann er fullbarnorðinn) má ég þá kaupa mér boxið með kortunum í? (fótboltamyndakort)”

Ég beit næstum á agnið og umlaði næstum því, jájá, en var bara svo heppin að ég slefaði óvart um leið og náði að vakna nóg til lífs til að segja honum að það stæði það sem ég sagði við hann í gærkveldi, að ég yrði að sjá það fyrst að kortin sem hann á nú þegar, sem liggja bókstaflega útum alla íbúð, ættu að vera snyrtilega frágengin áður en ég, fröken drottning, fer að íhuga fjárfestingar af þessu tagi.

Örverpið hefur verið í fríi í vikunni. Enn og aftur, bara því við getum haft það þannig. Er það ekki frábært, við höfum bara hér tækifæri í höndunum til að leifa honum að vera bara heima þegar okkur sýnist. KLIKKAÐ.

Hann er ennþá bara barn. Ekki komið neitt fullorðins neitt í hann. Hann er bara sætur út í gegn. Hann bauð mér tildæmis í mat í hádeginu. Eða sko ég eldaði grautinn að sjálfsögðu en hann lagði á borð, fínu glösin og allt.

Í hundraðasta skiptið sagði ég henni að GANGA FRÁ Í HERBERGINU!!! Hún setti á sig heyrnarskjól.

Búnglingurinn að læra. Ég varð eiginlega pínu undrandi og svolítið foj því mér finnst ótrúlega asnalegt ef það er bara orðið þannig að það er hætt að lesa alvöru bækur. Þessa á tölvuskjánum las hann tildæmis.. á tölvuskjá. Mér finnst það ekki meika einn einasta sens. Og alltaf allur lærdómur í formi tölvuleikja með lærdómsríku ívafi. Ég er á móti þessu. Hann er meira að segja að gera stíl. Og stíllinn er ekki handskrifaður í stílabók ens og ég man eftir heldur er hann að gera hann í tölvunni. Mér fallast stundum hendur, verandi manneskja með mikinn áhuga á tölvum og þannig, þá finnst mér bara orðið, satt best að segja, of mikið um tölvunotkun hjá ekki eldri börnum en 9.

Að hjólinu mínu sem ég er í alvörunni ástfangin af. Reyndar ef þú kíkir vel á myndina þá sérðu skuggann af dekkinu þarna neðst á veggnum og sérð að hann er sólroðinn. Já, það er bara búið að vera sól svolítið hér. Það er ÆÐI.

En á hjólið hinsvegar er ég búin að fá mér tvö ný ljós. Sérlega vegna þess að ég hjóla afar mikið eftir svertu. Að framan er ég þá sem sagt komin með leysigeisla, sbr. stærðina á apparatinu sem gefur ljósið frá sér…

…og kastara að aftan. Þetta eru rándýr ljós og ég þori ekki öðru en að taka þau af alltaf þegar ég fer eitthvað inn. Það reyndar kannski skiptir ekkert máli hvort ég skilji þau eftir útí garði þar sem þeim verður kannski hnupplað eða að ég uppgötvi 5mín eftir að ég hefði þurft að leggja af stað, að einhver af þeim sem ég skaut úr mínum líkama fyrir ekki svo mörgum árum síðan hefur tekið þau og falið VEL.