Hver er þetta? Jú, þetta er nýji gamli skífusíminn minn. Einhverstaðar á ég, eða átti svona svartan. Hann vill ég fá aftur. Verst ég veit ekkert hvað ég gerði við hann. En mikið er hann þessi flottur! Ég fékk hann á 5 krónur í danska Græna Hirðinum hér rétt hjá. Hann ásamt 9 kökudiskum og 3 djúpumdiskum keypti ég á skít og kanil. Ég elska endurvinnslubúðina.

Ég er með tilfinningasveiflur varðandi flutningana á háu stigi. Nú þegar er ég búin að mála gluggakarmana og klósettið á húsinu sem ég vill eignast. Stinga þar upp kálgarða mér til gagns og gamans og pota þar niður góðgæti. Ég held ég myndi ná því ef ég myndi stinga upp og pota niður sama dag og ég kem heim.

Mér líður ekki vel þegar ég þarf að bíða. Það hefur alltaf verið svoleiðis. Óeirðargellan inni í mér er í kasti yfir þessu öllu. Ekki varð henni nú gott af því að fara í Fields ferð með ungviðið að finna Öskudagsbúninga. Aldeilis ekki. Hitinn og allir hinir krakka ormarnir urðu til þess að ég sór þess dýran eið að fara ALDREI þarna inn aftur. Sem betur fer lítur út fyrir að þau eldri amk séu að vaxa uppúr svona “kaup” búningum, Búnglingurinn hefur t.a.m búið sér til átfitt sjálfur. Fer sem ég veit ekki hvað, en hann má eiga dugnaðinn.

Það er satt að fólk breytist. Fröken Bústýra sem áður lifði fyrir að fara í verslanamiðstöðvar, IKEA og annað búðaráp, hefur gefist uppá slíku og þarf núna að setja sig í gírinn bara til að fara í Fields. Ég fer aldrei í Fisketorvet nema ég sé hvort sem er að fara þar framhjá, þurfi ég þú veist, því það er algerlega útúr leið og engin lest gengur þangað með viti. Ég hata græðgisbúðir. OJ.