Já það er komið að því, 3 vikur frá því ég fór í próf eru liðnar, er það ekkert undarlegt? Og þá er meira en mánuður liðinn síðan önnin endaði fyrir jól. Ég sverða, ég verð orðin áttræð áður en ég veit af. Enda er áminnarinn um að ég sé bráðum 30 farin í gang þar sem bekkjarfélagar mínir úr Grunnskóla Húnaþings vestra sem og auðvitað þeir sem ég var með í Melaskóla hehe, eru að detta í þrítugt hver á fætur öðrum. Við Bóndi höfðum talað um það í fyrra að halda risastórt partý í ár, s.s síðasta sumar þegar við yrðum samtals sextug, en hann flúði land og vildi frekar dóta sér á Hellishólum.

Stefnan er s.s tekin á landið kalda, en frábæra,  í sumar með alla fjölskylduna. Enginn skilinn eftir í þetta skiptið..segi ekki að ég hafi ekki notið sólar og steikjandi hitans sko. Svo kannski hendi ég upp partýi þegar ég verð þrítug sjáum til.

Ég er þegar búin að sjá bókalistann fyrir önnina, hann er nú eiginlega ekkert. Þrjár bækur og ein síðan á síðustu önn, það var nú ágætt.

Ég spilaði á tónleikum í dag. Árlega í tónlistarskólanum er blásaradagur þar sem allir eða flestir þeir sem æfa að blása í rör af öllum stærðum og gerðum blása eins og þeir eigi lífið að leysa. Það sem var skemmtilegt var að þar var einn lítill drengur að spila í fyrsta skipti fyrir fólk og þau hafa það að reglu að kveikja á kerti við slík tilefni, voða krúttmúffa (nýjasta uppáhalds orðið mitt). Við í Blæser spiluðum þrjú verk eftir Sibelius sem er finnskt tónskáld. Mjög flott. Sindri varð held ég hræddur og hélt fyrir eyrun. Sunneva gat ekki setið kjur og svo var hún svo þyrst að himin og jörð næstum fórust. Gvendur sem virðist vera búinn að eldast uppúr svona hamagangi sat og hlustaði og Þorvaldur líka.

Þó Sindri hafi orðið hræddur við þessa tóna þá er það svo skrítið að þegar ég æfi á sellóið, sem believe you me, eru ekki beinlínis fallegir tónar alltaf, þá steinsofnar hann alltaf, næstum samstundis. Ég hef stundum spilað frammi og hann samt sofnað en áðan ákvað ég, því það voru hvort eð er allir með hamagang að spila bara inni hjá honum í pínu stund. Ég spilaði í 3mínútur og leit svo við þá sat hann alveg rangeygður með litla koddann sinn í fanginu í rúminu. Ég spilaði í 3 í viðbót og þá var hann dottinn út. Mér finnst þetta bæði fyndið og krúttmúffulegt.

Ég fór síðan á föstudaginn með einhverjum af krökkunum í bekknum mínum út á lífið. Eða út á lífið er kannski ekki rétta orðið. Ég ætlaði fyrst ekki að nenna. En svo druslaðist ég. Ég hefði betur sleppt því, þar sem þeir bekkjarfélagar sem ákváðu að fara eru öll reykingarmenn og þurftu að sjálfsögðu að velja stað þar sem við gátum bara staðið og svo reyktu þau eins og enginn væri morgundagurinn og náttúrulega allir hinir á staðnum. Ég vill ekki hljóma eins og einhver rugludallur sko en ég kann bara alls ekki að meta að vera inná stað þar sem ef fólk stendur við barinn að þá er bara einn meter að veggnum og ekki meira pláss er á þeim stað. Eníhú, ég setti fötin mín auðvitað í þvottavél og fór í sturtu þegar ég kom heim.

Hér er síðan alveg fáránlega kalt. Það var allt hvítt þegar ég vaknaði upp með andfælum í nótt eftir að mig dreymdi að Bóndi sagði að ég væri með lús og tók lúsina úr hárinu á mér og setti í vaskinn þar sem hún skreið um og var stór sem kónguló..oj. Og í dag er bara alveg fáránlega kalt, ég sem hélt ég hefði verið að finna lykt af vori hér um daginn. Þetta er vonandi síðasta kuldatímabil þessa vetrar.

Hér má sjá sitthvað um lús…ojoj

Svo styttist í að ég hin sjálf skondrist yfir til Íslands. Fyrsta verk, fyrir utan að hitta ma, pa og sys er að fara í sund. Já, heiti pottur, hér kem ég.